Óskar Guðjón Vigfús Guðnason fæddist 23. júní 1944. Hann lést 17. febrúar 2025.

Útför Óskars fór fram 24. febrúar 2025.

Hann er langlyndur, góðviljaður, samgleðst, reiðist ekki, er ekki langrækinn, hreykir sér ekki upp. Þessi orð um kærleikann lýsa Óskari frænda svo vel og hafa farið um hug minn alla vikuna síðan hann dó. Minningarnar streyma fram, allar bjartar og góðar.

Óskar var yngri bróðir mömmu, í miklu uppáhaldi hjá henni og uppáhaldsfrændi minn. Alltaf skemmtilegur, léttur á sér með falleg blá augu, hlýja og glaðlega rödd.

Ég á óteljandi minningar um Óskar úr barnæsku minni. Í kjallaranum á Kirkjuteignum, uppi hjá ömmu við matarborðið í hádeginu að segja skemmtilegar sögur. Óskar að hjálpa við að mála í Kópavoginum og þegar hann kenndi mér að leggja þökur á fallegu sumarkvöldi í Birkigrundinni. Ég fékk oft far með honum út í Kópavog og það voru sko skemmtilegar ferðir með græjurnar í botni!

Á mínum fullorðinsárum þakka ég svo sannarlega fyrir að hafa átt Óskar að því hann var svo hvetjandi og jákvæður. Hann kom til mín í myndatökur og hvatti mig óspart áfram í ljósmyndun. Óskar og Badda tóku vel á móti Emmanuel þegar við fluttum heim til Íslands, studdu hann og trúðu á hann sem hefur verið ómetanlegt. Hann hjálpaði okkur eins og svo mörgum öðrum í bílakaupum og leiddi okkur í gegnum fyrsta bílalánið og tryggingafrumskóginn. Þegar Óskar mætti á staðinn fylgdi honum alltaf glaðværð. Hann var frábær ræðumaður og ógleymanlegt er þegar hann hélt ræðu í fertugsafmæli mínu.

Nú er Óskar farinn upp til himna til mömmu og allra hinna í fjölskyldunni. Það held ég að það verði nú hellt upp á sterkt og gott kaffi og tekið vel á móti honum.

Ég, fyrir hönd okkar Emmanuels og strákanna okkar, votta Böddu, Guðna Diðriki, Lárusi, Kristni Þór og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð vegna fráfalls Óskars. Minning hans lifir.

Kristín Bogadóttir.

Ég vil með þessum fáu orðum kveðja Óskar frænda minn og bróður mömmu, sem lést 17. febrúar sl. eftir stutta sjúkrahúslegu. Þá voru einungis þrír dagar síðan ég fékk símtal um að Stella systir mömmu væri látin. Þrátt fyrir að Óskar hefði ekki verið heill heilsu um skeið, átti ég ekki von á að hann færi svo fljótt. Allt of snemma.

Óskar frændi hefur alltaf verið hluti af lífi mínu allt frá því ég man eftir mér, enda einn af uppáhaldsfrændum mínum. Margar minningar koma upp í kollinn þegar ég hugsa um hann.

Meðal fyrstu minninga minna eru bíltúrar með Óskari á einhverjum af köggunum hans. Mér er sérstaklega minnisstæður bíll, líklega Ford Fairline, sem var með plötuspilara fyrir litlar plötur í mælaborðinu. Ég hafði aldrei séð svoleiðis græju fyrr eða seinna. Hann átti fullt af nýjum spennandi plötum. Svo átti Óskar síðar bíla með átta rása spólutæki (held ég) og auðvitað var Gufan ekki spiluð í bílnum heldur Radio Luxemburg og fleiri erlendar stöðvar. Gegnum hann kynntist ég allri nýjustu tónlistinni, hann var með betri græjur og spilaði með hærri styrk en gert var heima. Ég man sérstaklega eftir að hafa kynnst Bítlunum, Rolling Stones, Kinks og fleiri hljómsveitum og söngvurum gegnum hann.

Óskar og mamma voru á líkum aldri og þau voru ætíð í góðu sambandi og mjög samrýnd. Þau ólust upp á Kirkjuteignum og áttu margar góðar minningar þaðan. Þá var verið að byggja hverfið og hús með stillönsum út um allt. Þarna voru margir krakkar í hverju húsi og mikið fjör, sögðu þau. Þau áttu mikið af sameiginlegum æskuvinum og minningum.

Mér er minnisstætt þegar ég var unglingur að Óskar aðstoðaði mig við að fá vinnu og mér fannst hann sýna mér mikið traust. Þegar ég var eldri aðstoðaði hann mig við bílakaup og kenndi mér hvað ég þyrfti að hafa í huga. Í stuttu máli, þá var hann ótrúlega hjálpsamur og maður gat leitað til hans með allt. Hann er einn af þeim sem var til staðar þegar á þurfti að halda

Óskar var skemmtilegur maður, glettinn, vinamargur og með góðan húmor. Hann var frábær ræðumaður og þegar hann mætti á svæðið lifnaði allt við, hann var svo glaðlegur og bar með sér góðan anda. Ræða hans í áttræðisafmælinu er sérstaklega minnisstæð, þegar hann lék á als oddi.

Óskar var í hamingjusömu hjónabandi með Böddu sinni og stoltur af strákunum sínum þremur og barnabörnum. Það er leitt að þau geti ekki notið samvista við hann lengur.

Ég vil fyrir hönd okkar í fjölskyldunni kveðja Óskar með söknuði og eftirsjá. Ég þakka fyrir góð kynni gegnum árin. Ég vil votta þeim Bjarndísi, Guðna Diðriki, Lárusi, Kristni Þór, tengdadætrum, barnabörnum og öðrum ástvinum mína innilegustu samúð vegna fráfalls Óskars.

Svanhildur Bogadóttir.

Hann kom gangandi til mín og brosti sínu vingjarnlega brosi. „Sæll vertu, ég heiti Óskar Guðnason í JC Reykjavík. Vertu velkominn.“ „Já, sæll, ég heiti Ingimar Sigurðsson JC Húnabyggð.“ Þannig hófust kynni okkar Óskars haustið 1977 á félagsfundi í JC Reykjavík. „Þegar þú ert búinn í þessu landsstjórnarvesenu þá gengur þú í JC Reykjavík,“ sem og varð. Þar með hófst vinátta okkar Óskars og aldrei bar skugga á hana.

Óskar var afar lipur félagsmálamaður. Hann gat fengið hvern sem var til fylgis við sig. Var kurteis, ráðagóður og sýndi öðrum mikinn áhuga. Hann var mér strax mikil fyrirmynd og mikill styrkur. Skipti þá ekki máli hvort var um að ræða JC-verkefni, sem voru fjölmörg, eða hvort laga þyrfti bílinn eða snudda í einhverju heima fyrir.

Óskar varð forseti JC Reykjavíkur og sat ég í stjórn með honum. Það var afar lærdómsríkur tími. Óskar var mikill ræðumaður og þó sérstaklega var hann afar góður tækifærisræðumaður. Ótal sinnum skildi ég bara ekki hvernig hann gat náð í orðin og raðað þeim svona snyrtilega saman og ætíð talaði hann blaðalaust. Í raun var það þannig að maður beið eftir því að Óskar tæki til máls í afmælum eða á öðrum samkomum. Síðastliðið sumar hélt hann upp á áttræðisafmæli sitt og hélt að sjálfsögðu tölu. Þau Badda höfðu þá selt húsið á Garðaflötinni, svona til að minnka við sig, og „keyptu búningsklefa í Silfursmára“ eins og hann orðaði svo skemmtilega.

Haustið 2023 fékk hann Covid og það fór illa með hann. Hann missti bragðskyn og það kom eiginlega aldrei til baka. Hann fór á bráðadeildina í fyrra og hitti lækna. Spurði strax hvort það kostaði meira að liggja frammi á gangi en inni á stofu. Svo fór hjartað, sem hafði verið í valstakti yfir á sambatakt, sagði hann. Svona var hann alla daga. Húmorinn var aldrei langt undan. En þegar hér var komið sögu var hann farinn að ganga með súrefniskút, bæði heima og heiman. Það takmarkaði mjög möguleika hans t.d. til ferðalaga erlendis. Þannig urðu þau Badda að hætta við skemmtisiglingu sem var ráðgerð með vinum. Hann tók því öllu af stakri ró.

