Loðna Uppsjávarveiðiskip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Gullberg VE 292, landaði afla um helgina.
Loðna Uppsjávarveiðiskip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Gullberg VE 292, landaði afla um helgina. — Morgunblaðið/Óskar Pétur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta var ekki stóra vertíðin,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið, en Gullberg VE 292, uppsjávarveiðiskip fyrirtækisins, skaust á loðnumiðin…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þetta var ekki stóra vertíðin,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið, en Gullberg VE 292, uppsjávarveiðiskip fyrirtækisins, skaust á loðnumiðin um helgina og náði þar í skammtinn sem Vinnslustöðin fékk úthlutaðan úr sögulega litlum loðnukvóta þetta árið.

Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hljóðaði upp á 8.589 tonn og komu 4.434 tonn í hlut íslenskra útgerða og fékk Vinnslustöðin 546 tonn af því. Var sá skammtur vel þeginn, enda var enginn loðnukvóti gefinn út í fyrra.

Ef ekki kemur til þess að gefinn verði út viðbótarkvóti í loðnu er stystu loðnuvertíð Íslandssögunnar lokið þar með, en menn eru þó ekki úrkula vonar um að meiri loðna finnist. Áformað var að tvö uppsjávarveiðiskip, Aðalsteinn Jónsson og Polar Ammassak, færu út til leitar í gærkveldi. Var ferðinni heitið á hafsvæðið út af Vestfjörðum og Norðurlandi vestanverðu. Vonir standa til að þar kunni að verða vart við vestangöngu loðnunnar sem kann að vera á leið vestur fyrir landið. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson leitaði það hafsvæði fyrr í þessum mánuði.

Binni segir að aðeins meira af loðnu hafi náðst í veiðiferð Gullbergsins en sem nemur úthlutuðum kvóta, enda ómögulegt að áætla fyrir fram hvað mikið magn komi í veiðarfærin þegar menn kasta. Þegar aflinn er meiri en sá kvóti sem mælt er fyrir um er aflaverðmæti umframaflans gert upptækt. Mögulegt er þó að hluti Norðmanna í kvótanum dreifist á íslensku útgerðirnar, enda hafa þeir ekki lengur leyfi til veiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Það sem umfram kann að hafa verið myndi þá væntanlega jafnast út og mögulega gott betur.

„Við erum að frysta aflann,“ segir hann, „hvern einasta sporð og ekki farið nein loðna í bræðsluna.“

Spurður um líklegt aflaverðmæti loðnuaflans segist Binni ekki hafa hugmynd um það.

„Það er enginn búinn að semja um verð enn þá, en við fáum örugglega sæmilegt verð fyrir þetta. Það þarf ekkert að velta því fyrir sér,“ segir hann, en allur aflinn fer á Asíumarkað.

„Það eru mikil verðmæti fólgin í því fyrir okkur að ná þessum afla núna, því Asíumarkaðurinn var algerlega tómur og þetta heldur honum á lífi og loðnan hverfur ekki úr búðunum,“ segir Binni.

Loðnukvótinn 2025

4.434 tonn

Alls fengu 18 uppsjávarveiðiskip loðnukvóta úthlutaðan, en til skiptanna voru 4.434 tonn.

Mest kom í hlut Venusar NS 150 sem fékk 414 tonn, næstmest fékk Vilhelm Þorsteinsson EA 11, 408 tonn, þriðji í röðinni var síðan Ásgrímur Halldórsson SF 250 með 390 tonn. Sigurður VE 15 fékk fjórða stærsta kvótann, 376 tonn, og skammt þar á eftir kom Beitir NK 123 með 355 tonn.

Þau 546 tonn af loðnu sem Gullberg VE 292 sótti um helgina er samanlagður kvóti Gullbergsins og Hugins VE 55, en útgerð Hugins er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson