Leiklist
Þorgeir
Tryggvason
Allar ofurhetjur eiga veikan punkt. Akkilesarhæl eða kryptonít. Fyrir Magnús, sem gegnir líka nafninu Kafteinn Frábær, er það raunveruleikinn. Allar eiga þær líka upprunasögu. Kóngulóarmaðurinn var bitinn af geislavirkri áttfætlu og Akkilesi dýft í ána Styx. Kafteinn Frábær er afrakstur ímyndunaraflsins. Kvöldsaga fyrir dóttur Magnúsar sem tók yfir líf hans þegar hennar fjaraði út. Þessi fallegi og formlega djarfi einleikur er bæði að formi og innihaldi óður til sköpunarkraftsins og um leið viðurkenning á hvað hann má sín lítils gegn heiminum.
Alistair McDowall teflir djarft í þessum texta. Einn leikari miðlar sögunni. Segir hana ekki, eins og oftast er gert í einleikjum, heldur sýnir hana, óbundinn af tímaröð. Í knöppum samtalssenum þar sem ýmsum persónum bregður fyrir, þó miðjan sé alltaf Magnús, pínu sérvitur og jafnvel einrænn starfsmaður í byggingarvöruverslun.
Einmanalegt líf hans tekur stakkaskiptum þegar hann kynnist konu, byrjar samband og eignast dótturina, áður en ástin dofnar og sambandið rofnar. Verður síðan Kafteinn Frábær kvöld eitt þegar illa gengur að svæfa barnið. Hliðarsjálf sem kannski ver hann fyrir mesta harminum þegar óskilgreindur sjúkdómur byrjar að draga mátt úr stúlkunni. En skapar auðvitað líka alls kyns vanda í samskiptum við hinn ytri heim, hvort sem það er úti á lífinu eða á vinnustaðnum.
Þetta er ákaflega skemmtilega skrifað verk. Aðeins skortir upp á að McDowall sigli grunnhugmyndinni í höfn í lokin, en lengst af er þetta mjög sannfærandi og býður leikurum upp á mikla möguleika til að glansa, standi hann á annað borð undir kröfum þess um innlifun, tækni, tímasetningar og útgeislun. Ævar Þór Benediktsson neglir þetta allt. Það er ekki eins og hann sé búinn að vera lengi fjarri leiksviðinu. Frábærlega leyst á öllum póstum. Bæði þeim hugnæmu, í samskiptum við barnið, og þeim morðfyndnu, eins og þegar þeir kollegarnir Kafteinn Frábær og Leðurblökumaðurinn hittast yfir kaffibolla, eða þegar hroðalega skoplegur mannauðsstjóri tekur Magnús á teppið fyrir skikkjuna sem hann neitar að skilja eftir í búningsklefanum þegar hann aðstoðar viðskiptavini um val á réttu málningunni og skrúfunum.
Umgjörð er nánast engin, utan svartmálað sviðið í Tjarnarbíói, en lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar gerir sitt til að forma rýmið, afmarka senur og búa til stemningu. Þar kemur hugnæmt og fallegt titillag Svavars Knúts líka í góðar þarfir, fyrir utan að eiga skilið lengra líf utan sýningarinnar.
Af þeim fjölmörgu einleikjum sem leikhúsgestum hefur verið boðið upp á undanfarna mánuði er Kafteinn Frábær trúlega sá sem reynir mest á formið. Þeim mun gleðilegra er hvað vel tekst til. Enginn skyldi vanmeta ofurkraftinn sem leysist úr læðingi þegar saman kemur vilji áhorfenda, erindi og tækni frumlegs höfundar og fimi túlkanda. Ekkert kryptonít vinnur þar á.