Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Hurð skall nærri hælum með páskaeggin þetta árið, ef marka má brag Jóns Jens Kristjánssonar:
Sat ég um kveld með sinni þungu
sigið var myrkur á
holdrosamegin á heimsins gæru
huga ég leiddi þá
að duglausir kaupmenn hér draga
lappir
og daufheyra tímans nið
og aðeins til páskanna átta vikur
aldrei þeir bregðast við.
Rakti ég áfram raunatölur
og ruglaði endalaust
um sexfalda hækkun á súkkulaði
síðan í fyrrahaust
hrelldur við dagsbrún úr doðasvefni
dróst ég á veikum legg
með þrautum til búðar og þá var mér
ljóst að
það voru komin egg.
Kisan verður Antoni Helga Jónssyni að yrkisefni:
Hún kisa er góðfúslegt gæludýr
en getur þó breytt sér í væludýr
og líka í fælu-
og leiðinda ælu-
og leti- og þvælu- og sæludýr.
Skemmtilegur er húsgangurinn:
Kisa gluggann kom upp á,
konur báðar opna skjá.
Einhver vöndinn þreif upp þá
þrisvar gerði í hana slá.
Henni illa hér við brá,
hvessti augun græn og blá,
fuglaveiða stirð við stjá,
stökk á burt og sagði mjá.
Á Braga óðfræðivef má heyra frásögn Maríu Andrésdóttur, sem hefur seinnipartinn svona:
Kisu þá svo hverft við brá
Hún hvessti upp augun græn og blá,
tittlingsveiðar stýrði stjá
hún strauk í burtu og sagði: Mjá!
Auðunn Bragi Sveinsson orti á sínum tíma:
Kolsvört ertu kisa mín
kætir manna hjörtu
Glóa augun gulu þín
gleggst í myrkri svörtu.
Eitt orð fell út í oddhendu Ingólfs Ómars Ármannssonar á laugardag:
Ofan gjáar kraumar kná
klappir lágar stikar.
Straumabláum elfum á
iðan gráa kvikar.