Jóna Guðrún Gunnarsdóttir fæddist á Seltjarnarnesi 21. ágúst 1946. Hún lést á Sóltúni heilsusetri 5. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru Magnús Gunnar Magnússon, f. 11.1. 1920, d. 1.8. 1986, og Kristín Guðlaug Bárðardóttir, f. 21.12. 1921, d. 16.2. 2010. Systkini Jónu eru Símon Vilberg, f. 9.2. 1944, maki Eygló Andrésdóttir, Jóhann Magnús, f. 28.4. 1949, d. 9.5. 1997, Matthías, f. 8.7. 1950, d. 19.8. 2024, maki Katrín Eiríksdóttir, og Dagný Dóra, f. 27.10. 1962, maki Halldór Diego Guðbergsson.

Eftirlifandi eiginmaður Jónu Guðrúnar
er Jón Sveinn Friðriksson,
f. 12.8. 1945, og eignuðust þau fjögur börn: a) Kristín Gunný Jónsdóttir, f. 20.7. 1967, maki Hafsteinn Eyvindsson, f. 15.3. 1963. Börn þeirra eru: 1) Eva Rún, f. 2.4. 1995, maki Alexander Már Bjarnason. Börn: Róbert Leó, Nadia Esmeralda og Camilla Stella. 2) Hafsteinn, f. 27.2. 2006. Hafsteinn Eyvindsson á þrjá stráka af fyrra hjónabandi, þá Halldór, Hafþór og Fannar. b) Herdís Sölvína Jónsdóttir, f. 10.3. 1972, fv. maki Haraldur Pétursson, f. 10.8. 1970. Börn þeirra eru: 1) Hulda, f. 6.5. 1995, maki Martin Alexander Garenfeld. Börn: Ísak og Húgó. 2) Thelma Rut, f. 25.9. 2002.
c) Friðrik Ellert Jónsson, f. 2.11. 1973, maki Vilborg Stefánsdóttir. Börn þeirra eru: 1) Daníel Már, f. 10.5. 1999. 2) Andrea Rut, f. 18.9. 2003.
3) Alexandra Sif, f. 25.12. 2009. d) Gunnar Örn Jónsson, f. 26.11. 1981, maki Jóna Guðný Arthúrsdóttir. Börn þeirra eru: 1) Ásdís María, f. 24.7. 2013. 2) Guðný Birna, f. 6.11. 2017.

Jóna Guðrún ólst upp á Seltjarnarnesi og kláraði gagnfræðapróf frá Mýrarhúsaskóla. Á sínum yngri árum starfaði Jóna Guðrún við fiskvinnslu hjá Ísbirninum en á fullorðinsárum starfaði hún aðallega við ýmis konar afgreiðslu- og þjónustustörf. Lengstan tíma starfsævi sinnar starfaði hún í Hagkaup í Kringlunni.

Útförin fer fram frá Langholtskirkju í dag, 25. febrúar 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma.

Það var erfitt að hafa ekki verið hjá þér þegar þú kvaddir þennan heim. Það var svo dásamlegt að vera í kringum þig áður en sjúkdóminn bar að garði – alltaf svo hress og kát. Minningarnar um þig geymi ég í hjarta mínu um ókomna tíð, elsku hjartans mamma mín.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Ómar Ragnarsson/Gísli
á Uppsölum)

Með þessum orðum kveð ég þig í hinsta sinn með mikilli ást og virðingu, elsku mamma mín.

Sjáumst þegar minn tími kemur.

Kristín Gunný
Jónsdóttir.

Elskuleg móðir okkar er fallin frá, flogin á vit nýrra ævintýra á fjarlægar slóðir sem ekkert okkar þekkir en við vonum og trúum því innilega að nú líði henni vel, laus við erfiðleika og þá þungu hlekki sem hún burðaðist með síðustu ár ævi sinnar.

Mamma var alltaf með allt á hreinu, gleymdi sjaldnast nokkru sem hún eða einhver annar þurfti að muna. Hún skrifaði flest niður sem einhverju máli skipti og það í sérstaka dagbók. Þar var allt skráð og þá sérstaklega fyrir hana og pabba. Meðal annars voru allir afmælisdagar skráðir í þá bók svo enginn afmælisdagur skyldi nú gleymast en hún mundi þá líklega allflesta þó barnabörnin væru orðin níu talsins og barnabarnabörnin fimm.

