Baldur Ásgeirsson fæddist 6. júlí 1929 á Bíldudal. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 12. febrúar 2025.

Móðir hans var Kristín Albertína Jónsdóttir, f. 21.5. 1896, d. 11.5. 1994. Faðir hans var Ásgeir Jónasson, f. 21.5. 1896, d. 11.5. 1994. Systkini hans voru Hjördís, Fjóla, Jóna og Ingvar sem öll eru látin og Hjördís sem lifir þau. Auk þess ólst systursonur Baldurs, Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson, upp sem yngsta barnið í systkinahópnum, þar sem foreldrar hans Fjóla og Gunnlaugur fórust með MS Þormóði í febrúar 1943.

Með Olgu Júlíusdóttur eignaðist Baldur Heiðar Baldursson, f. 10.10. 1949, d. 1.11. 2017. Eftirlifandi eiginkona Heiðars er Helga Jóhannesdóttir. Synir þeirra eru Stefán Bergmann og Baldur Bergmann og eiga þeir samtals fjórar dætur.

Fyrri eiginkona Baldurs (þau skildu) var Soffía Sveinbjörnsdóttir og eignuðust þau synina Lúðvík Baldursson, f. 25.3. 1950, d. 4.1. 2012, dætur hans eru þrjár, og Ásgeir Soffíuson, f. 4.10. 1952, hann á fjögur börn.

Seinni eiginkona Baldurs var Fjóla Eleseusardóttir, f. 26.6. 1926, d. 1.2. 2013. Þau hófu sambúð árið 1957 og gengu í hjónaband 29.12. 1968. Dóttir Fjólu og stjúpdóttir Baldurs er Svala Sigurjónsdóttir, f. 4.9. 1945. Hennar maður er Gunnar Víkingur Guðnason og eiga þau tvö börn, Fjólu Ósk, hún á tvær dætur og einn stjúpson, og Guðna, hann á tvö börn.

Baldur ólst upp á Bíldudal með systkinum sínum sem voru honum ávallt kær og foreldrunum Stínu og Geira sem héldu vel utan um barnahópinn sinn.

Hann vann eins og siður var bæði til sjós og lands, var verkstjóri í Niðursuðuverksmiðjunni á Bíldudal og mörg sumur í brúarvinnu. Eftir að hann og Fjóla fluttu til Reykjavíkur árið 1971 var hann verkstjóri hjá Kjötiðnaðardeild SÍS og Goða allt fram að starfslokum.

Baldur hafði mikinn áhuga á íþróttum af öllu tagi. Hann stundaði frjálsar íþróttir á sínum yngri árum og vann til margra verðlauna á þeim vettvangi. Einnig stundaði hann skíðaíþróttir, mest skíðagöngu, og var stjórnarmaður í Skíðafélagi Reykjavíkur. Fótbolti innan lands og utan fór ekki fram hjá honum og stórmót í handbolta voru skylduáhorf.

Baldur var um nokkurt skeið stjórnarmaður í Verkstjórafélagi Reykjavíkur og var áhugasamur og öflugur í störfum sínum fyrir félagið.

Útför hans fer fram frá Áskirkju í dag, 28. febrúar 2025, kl. 11.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, segir í þekktum sálmi. Grænar grundir eru líka heppilegar til þess að hlaupa á. Nú þegar Baldur Ásgeirsson hefur fengið hvíldina sé ég hann fyrir mér á harðahlaupum léttan og lipran eins og hann var alla tíð, nema síðustu árin, sem voru honum erfið. Við sem þekktum Baldur vissum hvað hann var alla tíð áhugasamur um íþróttir, enda mikill keppnismaður á yngri árum og vann þá til margra verðlauna, sérstaklega í hlaupaíþróttum.

Ég kynntist Baldri fyrir hátt í 60 árum þegar kynni hófust með okkur Svölu stjúpdóttur hans og dóttur Fjólu Eleseusdóttur sem var eiginkona hans. Hef ég því alltaf litið á hann sem tengdaföður minn. Segja má að Baldur, af einstakri yfirvegun og ljúfmennsku, hafi verið kletturinn sem alltaf var til staðar. Börnin okkar og síðar barnabörn dýrkuðu hann og dáðu og áttu í honum góðan vin. Baldur var einstaklega barngóður. En hann gat líka verið fastur fyrir, sérstaklega ef honum fannst á einhvern hallað.

Baldur ólst upp á Bíldudal, inn milli fjallanna í hinum fagra Arnarfirði sem honum þótti svo vænt um og hélt tryggð við. Hann byrjaði ungur að vinna, innan við fermingu var hann orðinn mjólkurpóstur og þurfti oft að fara langar vegalengdir teymandi burðarklár sem honum fannst alltof hægfara. Hann vann við að beita línu og reri líka á bátunum. Hann vann hjá Matvælaiðjunni við að sjóða niður Bíldudals grænar. Í brúarvinnu var hann mörg sumur og varð þá fyrir því slysi að lenda með hægri höndina inni á spiltromlu og lá við að hann missti höndina, þurfti því að fara í miklar aðgerðir, m.a. þurfti að setja járntein í upphandlegginn sem náðist ekki að fjarlægja þegar til kom og varð hann því að ganga með hann alla tíð. Ekki efast ég um að þetta hafi valdið honum oft á tíðum miklum óþægindum en aldrei kvartaði hann og aldrei hlífði hann sér.

Eftir flutning þeirra hjóna til Reykjavíkur 1971 hóf Baldur störf hjá Kjötiðnaðarstöð SÍS, síðar Goða, og vann þar sem verkstjóri til starfsloka.

Nú þegar við kveðjum Baldur minn er mér efst í huga þakklæti og góðar minningar um þann mann sem hefur reynst hvað best og verið mér traustur vinur alla tíð.

Blessuð sé minning Baldurs Ásgeirssonar.

Gunnar V. Guðnason.

Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar.

Við systkinin erum þakklát fyrir þann besta afa sem við fengum og áttum.

Hann var trúr og dyggur fjölskyldu sinni og vinum, ávallt hjálpsamur og bóngóður.

Afi var kappsamur og einstaklega duglegur og orkumikill og hvatti okkur ávallt til dáða; „bara muna að halda alltaf vel á, þá gengur þetta allt saman“ sagði hann stundum við okkur.

Afa fannst gaman að segja okkur sögur af því þegar hann var barn og unglingur á Bíldudal. Hann var stríðinn og hláturmildur og sá gjarnan skoplegu hliðarnar á tilverunni. Það var gaman að vera með honum og hann passaði líka vel upp á okkur.

Í löngu lífi skiptast á skin
og skúrir en afi stóð það allt
af sér og gaf okkur gjarnan
góð ráð ef á þurfti að halda í erfiðum aðstæðum. Hlýja hans og elskusemi brást ekki. Hann var okkur öllum góð fyrirmynd.

Afi reyndist mömmu okkar sem hinn besti pabbi og
á milli þeirra var mikil umþykja alla tíð. Hann var vakinn og sofinn yfir velferð hennar og ömmu, eins og okkar allra.

Hann var einstakur og við munum öll minnast hans
með hlýju og söknuði. En nú
var tíminn kominn og okkar nú að þakka og kveðja elsku afa okkar.

Fjóla Ósk, Guðni og
fjölskyldur.