Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Eignasafn lífeyrissjóðanna stækkaði myndarlega á seinasta ári. Allt bendir til að raunávöxtun eigna sjóðfélaga hafi verið góð á árinu eftir tvö slök ár þar á undan og verði vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði skuldbindinga lífeyrissjóða. Það gerðist síðast árið 2021. Í lok desember sl. nam hrein eign lífeyrissjóða 8.220 milljörðum króna og jukust eignirnar um hundruð milljarða milli ára.
Von er á endurskoðuðum uppgjörum sjóðanna og endanlegum ávöxtunartölum á næstu vikum en Landssamtök lífeyrissjóða birtu á dögunum áætlaða ávöxtun sjóðanna á seinasta ári. Samkvæmt henni var raunávöxtun lífeyrissjóða bæði fyrir samtryggingu og séreign að jafnaði jákvæð um 6,5% í fyrra.
Einn af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, birti nýlega tölur sem sýndu góða afkomu eignasafna sjóðsins í fyrra. Hrein nafnávöxtun sameignardeildar var 12,4% og raunávöxtun 7,3%. Ávöxtunarleiðir í séreign skiluðu frá 8,2% til 13,0% nafnávöxtun. Heildareignir sjóðsins námu 1.458 milljörðum kr. í lok seinasta árs samanborið við 1.288 milljarða árið áður. Framlag allra eignaflokka var jákvætt en mestu skipti framlag erlendra hlutabréfa til ávöxtunar ársins.
Seinasta ár var lífeyrissjóðunum hagfellt, sérstaklega þróunin á síðari hluta ársins, að sögn Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka. „Sjóðirnir áttu fremur erfitt uppdráttar fram á mitt ár hvað varðar innlenda hlutabréfaeign, sem þróaðist með óhagfelldum hætti. Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi lækkaði umtalsvert frá áramótum og fram á mitt ár. Hins vegar náðu erlendu bréfin að jafna leikinn á móti þessari lækkun innlendu bréfanna þar sem þau hækkuðu allmyndarlega á tímabilinu. En svo fór allt í gang á þriðja fjórðungi ársins og í rauninni út árið. Erlendu hlutabréfin héldu áfram að hækka og innlendu bréfin tóku aftur við sér. Þróunin bæði á þriðja og fjórða ársfjórðungi var sjóðunum býsna hagfelld,“ segir hann.
Jón Bjarki segir að nýlegar tölur bendi til þess að raunávöxtun sjóðanna hafi verið töluvert yfir 3,5% tryggingafræðilega viðmiðinu eða allt að tvöfalt hærri en það samkvæmt tölum sem Landssamtök lífeyrissjóða gáfu út á dögunum um áætlaða raunávöxtun á síðasta ári.
Að sögn hans er umtalsverður hluti af eignum lífeyrissjóða í hlutabréfum, sem eiga ríkan þátt í ávöxtun sjóðanna á seinasta ári. Sjóðirnir verðmeta og færa til bókar verðið á hlutabréfunum eftir markaðsverði á hverjum tíma en skuldabréfin, sem eru stærsti eignaflokkurinn, eru að stærstum hluta færð til bókar á upphaflegri kaupkröfu, þ.e. þegar þau voru keypt. „Þó að skammtímasveiflur á skuldabréfamarkaði eigi sér stað þá hafa þær lítil áhrif á sjóðina en þeir eru hins vegar mjög útsettir fyrir vendingum á hlutabréfamarkaðinum,“ segir hann.
Heildareignir lífeyrissjóðanna eru að nálgast tvöfalda landsframleiðslu þjóðarbúsins. Undir lok ársins námu innlendar eignir þeirra 4.943 milljörðum kr. og erlendar eignir 3.288 milljörðum. Jón Bjarki bendir á að hreint innflæði í sjóðina með greiddum iðgjöldum er ennþá töluvert meira en sem nemur lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði sjóðanna. En jafnvel þótt tekið sé tillit til þess þá sé ljóst að hrein eignaaukning lífeyrissjóða var myndarleg á seinasta ári, sem endurspeglast í mjög ásættanlegri raunávöxtun. Ávöxtun sjóðanna til langs tíma skipti þó mestu máli. Skv. tölum Landssamtaka lífeyrissjóða hefur meðalraunávöxtun sjóðanna verið um 4% síðustu tíu ár. Jón Bjarki segir að þó margt hafi gengið á undanfarinn áratug í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum þá sé langtímaávöxtun sjóðanna nokkuð yfir 3,5% tryggingafræðilega viðmiðinu, „sem þýðir að staða þeirra og geta til þess að greiða þeim lífeyri sem eru að fara á eftirlaun á komandi árum er betri en hún var fyrir nokkrum árum.“
Spurður um horfurnar á þessu ári segir Jón Bjarki að þrátt fyrir þungar vikur á hlutabréfamarkaði í febrúar bendi ekkert sérstaklega til þess að lífeyrissjóðirnir muni eiga mótdrægt ár í líkingu við árin 2022 og 2023. „Núna eru vextirnir á niðurleið og það er ekkert sérstakt útlit fyrir að við séum að sigla í einhverja efnahagserfiðleika eða að komandi mánuðir ættu að verða atvinnulífinu eitthvað sérstaklega harðdrægir. Hið sama má kannski segja um horfurnar erlendis. Þar er þrátt fyrir allt seigla í hlutabréfamörkuðunum. Ég á von á því að þetta ár verði að minnsta kosti þokkalegt.“