Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Ragnar Þór Ingólfsson, þingmaður Flokks fólksins, fékk greidd biðlaun og ótekið orlof eftir að hann sagði af sér sem formaður VR í byrjun desember, en starfslokauppgjör hans nam um 10 milljónum króna samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Afþakkaði ekki biðlaun
Samkvæmt svari Stefáns Sveinbjörnssonar framkvæmdastjóra VR átti Ragnar Þór Ingólfsson rétt á biðlaunum til sex mánaða samkvæmt ráðningarsamningi. Sá réttur hefði ekki fallið niður nema Ragnar Þór afþakkaði launin, sem hann gerði ekki.
Ragnar Þór óskaði eftir því að fá biðlaunin greidd með eingreiðslu og hefur uppgjörið þegar farið fram. Laun hans námu 1,3 milljónum króna á mánuði og hefur eingreiðsla biðlauna því hljóðað upp á 7,8 milljónir króna.
Samkvæmt heimildum blaðsins bættist orlofsuppgjör ofan á biðlaunin og nam heildaruppgjör um 10 milljónum króna.
Þingfararkaup og biðlaun
Ragnar Þór fór í tímabundið leyfi frá störfum sem formaður VR í lok október fram að alþingiskosningum. Hann sagði svo af sér sem formaður í byrjun desember þegar ljóst var að hann hefði náð kjöri á þing.
Hann hefur þegið þingfarakaup frá því hann náði kjöri, sem nemur ríflega 1,5 milljónum króna á mánuði, en ljóst er að biðlaunatímabil hans skarast við þær greiðslur.