Hulda Ásdís Sigurðardóttir fæddist á Melbæ á Eskifirði 22. ágúst 1931. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða Akranesi 13. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Gróa Halldóra Þorleifsdóttir, f. 9. október 1910 á Hornafirði, d. 27. júlí 1952, og Guðni Sigurður Gestsson, f. 17. mars 1902 á Eskifirði, d. 10. janúar 1976.
Systur Huldu eru Ásta Aðalheiður, f. 17. janúar 1930 á Eskifirði, d. 13. apríl 2013, og Auður Brynja, f. 28. september 1943 á Eskifirði.
Eiginmaður Huldu var Ólafur Torfason vélstjóri, f. 7. september 1924 á Siglufirði, d. 30. maí 1974. Dóttir þeirra er Ásdís Dóra, f. 23. apríl 1952 á Akureyri. Eiginmaður hennar er Teitur Þórðarson knattspyrnumaður, f. 14. janúar 1952 á Akranesi. Börn þeirra eru Ester Huld, f. 15. apríl 1972 á Akranesi, og Ólafur Torfi, f. 2. ágúst 1975 á Akranesi.
Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 28. febrúar 2025, kl. 11. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju.
Þá hefur hún Hulda frænka mín kvatt okkur í bili. Þótt ættbogi minn sé nokkuð stór þá var hann dálítið fjarlægur þar sem ég bjó í æsku á Akranesi en systkini foreldra minna annars staðar. En ég átti þó alltaf frænku á Akranesi sem var hún Hulda Frænka með stóru F því aldrei nefndi ég hana Huldu heldur alltaf Huldu frænku.
Hulda frænka og hennar fjölskylda bjó í minni frumbernsku í næsta húsi við mína fjölskyldu á Kirkjubraut. Minni mitt nær þó ekki yfir þær stundir en margt hef ég heyrt um þennan tíma – einkum og sér í lagi að Siggi bróðir minn og Dísa Dóra dóttir Huldu fengu það hlutverk að passa mig og mér er sagt að þau hafi verið eins og lítil hjón úti að labba með undirritaða.
Hulda og mamma voru þremenningar að austan og held ég að mamma hafi verið fegin því þegar hún bjó á Akranesi að þekkja einhvern sem henni tengdist. Báðar fjölskyldur stækkuðu við sig og fórum við á Vesturgötuna og Hulda frænka fór í Hjarðarholtið sem var steinsnar frá Vesturgötunni.
Hulda frænka eignaðist einkadóttur sína hana Dísu Dóru um svipað leyti og mamma eignaðist eldri systkini mín og mikill samgangur þar á milli. Hulda varð snemma á lífsleiðinni fyrir þeirri miklu sorg að missa eiginmann sinn hann Óla sem var öllum harmdauði sem til þekktu þar sem í honum bjó mikill fyrirmyndarmaður sem frænka mín syrgði alla ævi.
Í æsku var ég stöku sinnum send í næturpössun til Huldu frænku þegar foreldrar mínir brugðu sér af bæ sem ekki var oft og þvílíkt ævintýri að fá að gista hjá henni. Þar var ég fordekruð og hún átti svo mikið af fallegu dóti sem barnsaugað naut að skoða.
Hún frænka mín var viðstödd alla viðburði í okkar fjölskyldu og hann Jón minn kallar hana alltaf Huldu frænku. Gott dæmi um það var að það var viðburður fyrir vestan fyrir ca. níu árum og ég átti ekki heimangengt en Jón minn fór og byrjaði auðvitað á Skaganum að sækja Huldu frænku og síðan eyddu þau deginum saman á Snæfellsnesi í veislu.
Mér er ávallt minnisstæð stund með frænku minni fyrir u.þ.b. 20 árum. Þá hafði ég kveikt arineld fyrir okkur sem við sátum við lengi fram eftir. Þá sagði hún frænka mín mér svo margt úr minni frumbernsku og æsku sem ég vissi ekki af og minntumst við oft þessarar stundar með hlýhug.