Hér mætti telja upp allar ferðirnar sem við fórum innanlands og til annarra landa, mest tengt JC-hreyfingunni eða vinum okkar í JC. Þátttaka okkar í starfi hreyfingarinnar markaði mjög líf okkar beggja. Óskar hlaut á sínum ferli í JC allar þær æðstu viðurkenningar sem hægt var að fá, enda lagði hann hreyfingunni mikið til.

Fyrir rúmum 40 árum stofnuðum við nokkrir JC félagar matarklúbb sem hafði það að markmiði að hittast tvisvar á ári, fyrsta vetrardag og síðasta vetrardag og borða góðan mat. Nú verður Óskar ekki með okkur í vor, nema í anda. Það getum við öll verið viss um. Hann var ætíð hrókur alls fagnaðar. Hans verður sárt saknað þar.

Samband Böddu og Óskars var einstakt. Þau studdu hvort annað í hverju sem var, súru og sætu. Söknuður og sorg hennar er mikil sem og sonanna og þeirra fjölskyldna. Við Ceca sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Megi minning Óskars Guðnasonar lifa um aldur og ævi.

Ingimar og Ceca.

Það er alltaf tregi í hjarta manns þegar kemur að kveðjustund góðs félaga og framúrskarandi starfsmanns. Óskar hóf störf hjá Bernhard ehf. 1. marz 2000 þegar við keyptum Aðalbílasöluna ehf. og hann fylgdi með í kaupunum og sá eftir það um sölu notaðra bíla hjá fyrirtækinu allt til loka rekstrar þess árið 2020.

Óskar sinnti vinnu sinni af mikilli alúð og dugnaði og þjónustaði viðskiptavini okkar frábærlega svo um var talað. Sama átti við á öllum bílasýningum og kynningum í Reykjavík og víða um landið, alltaf var Óskar með.

Árshátíðir og fagnaðir, þá var hann ávallt í „nefndinni“, eins og við segjum í bílgreininni í glensi mjög „bónglaður“ og tilbúinn að gleðjast með okkur öllum og kærleikurinn alltaf í fyrirrúmi.

Eftir að rekstri Bernhard ehf. lauk hefur ekki verið mikið samband milli starfsmanna fyrir utan að nokkrir vinna saman hér og þar. En alltaf þegar við rekumst á hvert annað kemur upp þessi gamla góða væntumþykja sem ég upplifði alla tíð í fyrirtækinu.

Þar fóru fremstir söluturnarnir tveir sem nú eru fallnir frá, vinirnir Baldvin J. Erlingsson lést í apríl 2024 og nú Óskar Guðnason í febrúar 2025

Þá tvo ásamt fleiri fyrrverandi starfsmönnum hef ég haft og hafði að reglu að hringja í á afmælisdegi viðkomandi og hélt þannig smá sambandi við þau, en nú er fésbókin að breyta þessari góðu reglu hægt og rólega, því miður.

Við syrgjum en gleðjumst líka yfir öllum góðum minningum okkar á milli.

Elsku Badda og Kiddi og aðrir vandamenn, mínar allra bestu samúðarkveðjur á þessum sorgartíma.

F.h. Bernhard ehf.

Gylfi Gunnarsson.

Fallinn er nú frá kær vinur og félagi Óskar Guðnason.

Það eru 45 ár síðan við Óskar kynntumst er við urðum félagar í JC Reykjavík.

Hann vakti athygli manna fyrir frábæra ræðumennsku, skemmtileg tilsvör og alúðlega framkomu. Hann bar hag okkar sem yngri voru sér fyrir brjósti og var ávallt reiðubúinn til að aðstoða og hjálpa til við hvers konar mál sem til féllu.

JC-starfið á árum áður litaðist af mikilli samveru og urðu félagar oft nánir, bundust fjölskylduböndum í leik og starfi. Óskar og Bjarndís voru höfðingjar heim að sækja og voru þau oft á tíðum miðpunktur skemmtanahalds þar sem Óskar var í essinu sínu, fyndinn og með gamansögur og því eftirsóttur ef blása átti til mannamóta.

Það var alltaf gott að leita til Óskars því hann var með eindæmum ráðagóður og ef hann leysti ekki málið sjálfur þekkti hann mann.

Óskar var gæfumaður í einkalífi sínu. Hann var tvígiftur og var seinni konan hans Bjarndís Lárusdóttir sem alltaf er kölluð Badda. Hann eignaðist einn son í fyrra hjónabandi hann Guðna og síðan tvo syni með Böddu, þá Lárus og Kristin. Barnabörnin eru fimm þar af tvö búsett í Svíþjóð en það var Óskars stóri draumur að fara í vor og heimsækja þau. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að undanfarna mánuði var hann kominn með súrefniskút sem hann þurfti að bera með sér hvert sem hann fór og því ekki heimilt að fljúga milli landa með hann.

Óskar var Garðbæingur og bjuggu þau Bjarndís á Garðaflöt 35. Bar það heimili með sér mikla snyrtimennsku og húsinu í hvívetna vel við haldið enda þau hjón samhent svo eftir var tekið.

Síðastliðið sumar þótti tími til kominn að minnka við sig og fluttu þau þá í Silfursmára 2 Kópavogi. Urðu þau Badda þá nágrannar okkar Helgu og urðu fagnaðarfundir. Því miður varð samvera okkar skemmri en til stóð.

Óskar bar hag Böddu sinnar sér mjög fyrir brjósti. Hann vissi sem var að vegna aldursmunar og sinnar heilsu væri skammt í leiðarlokin og vildi hann skilja sem best við. Var afráðið að við færum saman í bílaleiðangur því hann vildi að Badda yrði vel akandi og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af bílamálum enda aldrei þurft þess. Til leiðangursins kom þó ekki því Óskar kvaddi daginn áður.

Þegar litið er yfir farinn veg er margs að minnast. Þrjátíu ár rúmlega ásamt þremur JC-pörum vorum við í matarklúbbi sem hittist tvisvar á ári. Útilegur, ferðir innan lands og utan, ýmsar heimsóknir og sögur sagðar sem sumar má endursegja og aðrar ekki. Alltaf þó gaman.

Að leiðarlokum er nú efst í huga þakklæti fyrir liðna tíð.

Samúðarkveðjur til þín Badda okkar, til drengjana ykkar, tengdadætra og barnabarna, megi algóður Guð vernda ykkur og varðveita.

Hjartans þökk fyrir Óskar Guðnason.

Valdimar Bergsson,
Helga Margrét Geirsdóttir.

Nú er hann Óskar okkar allur. Það hefur ekki hentað honum að standa í veikindastússi lengur, veikindum sem plöguðu hann síðasta árið. Maður sem var alltaf kátur og lífsglaður og hafði alltaf eitthvað fyrir stafni. Mætti með jólaköku eða kleinur í kaffi til okkar í vinnuna að spjalla. Lét ekki súrefniskútinn aftra sér för, skýr og skemmtilegur þótt andstuttur væri.

Við kynntumst Óskari og Böddu þegar við gengum í JC hreyfinguna fyrir 40 árum. Það varð vinskapur við fyrstu kynni, vinskapur sem leiddi af sér margar samverustundir á þessum 40 árum. Það voru matarboð, tjaldferðir, sumarbústaðaferðir, hjólhýsaferðir og utanlandsferðir.

Eftirminnilegasta ferðin sem við fórum saman var sigling yfir Atlantshafið, „Yfir hafið og heim“. Sambandslaus við umheiminn í 14 daga, með stoppum á ýmsum eyjum á Atlandshafinu.

Hjálpsemi þeirra hjóna var viðbrugðið. Þegar við fluttum í nýbyggt hús okkar mættu Óskar og Badda, hjálpuðu við málningarvinnu og síðan þrif á gamla húsinu. Nokkrum dögum seinna birtist Óskar með gangstéttarhellur svo að sandurinn gengist ekki inn í húsið, alltaf tilbúinn til hjálpar vinum sínum.

Við hjónin vorum með hunda og stundum þurfti pössun. Það var aldrei mál hjá Böddu og Óskari, þó að þau væru lítið fyrir hunda. Það var alltaf pláss hjá þeim. Óskar tók hundana með sér í vinnuna og hændust þeir að honum. Hundar eru mannþekkjarar.

Reglulega var borðað saman og þá voru oft á borðum grænar baunir og brúnaðar kartöflur að hætti Óskars. Skötuveislan sem var á Garðaflötinni fyrir hver jól, var eftirminnilegt upphaf jólanna.

