Bessí Jóhannsdóttir
Bessí Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helstu viðskiptamenn Leigufélags aldraðra sátu einnig í stjórn félagsins.

Bessí Jóhannsdóttir, Jón Magnússon og Ragnar Árnason

Morgunblaðið hefur að undanförnu (5. feb. og 8. feb. sl.) birt fréttaglefsur af fjárhagsvanda Leigufélags aldraðra. Stofnandi félagsins, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), hefur ekki séð ástæðu til að upplýsa félagsmenn um stöðu leigufélagsins og ástæðuna fyrir því að svona illa er komið. Þvert á móti sjáum við sem höfum verið í minnihluta í stjórn FEB ekki betur en meirihlutinn rói að því öllum árum að halda sem mestu af staðreyndum þessa máls leyndum fyrir félagsmönnum og freista þess að draga upp sem skásta mynd af því sem gerst hefur. Við sjáum okkur því tilneydd til að gera opinberlega grein fyrir málinu eins og það horfir við okkur ef vera kynni að það gæti orðið til þess að forða öðrum samtökum aldraðra frá því að falla í sömu gryfju.

Leigufélag aldraðra

Tilgangur Leigufélags aldraðra var að byggja hentugar og ódýrar íbúðir fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu með opinberum stuðningi á grundvelli laga um almennar íbúðir (lög nr. 52/2016). Í samræmi við þessi lög var Leigufélag aldraðra svokölluð húsnæðissjálfseignarstofnun. Það merkir að félagið ræður sér sjálft innan þeirra marka sem samþykktir þess setja. Í samþykktunum var hins vegar gert ráð fyrir að sérstakt fulltrúaráð sem FEB skipaði stýrði leigufélaginu óbeint með því að ráða meirihluta atkvæða á aðalfundi.

Það er skemmst frá að segja að þáverandi stjórn FEB lét undir höfuð leggjast að skipa þetta fulltrúaráð þar til í september 2021. Afleiðing var að félagið gekk í raun sjálfala fyrstu árin. Ekki bætti úr skák að stjórn FEB gerði í upphafi samning við utanaðkomandi fyrirtæki, Vildarhús ehf., um rekstur og framkvæmdastjórn leigufélagsins gegn fjárhagslegri þóknun. Einn eigandi Vildarhúsa ehf. varð framkvæmdastjóri leigufélagsins og hinn formaður stjórnar þess. Nokkrir aðrir í stjórn voru og samstarfsaðilar eigenda Vildarhúsa. Þannig tók þessi viðskiptaaðili Leigufélags aldraðra í raun yfir félagið og gerði samninga við sjálfan sig án aðkomu annarra, þ. á m. stjórnar FEB.

Í stjórn Leigufélags aldraðra sat einnig frá upphafi eigandi annars utanaðkomandi fyrirtækis í byggingargeiranum, SHP-ráðgjafar ehf. Það fyrirtæki átti eftir að leika stórt hlutverk í framkvæmdum og fjárþroti leigufélagsins. Framkvæmdastjóri þess félags gegndi á sínum tíma formennsku í stjórn leigufélagsins jafnframt því að hann var helsti viðskipta- og framkvæmdaaðili þess.

Mikið skorti því á að viðunandi félagslegt og fjárhagslegt aðhald væri að starfsemi Leigufélags aldraðra. Þannig gerði endurskoðunarfyrirtækið Deloitte sérstaka athugasemd í endurskoðunarskýrslu 29. ágúst 2022 við ofteknar þóknanir viðskiptaaðila leigufélagsins, sem þá sátu einnig í stjórn félagsins og voru því beggja vegna borðsins.

