— AFP/Gleb Garanich
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland mun ásamt öðrum norrænum ríkjum og Eystrasaltsríkjunum styðja við eitt herfylki í úkraínska hernum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir aðkomu Íslands vera fyrst og fremst í formi fjárstuðnings og mögulega þjálfunar

Viðtal

Sonja Sif Þórólfsdóttir

skrifar frá Kænugarði

Ísland mun ásamt öðrum norrænum ríkjum og Eystrasaltsríkjunum styðja við eitt herfylki í úkraínska hernum. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir aðkomu Íslands vera fyrst og fremst í formi fjárstuðnings og mögulega þjálfunar.

Kristrún ræddi við blaðamann Morgunblaðsins á Intercontinental-hótelinu í Kænugarði í gær.

„Þarna erum við bara að standa með okkar bandamönnum á Norðurlöndum og í Eystrasaltinu. En við vitum að þetta er eitthvað sem Úkraínumenn hafa kallað eftir,“ segir hún.

Kristrún er meðal þeirra leiðtoga í heiminum sem sóttu Úkraínu heim í gær þegar þrjú ár voru liðin frá allsherjarinnrás Rússa í landið. Af því tilefni var fallinna hermanna minnst og í kjölfarið fór fram ráðstefna þar sem þjóðir heims ítrekuðu stuðning sinn við Úkraínu.

Framlög aukin

Tilkynnti Kristrún á fundinum að ríkisstjórn Íslands hefði fyrir helgi samþykkt að verja alls 3,6 milljörðum króna í stuðning við Úkraínu á þessu ári.

„Í fyrsta lagi, og þetta kann að þykja augljóst en í dag verðum við að leggja staðreyndirnar á borðið, Rússland réðst á Úkraínu, Rússland er árásaraðilinn. Úkraínumenn verja sitt heimaland og frelsi undir stjórn lýðræðislega kjörins forseta og lýðræðislega kjörins þings. Í öðru lagi myndar Úkraína varnarlínu fyrir öryggi okkar allra í Evrópu og á því hefur Ísland skilning. Sterk Úkraína er skilyrði réttláts og varanlegs friðar. Úkraína þarfnast aukins stuðnings og hann verður að fást nú þegar. Ísland hefur bætt í sína aðstoð frá því sem var í fyrra, en við munum leggja meira af mörkum. Ég get tilkynnt það í dag að ríkisstjórn mín hefur ákveðið að rúmlega tvöfalda styrk til varnarmála Úkraínu á þessu ári til þess að standa við skuldbindingar okkar,“ sagði Kristrún í ræðu sinni.

Þá lagði Kristrún áherslu á að hún vonaðist til þess að aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu fengi skjóta afgreiðslu og að aðild að Atlantshafsbandalaginu ætti að vera á borðinu.

Í ræðu sinni vék Kristrún einnig að því að það skipti máli fyrir öryggi Evrópu allrar að samningar næðust um frið í Úkraínu.

Nú er friður ekkert í sjónmáli hérna í Úkraínu. Kallar þetta á meiri áherslu á varnarmál en er nú þegar á Íslandi?

„Ég held að þetta hljóti að hafa vakið fólk til umhugsunar um á hverju friðurinn hefur verið byggður hingað til. Við byggjum auðvitað okkar land á því að eiga sterka bandamenn sem eru samstiga þegar kemur að því að virða alþjóðalög og erum í varnarbandalagi NATO og höfum þar með getað notið í rauninni friðar og þeirrar velferðar sem við búum við af þeim sökum. Það eru auðvitað margir sem eru hugsi yfir stöðunni hérna í Úkraínu. Það er ekki sjálfgefið að þetta hafi gerst þó að þetta virki í hugum sumra eins og fjarlægt land. Þá er ekki sjálfgefið að lenda í stríði líkt og Úkraína lenti í. Og það skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli verandi lítið land sem er ekki með her. Við erum þátttakendur í varnarbandalagi og með góða bandamenn,“ segir Kristrún.

Hún segir Ísland vera að sýna að það geti verið góður bandamaður.

„Vegna þess að um leið og við förum niður þann veg að finnast í lagi að vanvirða alþjóðalög og standa ekki við alþjóðasamninga og þess háttar, þá lendum við í vandræðum á Íslandi. En við erum núna bara að fara varlega í sakirnar. Við stígum þetta skref til að standa við skuldbindingar okkar gagnvart Úkraínu,“ segir Kristrún og bætir við að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sé að hefja endurskoðun á varnarmálastefnu Íslands.

Evrópa þéttir raðirnar

Þú talar um góða bandamenn, ertu þá helst að tala um norrænu ríkin og Eystrasaltsríkin sem mynda NB8?

„Já, við eigum góða bandamenn á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum þremur. Einnig í NATO og Evrópu allri. Bandaríkjamenn hafa auðvitað verið okkar bandamaður og verða það áfram. Við erum með sterkar tengingar þarna yfir í tengslum við varnarsamning og fleira. Og mikið af því sem Evrópa er að gera núna, þegar hún segist stíga upp og stíga inn og efla sínar varnir, er ekki til þess að beita sér gegn Bandaríkjunum, heldur til þess að vera sterkari bandamaður fyrir og með Bandaríkjunum, og það er eitt af því sem við horfum einnig til,“ segir Kristrún.

Blaðamaður ræddi við Kristrúnu áður en hún fór á fund með leiðtogum NB8-ríkjanna sem og Volodimír Selenskí forseta Úkraínu. Spurð að því hvað verði rætt á fundinum segir Kristrún að varnartengdur stuðningur verði ræddur.

„Síðan mun ég bara ítreka stuðning okkar við Úkraínumenn í gegnum þessi úrræði sem hafa reynst gríðarlega vel, jarðsprengjuleit og -eyðing, sem Ísland hefur leitt ásamt Litáen. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni. Eins umrædda danska úrræðið sem sparar umtalsverðan kostnað fyrir Úkraínumenn og gerir þá svona sjálfum sér næga,“ segir Kristrún.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir