Faxaflóahafnir Sigurður segir fyrirséð að fækkun verði á komum skemmtiferðaskipa til Íslands á næstu árum en því fylgir tekjutap fyrir marga.
Faxaflóahafnir Sigurður segir fyrirséð að fækkun verði á komum skemmtiferðaskipa til Íslands á næstu árum en því fylgir tekjutap fyrir marga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fulltrúar erlendra skipafélaga sem reka stóran hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands funduðu í gær með sveitarstjórnarmönnum af landsbyggðinni um innviðagjald sem tekið var upp um áramótin

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Fulltrúar erlendra skipafélaga sem reka stóran hluta þeirra skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands funduðu í gær með sveitarstjórnarmönnum af landsbyggðinni um innviðagjald sem tekið var upp um áramótin.

Um er að ræða skipafélögin Royal Caribbean, Norwegian Cruise Lines, MSC Cruises og Carnival en auk þeirra voru fulltrúar frá íslensku samtökunum Cruise Iceland og Cruise Lines International Association (CLIA) sem boðaði fundinn.

Þann 1. janúar tóku gildi ýmsar breytingar vegna innflutnings og gjaldtöku vegna farþega og ferðamanna í skemmtiferðaskipum landsins. Þar á meðal er nýtt innviðagjald þar sem lagt er gjald á hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins. Gjaldið nemur 2.500 krónum fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipið dvelur á tollsvæði ríkisins.

Vilja þrepaskiptingu

Sigurður Jökull Ólafsson, starfandi formaður Cruise Iceland, segir að fækkun verði á skipakomum í ár vegna gjaldsins og fyrirséð að það verði næstu ár. Eru fulltrúar skipafélaganna ekki mótfallnir gjaldinu sjálfu heldur að því hafi verið komið á fyrirvaralaust en lögin um breytingarnar voru samþykkt 18. nóvember, rúmum mánuði áður en þær voru teknar upp.

Þá kalla fulltrúar skipafélaganna eftir að gjaldinu verði frestað og því svo komið á í þrepum á næstu árum og með fyrirvara.

Sigurður segir fundinn í gær hafa verið með bæjarstjórum og hafnarstjórum Grundarfjarðar, Múlaþings, Akureyrar, Ísafjarðar og Vestmannaeyja og segir hann mikinn samhljóm vera á milli bæjarfélaganna um að innviðagjaldið skuli endurskoðað og gert í sátt.

Þá stendur til að hitta fulltrúa frá borgarstjórn í dag auk þingmanna og eiga svo fulltrúar skipafélaganna fund með Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra á morgun.

Yrði mikið tekjutap fyrir hafnir á landsbyggðinni

„Aðalmálið er að það er fækkun í ár og það er fyrirséð meiri fækkun á næsta ári,“ segir Sigurður.

Hann nefnir að fólk kaupi ferðir með skemmtiferðaskipum alla jafna með eins og hálfs til tveggja ára fyrirvara. Því lenda allar nýjar álögur á skipafélögunum sjálfum vegna þess að þeim er ekki heimilt að senda bakreikning á farþega sína eftir að ferðin hefur verið bókuð.

Muni því skipafélögin sjálf þurfa að borga innviðagjaldið í ár og að einhverju leyti árið 2026 og segir Sigurður að upphæðirnar geti numið hundruðum milljóna króna. Langtímaáhrifin af breytingunum muni svo fara að sjást á næstu tveimur til þremur árum.

Segir Sigurður að mikilvægt sé að hugsa til langframa. Ef ekkert verði gert verði enn meiri fækkun á komum skemmtiferðaskipa til landsins á næstu árum. Hann nefnir að hjá Faxaflóahöfnum hafi t.a.m. strax sést fækkun upp á 21 skipakomu en upplýsir jafnframt að komur skemmtiferðaskipa séu rúmlega fjórðungur af tekjum Faxaflóahafna.

Þá séu komur skemmtiferðaskipanna vel yfir helmingur af tekjum hafnanna úti á landi. Þar sé einnig að finna fyrirtæki sem treysti á komur skemmtiferðaskipanna og segir Sigurður sveitarstjórnarmenn meðvitaða um þá tekjulind.

Ertu bjartsýnn á að þetta verði endurskoðað?

„Já, veistu það, ég er bjartsýnn. Ég held að menn sjái að það sé skynsamlegast að endurhugsa þetta og fresta þessari útfærslu,“ segir Sigurður og bætir við:

„Þetta er ákveðin tekjulind sem við Íslendingar höfum og ef við hlúum vel að þessu þá er þetta tré sem gefur ávexti næstu áratugi.“

Höf.: Egill Aaron Ægisson