Byggingarframkvæmd á Akranesi

Ofangreind stjórn Leigufélags aldraðra tók þá ákvörðun (sennilega á árinu 2020 eða snemma árs 2021) að byggja fjölbýlishús fyrir aldraða á Dalbraut 6 á Akranesi. Þessi ákvörðun vekur nokkra furðu þar sem Akranes er utan félagssvæðis FEB en samkvæmt samþykktum leigufélagsins geta einungis félagsmenn í FEB leigt íbúðir þess. Enn umhugsunarverðara er að þessi framkvæmd var ekki boðin út. Þess í stað gerði ofangreind stjórn leigufélagsins samning við einn stjórnarmanninn, fyrrgreindan eiganda SHP-ráðgjafar ehf., um að fyrirtæki hans sæi um byggingarframkvæmdir og fengi greitt eftir reikningi. Ekki þarf að orðlengja það að framkvæmd þessi dróst bæði mjög á langinn og reyndist óhóflega dýr.

Nánar tiltekið kom í ljós að kostnaður á íbúð á Dalbraut 6 var svo hár að framkvæmdin gat ekki samræmst fyrrgreindum lögum (lög nr. 56/2016) um almennar íbúðir. Því reyndist ekki lagaheimild til þess að veita þann opinbera fjárhagsstuðning sem nauðsynlegur var til að ná endum saman. Þar með var Leigufélag aldraðra í raun gjaldþrota. Í stað þess að félagið færi til gjaldþrotaskipta með tilsvarandi óvissu og áhættu fyrir aldraða leigutaka félagsins tók Húsnæðis- og Mmnnvirkjastofnun (HMS), sem fer með framkvæmd laga um almennar íbúðir, þá þakkarverðu ákvörðun að taka félagið í sína umsjón og leysa fjárhagsvandann án þess að skerða hag núverandi leigutaka. Jafnframt þessu ákvað HMS að taka sérstaklega til rannsóknar fyrri starfsemi stjórnar leigufélagsins, framkvæmdir og samninga við birgja.

Þáttur stjórnar FEB

Það var ekki fyrr en í september 2021 sem stjórn FEB skipaði fulltrúaráð fyrir Leigufélag aldraðra. Þetta fulltrúaráð lét þegar til sín taka og freistaði þess að fjarlægja viðskiptamenn leigufélagsins úr stjórn þess og koma rekstrinum í eðlilegan farveg. Þessi viðleitni mætti eins og við mátti búast harðri andstöðu þáverandi stjórnenda félagsins. Sérkennilegra er að þessi andstaða naut stuðnings meirihluta stjórnarmanna í FEB. Varð það til þess að hinu „óþægilega“ fulltrúaráði var formálalaust vikið frá á haustdögum 2023 og annað „auðsveipara“ skipað í staðinn. Félagsmenn FEB geta kynnt sér skipan þessa fulltrúaráðs á heimasíðu félagsins. Núverandi meirihluti stjórnar FEB hefur því miður verið við sama heygarðshornið. Viðleitni okkar frá því við vorum kjörin í stjórnina árið 2024 til að bæta starfshætti Leigufélags aldraðra og ítrekuðum tilraunum okkar til að fá sæmilega úttekt á starfseminni hefur einfaldlega ýmist verið hafnað eða stungið undir stól. Jafnvel nú þegar HMS hefur tekið leigufélagið yfir vill meirihluti stjórnar FEB enn fela staðreyndir málsins fyrir félagsmönnum.

Lokaorð

Við teljum að Leigufélag aldraðra hafi orðið fórnarlamb óráðvandra athafnamanna sem fyrst og fremst var umhugað um að þyngja eigin pyngju. Þetta hafi þeim tekist vegna sinnuleysis FEB og athafnaleysis meirihluta stjórnarinnar þegar hættulúðurinn hafði verið þeyttur. Afleiðingin er óhæfilegur kostnaður við byggingar leigufélagsins og síðan fjárþrot þess. Eldri borgarar í FEB og aðrir þegnar þessa lands borga auðvitað brúsann. Önnur leigufélög og byggingarfélög eldri borgara geta sömuleiðis orðið fórnarlömb sömu afla. Von okkar er að þessi grein verði til þess að minnka líkurnar á að svo verði.

Höfundar eru kjörnir varamenn í stjórn FEB.