Mamma var létt og kát á sínum yngri árum og það var alltaf stutt í fíflaganginn en hún gerði aldrei grín á kostnað annarra. Hún var í eðli sínu hlédræg og vildi helst ekki draga að sér neina athygli. Í þau skipti sem einhver hagaði sér ósæmilega að hennar mati eða gerði góðlátlegt grín að einhverju eða einhverjum þá brást hún oftar en ekki við með orðunum, „láttu nú ekki svona“ eða „Guð, láttu nú engan heyra þetta“ í lágum og allt að því virðulegum tón.

Svona var mamma okkar, alltaf hugsaði hún hlýlega til náungans, hún var réttsýn og bar ætíð hag minni máttar fyrir brjósti.

Samverustundir með fjölskyldunni veittu mömmu hvað mesta gleði og þá sérstaklega með barnabörnunum sínum sem hún elskaði af öllu hjarta og hafði óskaplega gaman af og að fá þau í heimsókn, heimsækja þau og passa á meðan heilsan leyfði. Í gegnum tíðina voru ófáar ferðir farnar með barnabörnunum í verslanir til að kaupa föt, ís eða annað góðgæti öllum til ómældrar gleði og ekki síst Jónu ömmu.

Mamma hafði óskaplega gaman af ferðalögum, þá sérstaklega erlendis. Þar var Ítalía í sérstöku uppáhaldi. Ferðuðust þau hjónin oft til Ítalíu, bæði tvö saman og með vinafólki. Garda-vatnið þótti mömmu vera paradís á jörðu og Veróna var engri lík að hennar mati. Hún einfaldlega elskaði allt við Ítalíu, landslagið, matinn, tónlistina og líklega veðurfarið!

Þegar að veislum eða matarboðum kom þá var auðvelt að gera mömmu alsæla með góðu lasagna með parmesan-osti, flóknara var það ekki!

Mömmu var ávallt umhugað um heilsu annarra en gerði lítið úr sínum eigin erfiðleikum. Síðustu árin var heilsunni farið að hraka þar sem hún greindist með langvinna lungnateppu fyrir 12 árum síðan. Síðastliðin 2 ár voru lungun farin að erfiða það mikið að hún notaðist við súrefniskút að staðaldri. Það háði henni eðlilega afar mikið og heilsunni hrakaði smátt og smátt.

Síðastliðin ár stóð æðruleysisbænin ávallt teinrétt á náttborði mömmu, grafin í hvítt gler, líklega til áminningar um daglegan kjark og æðri styrk í erfiðu verkefni.

Þó að við, börnin hennar, höfum gert okkur grein fyrir því að það gæti verið stutt í endalokin þá bjuggumst við einhvern veginn ekki við því að sú stund væri að nálgast. Mamma var svo viljug og ákveðin og stundaði endurhæfingu af miklum móð, upp að því marki sem heilsan leyfði.

Hún ætlaði sér heim aftur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Elsku mamma!

Þúsund þakkir fyrir lífsgjöfina og ferðalagið allt!

Við munum geyma allar fallegu minningarnar í hugum og hjörtum okkar alla tíð!

Gunnar Örn, Herdís og Friðrik Ellert.

Elsku hjartans amma mín.

Hvar á ég að byrja? Andlát þitt bar að svo skyndilega og ég hef eiginlega ekki meðtekið það ennþá að ég sitji hér og skrifi minningargrein um þig.

Það er allt stíflað, ég er dofin og hreinlega trúi því ekki ennþá að þú sért farin frá okkur.

Það er ekkert sem undirbýr mann undir það að missa einhvern nákominn sér svo skyndilega. Það er allt tómt og hjartað mitt grætur bara. Hvernig fer maður að því að skrifa niður á blað minningar síðustu 30 ára? Hvernig syrgir maður einhvern sem maður var ekki tilbúin að missa? Það er enginn sem kennir manni að syrgja. Sorg er svo persónubundin, sorg er bæði falleg og dimm, sorgin tekur mann í ferðalag minninga og minningarnar með þér eru svo margar.

„Ég er svo stolt af þér Eva, þú ert svo dugleg!“ var það síðasta sem þú sagðir við mig í okkar vikulega laugardagsspjalli. Ég fann það, elsku amma.

Þú settir súrefnisgrímuna fyrst á alla aðra og svo sjálfan þig – það er svo lýsandi yfir þá persónu sem þú hafðir að geyma. Þú vildir okkur öllum svo vel, þú hugsaðir alltaf svo mikið til okkar og hafðir alltaf svo miklar áhyggjur af okkur.