Óskar starfaði stóran hluta starfsævinni sem bílasali, og lengst af sem sölustjóri hjá Bernhard. Það var gott að eiga Óskar að þegar kom að bílaviðskiptum. Hann var sölumaður eins og þeir gerast bestir. Hann seldi manni bíl og alltaf leið manni eins og þetta hefðu verið viðskipti lífsins.

Óskar og Badda voru ný flutt í fallega íbúð í Silfursmára, „í mátunarklefa í Smáralindinni“, eins og Óskar orðað það á sinn gamansama hátt. Hans síðasta ósk var að heimsækja sitt gamla heimili á Garðaflötinni. Þegar þeirri heimsókn lauk hafði Óskar lokið sínu dagsverki og kvaddi, fór í sumarlandið í innkeyrslunni á Garðaflötinni. Hann hafði sagt við okkur að hann ætlaði að fara láréttur þaðan út og hann stóð við það.

Kæri vinur, við munum sakna þín, samveru þinnar og vináttu.

Björg og Ingvar.

Ég hef unnið ýmis störf á lífsleiðinni, en það var aðeins eitt þeirra sem ég naut að vinna á laugardögum. Það var þegar ég vann með Óskari Guðnasyni á Aðalbílasölunni í upphafi aldarinnar, meðan hún var ennþá á Miklatorgi. Þrátt fyrir að við værum stundum ryðgaðir og rámir eftir kvöldið áður þá hresstumst við fljótt og seldum annað eins á einum laugardegi og við höfðum selt alla undangengna viku. Vöffluilmurinn sem við létum berast út um gættina á skúrnum spilaði sjálfsagt einhverja rullu en það sem mestu skipti var orðspor Aðalbílasölunnar og það orðspor átti Óskar með húð og hári. Honum var einstaklega lagið að taka á móti viðskiptavinum, nýjum sem gömlum, með þægilegu, óformlegu og persónulegu viðmóti og ég lærði mikið af að fylgjast með honum vinna. Það var líka alltaf stutt í glensið: Óskar var mjög orðheppinn og stundum kom upp í honum eilítill stríðnispúki.

Jafnaðargeðið var þó það sem skipti mestu máli fyrir mig sem vinnufélaga Óskars. Það tók mig meira en ár að læra að þekkja ef honum var niðri fyrir og ég held að aðeins einu sinni hafi ég séð hann reiðast af einhverri alvöru. Það er oft vanmetið hvað það er gott að vinna með fólki sem er það gefið að mæta hverjum degi með sama viðmóti.

Ég var ekki besti bílasalinn sem Óskar hafði undir sinni handleiðslu, að minnsta kosti ekki samkvæmt sölutölum. Hann lét mig þó aldrei gjalda þess en ég reyndi að bæta upp fyrir sölutölurnar með því að leggja mig þeim mun meira fram við að halda planinu snyrtilegu og halda utan um pappírsvinnu.

Eftir að ég hætti að vinna á Aðalbílasölunni árið 2003 bættist ég sjálfkrafa í fylkingu þeirra sem litu þangað nokkuð reglulega til að sötra einn kaffibolla og spjalla við Óskar. Meira að segja eftir að ég flutti til Bretlands fannst mér sjálfsagt að hverri Íslandsferð fylgdi heimsókn á söluna til Óskars. Verst var að hann var alltaf svo vinsæll að það gat verið snúið að ná tali af honum meira en nokkrar mínútur í senn. Ég er samt þakklátur fyrir þær mínútur sem ég fékk og þau ár sem við Óskar unnum saman, þótt það þakklæti sé í dag blandað trega. Sá tregi er þó ekkert á við
það þann missi sem sem Badda og drengirnir upplifa núna og ég samhryggist ykkur innilega.

Dagur Eiríksson.

hinsta kveðja

Það er með trega að ég kveð þig nú í hinsta sinn, kæri vinur.

Þú varst einstaklega ráðagóður og lausnamiðaður og þess naut ég.

Þú hafðir einnig einstakt skopskyn og í þeim efnum stóðust fáir þér snúning.

Það er sárt að geta ekki spjallað við þig nær daglega eins og venjan var til að létta okkur lund og láta gamminn geisa.

Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð.

Jens Á. Jónsson.