Helgi Snær Sigurðsson
Einhver umtalaðasti íþróttaviðburður heims er hin svokallaða „ofurskál“ í Bandaríkjunum, úrslitaleikurinn í ruðningi sem bandarískir kalla fótbolta. Skálin fór fram fyrr í mánuðinum og voru það Ernirnir frá Fíladelfíu, Philadephia Eagles, sem fóru með sigur af hólmi í leik sem þótti frekar leiðinlegur á að horfa. Öllu skemmtilegri þótti rapparinn Kendrick Lamar sem kom fram í hálfleik og kvað sínar þekktu rímur. Svo þykja auglýsingarnar í hléum líka ómissandi þar sem gríðar mikið er í þær lagt fjárhagslega og iðulega þekktir leikarar sem leika í þeim.
En aftur að skálinni. Hvaða skál er þetta eiginlega sem bandarískir eru svo uppteknir af? Jú, heiti þessa úrslitaleiks má rekja aftur til miðs sjöunda áratugarins. Þá mun Lamar nokkur Hunt fyrstur hafa notað þetta orð, „ofurskál“ eða Super Bowl á ensku. Hunt þessi var eigandi ruðningsliðsins Kansas City Chiefs og nefndi skálina í fyrsta sinn opinberlega þegar tvær deildir hins bandaríska ruðnings voru sameinaðar í eina. Þegar Hunt rifjaði sögu skálarinnar upp í bréfi síðar sagði hann líklegt að börnin hans hefðu átt stóran þátt í nafngiftinni. Þau hafi verið að leika sér með hið sívinsæla leikfang skopparabolta, þ.e. „super ball“. Flóknara var það nú ekki!