Ég verð ævinlega þakklát vitandi til þess að þú sért minn verndarengill, því Guð einn veit að ég þarf á þér að halda.

Lítill drengur lófa strýkur

létt um vota móðurkinn,

– augun spyrja eins og
myrkvuð

ótta og grun í fyrsta sinn:

Hvar er amma, hvar er amma,

hún sem gaf mér brosið sitt

yndislega og alltaf skildi

ófullkomna hjalið mitt?

Lítill sveinn á leyndardómum

lífs og dauða kann ei skil:

hann vill bara eins og áður

ömmu sinnar komast til,

hann vill fá að hjúfra sig að

hennar brjósti sætt og rótt.

Amma er dáin – amma finnur

augasteininn sinn í nótt.

Lítill drengur leggst á
koddann

– lokar sinni þreyttu brá

uns í draumi er hann staddur

ömmu sinni góðu hjá.

Amma brosir – amma kyssir

undurblítt á kollinn hans.

breiðist ást af öðrum heimi

yfir beð hins litla manns.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Í dag kveð ég þig í hinsta sinn, elsku amma Jóna.

Takk fyrir mig, takk fyrir börnin mín, takk fyrir allt.

Þín,

Eva Rún
Hafsteinsdóttir

Þær ótal utanlandsferðir sem við skipulögðum á koddanum á leið í draumaheiminn, þau ótal skipti sem við sungum saman ítalska söngva í heitum bílnum á vetrardegi og þeir ótal bíltúrar sem við tókum að tala um daginn og veginn.

Allar þær yndislegu minningar sem vakna þegar ég hugsa til Jónu ömmu vekja upp öryggi og væntumþykju. Aldrei var ég öruggari, rólegri og hlýrri en í faðmi hennar.
Hún amma gerði allt sem í hennar valdi stóð til að láta ömmubarni sínu líða vel. Hún var svo yndislega góð sál sem ávallt hugsaði til þess að maður væri öruggur.

„Ég var að fara að hringja í þig!“ sagði hún oft þegar ég sló á þráðinn til að heyra í henni hljóðið og segja henni allt það sem á undan hafði gengið. „Við erum svo tengdar.“ Já, við vorum nánar og góðar vinkonur sem leið vel í návist hvor annarrar.

Elsku amma, ég er yfir mig þakklát fyrir að hafa kynnst þinni dásamlegu persónu og upplifað lífið með þér.

Ég elska þig ávallt,

Thelma Rut
Haraldsdóttir.

Elsku besta amma!

Ég sakna þín svo mikið en nú getur þú notið þín vel í himnaríki, laus við súrefnið og gert það sem þú vilt.

Það var svo gaman þegar þú varst að passa mig og við fórum saman í Smáralindina og keyptum kjóla eða boli í stíl á okkur systurnar eða þegar þú sagðir okkur allar sögurnar um þig og hvernig það var þegar
þú varst lítil eins og um Brobba og karamellurnar eða um beljurnar í fjósinu. Ég gleymi svo aldrei þegar við vorum að spila rat a tat cat en þú gast engan veginn sagt rat a tat cat, við hlógum svo mikið. Svo stálumst við í eina litla möndluköku í viðbót á meðan við vorum að spila.

Ég er svo glöð að þú gast verið hjá okkur á aðfangadag, það var svo fyndið og gaman þegar þú varst að gera apagrettuna og við sprungum öll úr hlátri. Sem betur fer tókum við fullt af myndum af þér að gretta þig. Ég mun alltaf hugsa til þín af því að ég elska þig svo óendanlega mikið.

Sofðu vært og gerðu það sem þú vilt og hafðu það sem allra best.

Risa knús elsku besta amma!

Þín

Ásdís María.

Með söknuð í hjarta og tár á hvarmi kveðjum við elsku systur okkar.

Við viljum þakka henni þann kærleik, ást og umhyggju sem hún sýndi okkur alla tíð og ávallt geyma minningu hennar í huga okkar og hjarta.

Hvíldu í friði og megi Guðs englar umvefja þig hlýju og kærleik.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að
minnast,

svo margt sem um hug minn
fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín systkini

Símon og Dagný.

hinsta kveðja

Elsku amma mín.

Hafðu þökk fyrir allt, ég elska þig.

Þinn

Hafsteinn.