Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Nýr meirihluti hefur tekið við völdum í Reykjavík og þriðji borgarstjórinn hefur nú lyklavöld í ráðhúsinu á þrettán mánuðum. Enn á ný tekst Samfylkingunni að leiða til samstarfs við sig ólíka flokka þrátt fyrir tap í undangengnum borgarstjórnarkosningum síðustu fimmtán árin.
Í samstarfsyfirlýsingu þessara fimm flokka, sem nefnist Samstarfsyfirlýsing um lífsgæði í Reykjavík en er nú frekar rýr í roðinu, vekur þó meiri athygli það sem ekki er nefnt og ekkert virðist liggja fyrir um hvernig þessir fimm flokkar ætla að takast á við þau stóru heitu mál sem hafa verið til umræðu síðustu mánuðina og brenna á borgarbúum. Nægir þar að nefna skemmumálið við Álfabakka, skólamálin í Laugardal, þéttingu byggðar í Grafarvogi og víðar í borginni, samgöngumál og leikskólamál.
Samstarf
Í yfirlýsingu oddvita samstarfsflokkanna kemur hins vegar fram að þeir telji sig hafa þor, getu og vilja til að takast á við erfið viðfangsefni.
Samstarf við eldri borgara, öryrkja og fjölmenningarsamfélagið virðist hins vegar hafa verið sett í einhvern undarlegan og óútfærðan farveg og orkar það mjög tvímælis hvort lagalegar forsendur séu fyrir hendi varðandi niðurlagningu nefnda og ráða sem boðið hafa þessum aðilum upp á samráðsvettvang við borgina. Íbúaráðin eru vængstýfð og leyst frá störfum út kjörtímabilið og boðaðar eru nýjar lýðræðislegar leiðir til að eiga í samstarfi við íbúa borgarinnar. Þessar leiðir eru hins vegar nánast ekkert útfærðar þannig að borgarbúar átta sig ekki á hvað í þessu felst.
Hins vegar á að fara í ýmiss konar verkefni og samstarf sem kallar á samstarf við fjölmarga samstarfsaðila. Auka á ferðatíðni strætó og bæta þjónustu við farþega með vönduðum biðstöðvun. Þetta eru lofsverðar framkvæmdir sem munu ugglaust fjölga þeim sem nýta sér strætó. Almennt er þjónusta strætó með ágætum og fyrir það ber að þakka.
Efna á til samstarfs við verkalýðsfélögin um að hraða húsnæðisuppbyggingu og stofnun félags um þróun nýrra svæða, fara nýjar leiðir við skipulag, uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra og hefja uppbyggingu á nýju landi fyrir allt að tíu þúsund íbúðir í Úlfarsárdal og víðar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Þarna virðist horft til næstu áratuga en ekki hugað að því að hraða húsnæðisuppbyggingu strax eins og brýn þörf er á. Hefur þetta verið rætt við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar?
Samgöngumál
Varðandi samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu og þá erfiðleika sem þar blasa víða við í dag og kalla vissulega á tafarlausar umbætur er m.a. mikilvægt að flýta úrbótum á ljósastýrðum umferðarljósum í samstarfi við Betri samgöngur. Ástand umferðarmála í Reykjavík hefur farið síversnandi síðustu árin og lítið verið aðhafst á þeim vettvangi til að bæta ástandið. Augljóst er að Reykjavíkurflugvöllur verður starfræktur áfram í Vatnsmýrinni og fyllsta öryggis gætt eins og verið hefur.
Fjármál
Fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2025 liggur fyrir og er í raun nýsamþykkt í borgarstjórn. Samstarfsflokkarnir ætla að forgangsraða grunnþjónustu og fara betur með fjármál borgarinnar og sýna ráðdeild í rekstri. Ekkert liggur fyrir með hvaða hætti þessum háleitu markmiðum skuli náð og ekkert er minnst á hagræðingaraðgerðir. Á að taka upp fjárhagsáætlunina, fækka starfsmönnum eða leggja niður einhver verkefni sem eru útgjaldafrek í borgarrekstrinum?
Samstarfsflokkarnir skulda borgarbúum og öflugum starfsmönnum borgarinnar svör við þessum spurningum.
Brotlending
Einn af leiðtogum samstarfsflokkanna í borgarstjórn segir að fundin hafi verið lending í málefnum borgarinnar.
Hver trúir því? Svo virðist sem að á mörgum sviðum hafi verið um hreina brotlendingu að ræða. Á lokametrum vinnu við stofnun nýs meirihluta, gerð samstarfsyfirlýsingar og skiptingu embætta bárust fréttir af því að á ýmsu hefði gengið og samstarfið í raun hangið á bláþræði á köflum alveg fram að borgarstjórnarfundinum þar sem samstarfið var blessað. Ekki virðist ríkja mikið traust á milli samstarfsflokkanna fimm, þótt öðruvísi sé látið líta út í yfirlýsingum.
Aðgerðaáætlun
Það hefði verið gagnlegt og fróðlegt fyrir okkur íbúa borgarinnar að þessari einföldu samstarfsyfirlýsingu samstarfsflokkanna hefði fylgt einhver tímasett aðgerðaáætlun. Ekkert í samstarfsyfirlýsingunni sýnir fram á þor, getu og vilja til að takast strax á við stóru málin sem blasa við.
Ekki veitir af að nýjum meirihluta sé óskað velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum fyrir höfuðborgina. Það geri ég hér með.
Höfundur er fyrrverandi borgarstjóri.