Hún Hulda frænka mín var eflaust hvíldinni fegin og veit ég að hann Óli hefur tekið vel á móti sinni konu. Við Jón minn heimsóttum Huldu á haustmánuðum og áttum góðan dag með henni. Fórum með hana í góðan túr um hverfið og nutum dagsins. Þetta var hins vegar síðasta samveran okkar en ljúf og góð.
Rósa systir mín var afskaplega natin við að hugsa um frænku sína og sem fyrr segir þegar eitthvað var um að vera hjá mér kom Hulda frænka ávallt með Rósu systur til okkar.
Að lokum vil ég færa Dísu Dóru og fjölskyldu samúðarkveðjur á sama tíma og ég og fjölskylda mín kveðjum frænku mína og þökkum henni samfylgdina öll þessi ár. Farðu í góðum friði, kæra frænka.
Brynja Halldórsdóttir.
Með þakklæti og góðum minningum kveð ég hana Huldu frænku mína í dag. Ég var sjö ára þegar ég kynntist henni fyrst en þá flutti fjölskylda mín á Akranes. Ég varð fljótlega tíður gestur á heimili þeirra hjóna og Dísu Dóru dóttur þeirra. Hulda var mikil hannyrðakona og allt lék í höndunum á henni og hún kenndi mér bæði að sauma út og prjóna. Hulda og Ólafur eiginmaður hennar voru líka góðir vinir foreldra minna og var mikill samgangur þar á milli. Hulda var einungis fjörutíu og tveggja ára þegar hún missti eiginmann sinn og fljótlega eftir það fór hún að vinna á Sjúkrahúsi Akraness við hin ýmsu störf, síðast á skurðstofunni við þrif og fleira. Þar eignaðist hún góða vini sem hafa haldið sambandi við hana síðan. Hún talaði oft um hvað það var gaman þegar þau hittust. Þegar hún varð sjötíu ára þurfti hún að láta af störfum þótt hún hefði kosið að vinna áfram, en fór þess í stað að passa börn til að hafa eitthvað fyrir stafni. Eitt barnabarna minna, hann Ellert Lár, var svo heppinn að fá Huldu frænku til að gæta sín. Hulda labbaði með hann í kerru um allan bæ, niður á bryggju og fóru þau oft á kaffihús og fengu sér meðal annars kjötsúpu sem honum þótti afar góð. Hún var komin vel á áttræðisaldurinn þegar hún hætti að gæta barna.
Hulda ferðaðist mikið erlendis, bæði með Óla sínum og svo eftir að hann dó en þá fór hún í öllum sumarfríum og um jól til Dísu Dóru, Teits, barna og barnabarna þeirra. Hún ferðaðist einnig víða um heiminn með þeim og naut þess mjög. Það var alltaf svo gaman að heyra ferðasögurnar og skoða myndir úr ferðunum þegar hún kom heim. Síðasta utanlandsferð hennar var árið 2021, þá að verða níræð.
Hulda elskaði að fara á kaffihús, tónleika og leiksýningar. Hún þurfti í nokkur ár að fara í augnsprautur til Reykjavíkur. Oft keyrði ég hana og þá fórum við alltaf á veitingastað og fengum okkur að borða. Nauthóll var í uppáhaldi hjá okkur og sérstaklega að sitja við glugga en stundum röltum við aðeins þar í kring. Þegar Hulda varð níutíu ára hélt hún upp á afmælið sitt á Nauthól og bauð nokkrum vinkonum ásamt Dísu Dóru.
Við Valdi, börnin okkar, barnabörn og barnabarnabörn þökkum Huldu fyrir góða vináttu og samveru í gegnum tíðina og munum minnast hennar með kæru þakklæti.
Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Dísu Dóru, Teits og fjölskyldu og til Auðar systur hennar og fjölskyldu.
Rósa Halldórsdóttir.
Í dag ætla ég að ganga síðasta spölinn með elsku Huldu frænku. Allt frá því að ég man eftir mér hefur Hulda frænka verið ein af fjölskyldunni. Gömul frænka frá Eskifirði sem sagði manni sögur af ömmu minni og afa og frændfólki mínu. Hulda missti Óla eiginmann sinn allt of snemma en ást hennar til hans var alltaf svo falleg og veit ég að hann tekur vel á móti henni í sumarlandinu. Hulda átti eina dóttur, hana Dísu Dóru, og var hún alltaf svo stolt af elsku Dísu sinni, Teiti tengdasyni sínum og börnunum þeirra, þeim Ester Huld og Óla Torfa. Síðan bættust við barnabörn og það var svo gaman að hlusta á Huldu frænku segja manni frá lífi þeirra. Veggirnir á heimili Huldu voru prýddir fallegum myndum af hennar nánasta fólki sem alltaf var gaman að skoða og um leið sagði hún manni frá þeim og í hvaða ævintýrum þau hefðu lent í. Hún elskaði að fara í heimsókn til þeirra og fannst aldrei neitt mál að ferðast hvert sem er um heiminn til að heimsækja þau.
Ég á margar góðar minningar af samverustundum með Huldu frænku enda var mamma einstaklega dugleg að fara með Huldu á tónleika, í leikhús eða skólasýningar sem skólarnir hér á Akranesi hafa verið með enda hafði hún einstaklega gaman af þeim stundum. Fyrir þær samverustundir er ég afar þakklát. Einnig voru systkini mömmu dugleg að bjóða Hulda í hittinga sem þau voru með og hefur okkur börnum þeirra systkina þótt afar vænt um hana Huldu frænku.
Þar sem ég bý í sama bæjarfélagi og Hulda, var hún alltaf sú frænka sem kom í afmæli hjá börnunum mínum, fermingar eða aðrar veislur, og var hún alltaf efst á blaði á boðslistanum. Þetta segir margt um það hversu ofarlega Hulda okkar var hjá fjölskyldunni. Hún sagði manni alltaf sögur af ömmu og var það dásamlegt þar sem ég var bara 3 ára þegar amma mín féll frá en þær höfðu alltaf verið góðar vinkonur og frænkur.
Við Hannes vorum svo þakklát þegar sonur okkar hann Ellert Lár komst ekki inn í leikskóla þegar hann var tveggja ára gamall að þá var Hulda frænka tilbúin að passa hann fyrir okkur. Ellert Lár kunni heitin á öllum bátunum á bryggjunni og gat sagt okkur foreldrunum hvað bátarnir hétu. Þau voru dugleg að fara í bakaríið eða á kaffihúsið og fengu sér oft kjötsúpu sem okkar manni þótti ekki amalegt. Með þeim hefur alltaf ríkt mikil vinátta og virðing, enda ekki allir jafn heppnir að hafa fengið að vera hjá Huldu frænku. Fyrir þessa hjálp verðum við þér ævinlega þakklát.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem)
Með góðum minningum um fallega og góða frænku kveð ég þig elsku Hulda frænka mín, þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu og minningar um þig munu lifa áfram.
Elsku Dísu Dóru, Teiti, Ester Huld, Óla Torfa og barnabörnum Huldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Takk fyrir allt.
Þín frænka,
Lára Dóra.
Í dag kveðjum við Huldu Ásdísi Sigurðardóttur. Ég kynntist Huldu fyrir 55 árum. Síðan þá hefur Hulda verið mér og mínum mikil vinkona. Hélt alltaf tryggð við okkur í blíðu og stríðu. Hulda fylgdist með dætrum mínum Sillu Mæju og Gunnu Siggu og síðan börnum þeirra. Hulda var trygglynd, lífleg, mjög gjafmild, meistari í handavinnu og matreiðslu. Ég mun sakna hennar, en svona er lífið, það gefur og það tekur. Elsku Hulda, takk fyrir allt og allt.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Elsku Dísa Dóra, Teitur, Ester Huld, Óli Torfi og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar.
Guðný Steinunn
Guðjónsdóttir.