Tæplega sextíu manns söfnuðust saman á Kænugarðstorgi í gær. Þrjú ár voru síðan Rússland réðst inn í Úkraínu og markar dagurinn þrjú ár af sársauka, missi og seiglu fyrir Úkraínumenn. Iryna Hordiienko, verkefnafulltrúi í málefnum fólks á flótta hjá Rauða krossinum, sagði daginn hafa verið erfiðan en fallegan. „Margir komu ekki upp orði; þegar þau vildu segja eitthvað byrjuðu þau að gráta,“ sagði Iryna. „Það var samt gott fyrir okkur að hittast, sérstaklega fólk sem er hér eitt án fjölskyldu sinnar. Hér eru margir sem eiga menn, feður eða bræður í stríðinu og einnig margir sem hafa misst ættingja sína og heimili sín.“ Á staðnum var prestur og beðið var bæði fyrir þeim sem misst hafa líf sitt og fyrir öryggi þeirra sem berjast enn. Börn sungu og fóru með ljóð. magnea@mbl.is