Sprettur Eir Chang Hlésdóttir á fleygiferð á hlaupabrautinni í Laugardal, þar sem hún sló Íslandsmetið.
Sprettur Eir Chang Hlésdóttir á fleygiferð á hlaupabrautinni í Laugardal, þar sem hún sló Íslandsmetið. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég var í smá sjokki,“ sagði hlaupakonan Eir Chang Hlésdóttir í samtali við Morgunblaðið um 21 árs gamalt Íslandsmet í 200 metra hlaupi innanhúss sem hún sló á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss í Laugardalshöll á sunnudag

Frjálsar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Ég var í smá sjokki,“ sagði hlaupakonan Eir Chang Hlésdóttir í samtali við Morgunblaðið um 21 árs gamalt Íslandsmet í 200 metra hlaupi innanhúss sem hún sló á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss í Laugardalshöll á sunnudag.

Eir, sem er aðeins 17 ára gömul, hefur bætt sig mikið á skömmum tíma og hún átti ekki von á að slá Íslandsmetið á Meistaramótinu. Silja Úlfarsdóttir setti metið árið 2004.

„Ég bætti mig um 0,3 sekúndur og ég gerði það sama á aldursflokkamóti helgina á undan. Ég bætti mig því um 0,6 sekúndur á einni viku. Ég bjóst alls ekki við þessu,“ sagði hún.

Horfði á aldursflokkamet

„Mér leið eins og ég gæti bætt þetta met því ég er hef bætt mig svo mikið. Ég var samt aðallega að horfa á að bæta aldursflokkamet en svo bætti ég þetta gamla Íslandsmet,“ bætti Eir við.

Það tók sinn tíma fyrir Eir að átta sig á að hún hefði slegið Íslandsmet í fullorðinsflokki í fyrsta skipti.

„Það var búið að vara mig við að það væri ekki alveg að marka tímann sem ég sá og ég hélt að þetta væri vitlaus tími þegar ég kom í mark. Eftir nokkrar sekúndur sá ég að þessi tími var réttur og það var mjög gaman. Ég byrjaði betur en venjulega og ég gaf allt í þetta. Það sést þegar maður horfir á hlaupið að ég gaf allt sem ég átti,“ sagði hún um hlaupið.

Hún fagnaði með liðsfélögum sínum í ÍR eftir mótið en ÍR varð Íslandsmeistari liða með því að fá flest stig í heildarkeppninni.

„Ég fékk einhver skilaboð og hamingjuóskir og svo fór allt liðið og fékk sér pitsu. Við unnum heildarstigakeppnina og ákváðum að fagna saman.“

Breytti miklu að mæta alltaf

Eir keppti afar stíft á síðasta ári og ákvað að minnka æfingaálagið í kjölfarið. Hún fór svo aftur á fullt fyrir skemmstu og árangurinn leynir sér ekki.

„Ég byrjaði að æfa jafnt og þétt og fannst það breyta mjög miklu. Fyrir það var ég ekki alltaf að mæta á æfingar en núna mæti ég alltaf og passa næringuna vel. Ég er komin með góða rútínu sem ég hef haldið vel,“ útskýrði Eir og hélt áfram:

„Ég keppti mjög mikið síðasta sumar og var á mörgum stórmótum. Ég vissi að ég myndi keppa mikið á þessu ári líka og ég vildi undirbúa mig vel fyrir það.“

Eir vann allar fjórar keppnisgreinar sínar á mótinu um helgina, aðra helgina í röð. Hún kom einnig fyrst í mark í 60 metra hlaupi, 400 metra hlaupi og 4x400 boðhlaupi með sveit ÍR. „Það var líka meistaramót aldursflokka í síðustu viku og þá vann ég líka fjögur gull. Ég vann svo aftur allt sem ég keppti í um helgina.“

Keppir sjöttu helgina í röð

Eir er greinilega í hörkuformi því hún hefur keppt þétt á nýju ári og yfirleitt í fleiri en einni grein á hverju móti. Hún þarf þó hvíld eftir bikarmótið sem er um næstu helgi en þar er keppt í liðakeppni um bikarmeistaratitilinn.

„Mér líður bara vel. Ég er búin að gera þetta fimm vikur í röð. Ég geri þetta einu sinni enn um næstu helgi og svo þarf ég smá hvíld. Eftir það tekur við uppbyggingartímabil fyrir sumarið. Ég fer svo aftur að keppa í maí og þar til í lok ágúst,“ sagði hún.

Ferðalögin skemmtileg

Annað árið í röð verður mikið um ferðalög og stórmót. Hún verður á meðal þátttakenda á stærstu mótum ársins í flokki 20 ára og yngri.

„Fyrsta mótið í sumar verður Smáþjóðaleikarnir og svo fer ég í Evrópubikar og EM 20 ára og yngri, Norðurlandamót 20 ára og yngri og svo keppi ég örugglega eitthvað meira. Það verður mikið um ferðalög en ekki eins mikið og í fyrra,“ sagði Eir, sem líkar mjög vel að ferðast og keppa á mótum erlendis.

„Þetta er svo skemmtileg upplifun. Maður hittir mikið af fólki sem er á svipuðum stað og maður sjálfur. Það er virkilega gaman.“

Draumur Eirar er að komast á Ólympíuleika. Þá ætlar hún að gera hvað hún getur til að vera laus við meiðsli, sem fylgja því miður íþróttafólki í fremstu röð.

„Það væri frábært að komast á Ólympíuleikana. Svo ætla ég að halda áfram að gera mitt besta og reyna hvað ég get til að sleppa við meiðsli. Það er mjög mikið um meiðsli í frjálsum núna og ég vil vera laus við það.“

Fædd á Íslandi en talar kóresku

Eir er fædd og uppalin á Íslandi en móðir hennar er frá Suður-Kóreu. Hún talar kóresku og hefur heimsótt fæðingarland móður sinnar.

„Mamma mín er fædd í Suður-Kóreu og ég kann tungumálið. Það var ekkert erfitt að læra það með íslenskunni. Ég er fædd og uppalin á Íslandi en svo var kóreska á hliðinni. Ég hef komið til Suður-Kóreu og það er mjög flott land og með skemmtilega menningu,“ sagði Eir.

Eir Chang Hlésdóttir

Meistaramót Íslands 2025:

1. sæti í 60 metra hlaupi á tímanum 7,53 sekúndur sem er hennar besti árangur.

1. sæti í 400 metra hlaupi á 56,09 sekúndum.

1. sæti í 200 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti, 23,69 sekúndur.

1. sæti í 4x400 metra hlaupi með sveit ÍR á 3:57,09
mínútum.

Önnur afrek:

Vann allar ofangreindar greinar á Meistaramóti 15-22 ára

Á besta tíma ársins í 400 metra hlaupi, 54,70 sekúndur.

1. sæti í 400 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum 2025.

Valin íþróttakona Seltjarnarness fyrir árið 2024.

39. sæti á HM U20 í Lima árið 2024.

Keppti í Evrópubikar landsliða í Silesia í Póllandi árið 2024.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson