Sigurður V. Sigurjónsson fæddist í Reykjavík 12. október 1944. Hann lést á Landspítalanum 4. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Sigurjón Sigurðsson kaupmaður, f. 18. nóvember 1916, d. 20. febrúar 1998, og Sigrún Jónsdóttir kirkjulistakona, f. 19. ágúst 1921, d. 22. nóvember 2001. Þau skildu. Alsystkini Sigurðar eru Ólafur Þórir læknir í Svíþjóð, f. 25. febrúar 1941, og Guðfinna Svava kennari, f. 23. september 1942. Hálfsystkini Sigurðar, sammæðra, eru Sigurborg Ragnarsdóttir kennari í Svíþjóð, f. 30. ágúst 1948, og Emil Jón Ragnarsson læknir, f. 10. júlí 1960. Sigurður ólst upp hjá móðurömmu sinni Guðnýju Þorgerði Þorgilsdóttur, alltaf nefnd Þorgerður, f. á Svínafelli í Öræfum 30. apríl 1900, d. 31. ágúst 1994. Ólst hann upp hjá henni fyrst á Laugamýrarblettinum og síðar Rauðalæk 19 í Reykjavík.

Sigurður var kvæntur Kristjönu Ellertsdóttur skurðhjúkrunarfræðingi í Hafnarfirði, f. 31. desember 1948. Þau skildu. Foreldrar Kristjönu voru hjónin Ellert Kristjánsson verkstjóri og Jóhanna Erna Kristjánsdóttir húsfreyja. Þau bjuggu í Hafnarfirði.

Synir Sigurðar og Kristjönu eru: Ellert lögfræðingur í Hafnarfirði, f. 15. apríl 1971, og Þór Snær hönnuður og rafvirkjanemi í Hafnarfirði, f. 28. nóvember 1973. Þór Snær er giftur Jónu Kristínu Guttormsdóttur bókara, f. 6. janúar 1975, og er dóttir þeirra Kristjana Björg, f. 6. febrúar 2001, býr í Noregi.

Seinni sambýliskona Sigurðar var Lilja Ragnarsdóttir tannfræðingur á Álftanesi, f. 14. apríl 1963, og þau áttu soninn Sigurjón, bílstjóra í Garðabæ, f. 26. janúar 1993. Þau slitu samvistum.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964 og kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1971. Hlaut Sigurður lækningaleyfi 1977 og í Svíþjóð 1981 og sérfræðileyfi í geislagreiningu í báðum löndunum. Vann hann lengst af á Borgarspítalanum en fór til Norðurlandanna 1976 og vann þar eitt ár á röntgendeildinni á Ullevål Sykehus í Ósló í Noregi 1976-1977. Kenndi hann við Lundarháskóla í Svíþjóð og vann á Malmö Almänna Sjukhus til 1984. Hann kom heim til Íslands og vann sem sérfræðingur á röntgendeild Landspítalans frá 1984 til starfsloka en þar var hann mikið að sinna óskoðunum. Auk þess sinnti hann kennslu við Háskóla Íslands og Röntgentæknaskólann. Sigurður var gerður að heiðursfélaga Læknafélagsins árið 2018.

Útför Sigurðar hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku pabbi minn. Það var hræðilegt að sjá hvernig erfiður taugasjúkdómur rændi þig öllu. Þetta var ólíkt því sem áður var. Þú varst mjög hæfileikaríkur læknir og sérhæfðir þig í ómskoðunum, lengst af á röntgendeild Landspítalans. Ég hef heyrt lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk hrósa þér í hástert fyrir þína miklu hæfileika sem læknis en þú vannst m.a. í teymi með skurðlæknum spítalans við það að greina mein sem síðan voru skorin. Þessir hæfileikar þínir koma mér ekki á óvart. Þú varst ofurklár og einbeittur þegar þú hafðir áhuga á einhverju. Einnig listrænn, sem þú hefur eflaust erft frá móður þinni, og með gott rúmskyn en þessir hæfileikar þínir komu að góðum notum í þeirri veröld sem birtist á tölvuskjánum þegar þú ómskoðaðir sjúklinga þína.

Þú hafðir mjög sterkar skoðanir, varst óhræddur og álit annarra á þér skipti þig engu máli.

Þú ólst upp hjá Þorgerði ömmu þinni og Hafsteini móðurbróður þínum á góðu heimili. Amma gerði allt fyrir þig og sá ekki sólina fyrir þér. Sem krakki kom ég oft í heimsókn til ömmu á Rauðalækinn og þar var gott að vera. Góð amma, góður frændi og gott frændfólk í sama húsi. Þorgerður amma kunni svo sannarlega að elda svokallað ömmulambalæri en steikingarlyktin fannst frá þriðju hæð og út á götu, svo mikill var hamagangurinn.

Sem krakki varst þú í sveit nokkur sumur hjá frændfólki þínu á Svínafelli í Öræfum og talaðir um þessa tíma með mikilli hlýju sem og um frændfólkið þitt þar.

Áður en þú veiktist varst þú duglegur að ferðast. Árið 2016 fórum við ásamt Sigurjóni bróður og mömmu í siglingu til Asíu. Einnig fórum við tveir ásamt Sigurjóni bróður í heimsókn til Þóris bróður þíns í Svíþjóð sumarið 2019. Síðasta utanlandsferðin þín var til Færeyja árið 2022 þegar við tveir fórum ásamt mömmu á bílnum með Norrænu. Við nutum okkar í ferjunni og keyrðum um allar eyjarnar á bílnum eins og herforingjar. Þetta var góð ferð en í henni komu veikindi þín berlega í ljós. Einnig fórum við mamma með þér til Vestfjarða eitt sumarið og annað árið skoðuðum við Austfirðina og enduðum á Akureyri. Þú naust þín afslappaður í framsæti bílsins og dáðist að útsýninu. Ég mun minnast allra þessara ferða okkar með hlýju, þetta eru góðar minningar.

Eftir að þú veiktist og meðan heilsa þín leyfði hafði ég það fyrir vana að bjóða þér reglulega í dagsbíltúra. Þessar ferðir veittu þér augljóslega ánægju og tilbreytingu í lífinu.

Að lokum vil ég þakka móður minni fyrir að vera þér mjög góð, sérstaklega eftir að þú veiktist, en hún bauð þér alltaf í mat heim til sín á hátíðardögum. Henni var mjög umhugað um þig. Hún stóð þér við hlið ásamt okkur bræðrum og Emil bróður þínum að kvöldi 4. febrúar síðastliðins þegar þú kvaddir þennan heim á Borgarspítalanum, gamla vinnustaðnum þínum. Án mömmu hefði þetta allt orðið miklu erfiðara.

Elsku pabbi minn. Ég kveð þig með söknuð í hjarta og mun alltaf minnast þín með hlýju, virðingu og stolti. Það er erfitt að kveðja sína nánustu en ég hugga mig samt við það á þessari stundu að núna ert þú laus úr viðjum sjúkdóms sem hafði klófest þig og búinn að ná heilsu á ný. Búinn að hitta Þorgerði ömmu og Hafstein frænda og vonandi fær Hafsteinn loksins að klára söguna sem hann náði aldrei að segja þér að fullu í fjölskylduboðunum í gamla daga, en þannig var það bara í þessari fjölskyldu.

Lengri grein á www.mbl.is/andlat

Þinn sonur,

Ellert.

Pabbi er dáinn. Þú fórst á stjörnulausu þriðjudagskvöldi, logn var úti og jörð snævi þakin. Næsta dag skall á versta óveður síðustu tíu ára með rauðri viðvörun um landið. Auðvitað var kátt í höll veðurguðanna þegar þú mættir.

Í æsku umgekkst ég þig takmarkað, mest á „pabbahelgum“. Þú tókst mig oft með þér í leiðangra um landið, aðallega rútuferðir til að skoða „Fjallkonuna“ eins og þú kallaðir Ísland. Við ræddum allt milli himins og jarðar. Þú kenndir mér um geiminn, jarðlögin og dýraríkið. Þegar ég byrjaði í náttúrufræði í skóla var ég búinn að læra þetta allt saman af þér.

Ég kynntist þér betur á mínum seinni unglingsárum, eða þegar ég flutti heim til þín. Þú varst mér alltaf hliðhollur og studdir mig þegar á bjátaði. Ætlaðist ekki til mikils af neinum og vildir heldur ekki að neinn ætlaðist til mikils af þér. Sóttir oft í einveruna til að fá frið sem var þér mikilvægur, t.d. gat enginn hringt í þig þegar fréttir voru í útvarpi eða sjónvarpi, því þá tókstu símann úr sambandi – eða „Friðþjóf“ eins og hann var kallaður. En þú varst einnig veisluglaður og alúðlegur maður.

Fyrir rúmum áratug fannstu fyrir „óstöðugleikanum“ sem versnaði hægt og bítandi. Síðustu árin voru þér erfið. Ég er heppinn að eiga góða bræður, þá Ellert og Þór Snæ, en saman stóðum við með þér í gegnum veikindin og þú varst aldrei of lengi einn. En nú er þetta búið og þú kominn á betri stað. Ég mun ætíð varðveita minninguna um þig, elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Sigurjón Sigurðsson.

Elskulegur bróðir og mágur, Sigurður V. Sigurjónsson röntgenlæknir, eða Siggi eins og við kölluðum hann, lést nýlega eftir langvarandi veikindi.

Við eigum margar ljúfar minningar um hann. Þótt Siggi væri hálfbróðir minn var hann næstur mér í aldri í systkinaskara fimm systkina. Við áttum ýmislegt sameiginlegt svo sem að vera svolitlir bóhemar, mikið fyrir að skemmta okkur og stöðugt með myndavélina á lofti. Nokkuð sem við höfum erft frá sameiginlegri móður. Einnig áttum við það sameiginlegt að alast upp hjá eldri kynslóðinni. Siggi hjá móðurömmu Þorgerði á Rauðalæk og ég hjá föðurforeldrum um tíma í Hafnarfirði.

Alltaf gat ég leitað til Sigga, sem var fjórum árum eldri en ég. Þannig gat ég leitað til hans með erfið verkefni í skóla. Siggi var oft skjótur í svörum. Eitt sinn kom ég til hans hálfgrátandi og kvartaði yfir að fólk segði við mig: „Heimskur er jafnan höfuðstór!“ Siggi svaraði að bragði og sagði: „Svaraðir þú ekki bara á móti: „Lítið vit í litlum kolli?““

Það var mikil upplifun í bernsku að koma á Laugamýrarblettinn, þar sem Siggi bjó fyrst með móðurömmu og fleira móðurfólki. Mikið landflæmi fylgdi húsinu og kenndi þar margra grasa svo sem hænsnahúss og málmsteypustöðvar móðurafa og móðurbróður. Siggi nýtti sér landflæmið og byggði sína eigin flugvél. Hann bauð systur sinni og frænku okkar í flugferð. Man ég að stýrið var lítið hjól sem var á endanum á gamalli saumavél. Hann byggði bú fyrir frænku sína sem bjó í sama húsi. Þar var vaskur með rennandi vatni. Siggi var strax sem barn mjög hugmyndaríkur.

Siggi var mörg sumur í sveit á Svínafelli í Öræfum, þaðan sem Þorgerður amma er ættuð. Merki þess sáust í herbergi hans á Rauðalæk. Móðir okkar tók oft gesti með sér að skoða safn Sigga. Þarna voru hreiður, steinar af ýmsu tagi úr sveitinni með meiru.

Einhvern tímann fékk ég lánaða vinnubók Sigga í náttúrufræði, algjört listaverk sem Siggi gerði sjálfur og benti hann mér á að sjónminnið hjálpaði sér að muna betur. Á þessum tíma var fátt um hjálpargögn í skólum. Listrænar teikningar og vel skrifaður texti skreytti bókina. Ég fékk bókina lánaða og fór og sýndi nemendum mínum í Fossvogsskóla. Man að a.m.k. einn nemandi varð fyrir áhrifum og gerði sína eigin myndabók um seinni heimsstyrjöldina, þáttaröð sem þá var sýnd í sjónvarpinu.

Siggi var gæddur fjölmörgum hæfileikum. Hann var skarpgreindur og hafði óvenju ríka sköpunargáfu. Á samverustundum gat hann haldið fyrirlestra um læknisfræði, sagnfræði, jarðfræði og stjörnufræði.

Eitt sinn þegar hann ók systur sinni og vinkonu til Víkur var hann svo upptekinn af að lýsa ísöld og merkjum hennar í tindum Eyjafjalla að hann sleppti stýrinu, baðaði út höndunum og við lentum langt úti í mýri.

Siggi var ákaflega listrænn eins og móðir okkar, flinkur að teikna og mála. Hann gaf okkur ýmis verk eftir sig eins og „Flora Medicorum Et Chirurgorum“, sem var fylgirit Læknanemans. Þar voru vel gerðar skopmyndir af kennurum og nemendum læknadeildar.

Siggi gat verið skapstór og alls ekki gallalaus en allir hinir stórkostlegu hæfileikar hans urðu til þess að maður sóttist stöðugt eftir nærveru hans.

Við söknum skemmtilegs félaga, frásagna hans, unaðsstunda og skellihláturs hans sem enn hljómar í eyrum okkar.

Far í friði elsku bróðir og mágur.

Sigurborg Ragnarsdóttir og Stefán Karlsson.

Siggi bróðir, eins og við systkinin kölluðum hann, var áhugasamur um allt milli himins og jarðar. Reyndar ekki síst um jörðina, enda sjálfmenntaður jarðfræðingur. Líklega frekar keypt jarðfræðikort en salt í grautinn ef því hefði verið að skipta.

Hann hafði einnig mikinn áhuga á sagnfræði sem og ýmsum litríkum samferðamönnum. Eftirfarandi frásögn af sérkennilegri uppákomu á Landspítalanum fyrir rúmlega hálfri öld er höfð eftir honum.

Bróðir minn var aðstoðarlæknir á spítalanum þegar Gói frændi okkar lá þar með langt gengna meinsemd. Einn vinnudaginn sem oftar heilsaði Siggi upp á Góa. Sigurði lækni var vel tekið, en þannig ávarpaði hann jafnan Sigga. Þeir fengu sér sæti í alfaraleið, eða á aðalgangi gamla hluta Landspítalans. Fljótlega fór Gói hins vegar að ókyrrast, tók að ráfa um og sagðist ekkert skilja hvers vegna konan sín, hún frú Sigríður, væri ekki komin með þorramatinn – súrsuðu hrútspungana, bringukollana, kæsta hákarlinn o.s.frv. Jafnframt að Sigurður læknir mætti ekki missa af þessu. Sigga var brugðið, því nú væri Gói frændi greinilega kominn með æxlismeinvörp í höfuðið. Nema rétt í því birtist frú Sigríður með stórt vaskafat umvafið laki. Hún sló því út og úr varð uppdúkað borð með þorramat.

Ekki leið þó á löngu áður en Gói fór aftur að ókyrrast. Núna sagðist hann bara ekkert skilja í honum Jóhanni risa að vera ekki kominn. „Hann Jóhann risi ætlaði að mæta,“ sagði hann með pípandi röddu og aftur sá Siggi fyrir sér meinvörp í höfði Góa.

En þegar svo Sigga verður skömmu síðar litið upp frá súrmetinu, þá blasa við honum tvær hnéskeljar og Jóhann risi var mættur.

Þannig sleit Gói sig lausan, þó ekki væri nema dagstund. Reyndar var líkt með þeim frændum að rótast um í römmunum.

Í mynd sinni, Fanny og Alexander, skákaði Ingmar Bergman kuldalegri fábreytni með litríkri gleði. Hugmyndaflug og húmor veitti svipað skjól hjá Sigga. Var þó stundum líkara rússíbanareið. Því honum voru andstæður hugleiknar, samanber áhugann á jarðfræði landsins og „rugluðum“ frænda sem hafði rétt fyrir sér.

Emil J. Ragnarsson.

Kær vinur og fyrrverandi eiginmaður minn Sigurður V. Sigurjónsson er látinn. Hann lést eftir nokkurra ára erfiða baráttu við taugasjúkdóm. Saman áttum við tvo drengi, Ellert og Þór Snæ, einnig átti hann soninn Sigurjón sem er yngstur þeirra bræðra. Yndislegir og góðir drengir.

Siggi var afar fær í sínu starfi sem læknir. Hann hafði mörg áhugamál, mikla ástríðu fyrir jarðfræði og náttúrufræði og mikill áhugamaður um sögu Íslands og sótti marga fyrirlestra í endurmenntun um fornkappana.

Siggi var einstaklega mikill grúskari. Hann var flinkur að teikna og hafði mikla listræna hæfileika.

Guð geymi þig kæri vinur minn.

Ég kveð Sigga með fallegu ljóði sem faðir hans orti og heitir Ísland:

Ég elska þig land mitt

í ljósbláum loga.

Ég elska þín fannhvítu fjöll

þína firði og voga.

Ég elska þig eilífi Guð,

þú gafst oss vort bú.

Ég elska þitt réttlæti,

þitt frelsi, og þína trú.

(Sigurjón Sigurðsson)

Elsku drengirnir mínir og Sigurjón, þið hafið staðið ykkur vel í veikindum pabba ykkar. Ég sendi ættingjum og vinum Sigga innilegar samúðarkveðjur.

Kristjana Ellertsdóttir.

Sigurður V. Sigurjónsson var frændi Aldísar. Faðir hans og faðir Aldísar voru bræður, aldir upp á Njálsgötunni í Reykjavík. En Siggi var ekki bara frændi, heldur líka fjölskylduvinur. Ekki síst náðu þeir vel saman Guðmundur, faðir Aldísar, og Siggi. Um árabil hringdi Siggi reglulega í Guðmund á sunnudögum til að spjalla um heima og geima.

Siggi var læknir og líklega fremsti ómskoðunarlæknir landsins. Hann stóð styrkum fótum í læknavísindunum en hugur hans leitaði oft út fyrir þau. Hann var einkar fjölfróður og víðlesinn, meðal annars í fornsögunum. Að lenda í samræðum við hann var einstök upplifun, svo víða teygðu röksemdafærslur hans sig og alltaf fluttar með bros á vör og glampa í augum. Þegar Siggi var kominn í ham mátti maður kallast heppinn ef tækist að koma inn orði og orði á stangli. En oftast fór maður af fundum hans með upplyftan huga.

Á síðustu árum átti Siggi við vanheilsu að stríða, honum varð erfitt um gang og tregt tungu að hræra. Hefur það vafalítið verið mjög erfitt hlutskipti fyrir skarpan hug hans að geta aðeins með erfiðismunum komið hugsunum sínum í orð.

Siggi var listrænn og afburðateiknari, margar myndir hans af kennurum hans í læknadeild og síðar kollegum eru hreinar gersemar, skopmyndir í hæsta gæðaflokki. Eina mynda hans af ófrískri móður og fóstri, sem hann nefndi Tabula rasa (óskrifað blað), fékk Aldís leyfi til að nota í kennslubók í þroskasálfræði.

Þegar við urðum fertug færði Siggi okkur afmælisdagbók að gjöf, bók með ljóðum við hvern dag ársins. Jóhannes úr Kötlum hafði tekið bókina saman. Við afmælisdag Sigga (12. október) er að finna ljóðlínur eftir Gest (Guðmund Björnsson landlækni):

Ég kveð undir huliðshjálmi,

hugurinn víða fer,

og – því er nú ver –

veit ekki sjálfur,

hvaðan og hver ég er.

Þessar línur lýsa Sigga einkar vel. Hugur hans fór alltaf víða og hann velti oft fyrir sér „hvaðan og hver“ hann væri.

Við sendum sonum Sigga og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sigurðar V. Sigurjónssonar.

Aldís Unnur
Guðmundsdóttir og Jörgen L. Pind.

Sigurður Vilberg var nokkur ár sumardvalardrengur hjá fjölskyldu minni milli 1950-60 í Austurbænum í Svínafelli. Hann átti hingað ættartengsl og á þessum árum var það algengt að kaupstaðarbörn væru í sveit á sumrin. Það atvikaðist svo að Sigurður var allaf kallaður Villi hér í sveitinni. Næg voru verkefnin fyrir sporlétt ungmenni því að margir voru snúningarnir með kýr og hross og margt fleira. Lítið minningarbrot á ég þegar Villi brunar úr hlaði á hjóli að færa heyvinnufólkinu kaffi út á tún dálítið frá bænum. Var það oft gert til að vinnudagurinn nýttist sem best. Auðvitað átti Villi líka sína hrífu, var liðtækur í heyskap og öðrum hefðbundnum störfum en á þessum tíma var vélavinna skammt á veg komin.

Villi tengdist heimilinu sterkum böndum og þó að hann yrði fjarlægari um tíma vegna náms og starfsferils í framhaldi, þá var tryggðin við Austurbæinn alltaf sú sama. Í seinni tíð vorum við oftar í sambandi, ekki síst í síma þar sem hann sagði m.a. frá ýmsu um dvöl sína hjá okkur og fjölskyldulífið í gamla bænum þar sem hann mundi lengra aftur en við systkinin. Hann var okkur nánast sem eldri bróðir, eða eins og hann skilgreindi okkur á seinni árum þá vorum við sumarsystkin. Ýmislegt sem hefur fylgt heimilinu staðfestir það að Villi hefur auðgað tilveru okkar þegar við vorum að vaxa úr grasi enda var hann hugmyndaríkur og listrænn sem skilaði sér inn í leiki og skemmtileg uppátæki sem oft hafa verið rifjuð upp.

Síðustu sumrin hans hér var nýtt íbúðarhús í byggingu hjá okkur. Eitt sinn eftir steypuvinnu tók hann til hliðar svolítinn afgang af steypu og kom fyrir afsíðis þar sem hann gat mótað hana eins og hellu, tók svo laufblöð af trjám og plöntum við bæinn og lagði ofan á steypuna til að prenta í hana mynstur laufblaðanna. Þegar steypan var þornuð fjarlægði hann laufin, braut helluna í nokkur stykki og bað svo Sigurð fræðimann á Kvískerjum, sem þá var tíður gestur hér, að greina þessa steingervinga sem hann hefði „fundið“. Sigurður tók því nú heldur vel, skoðaði brotin með laufblöðunum í krók og kring og velti vöngum kímileitur áður en hann gaf upp vel ígrundaðan úrskurð og höfðu báðir jafn gaman af sem og heimilisfólkið. Villi hafði snemma áhuga á jarðfræði og sögu og fór oft í frítíma sínum hjólandi um nágrennið að skoða áhugaverða staði, m.a. setlög í Svínafellsfjalli þar sem finna mátti laufblaðasteingervinga og þaðan kom hugmyndin að brellunni sem var einmitt í hans anda, græskulaust gaman.

Áhugasvið Villa voru mörg, hann hafði nánast sérþekkingu í mörgum greinum, t.d. í jarðfræði. En læknisfræðin varð fyrir valinu fyrir ævistarfið. Á þeim vettvangi áttum við umhyggju hans vísa þegar á reyndi.

Far vel kæri sumarbróðir, þökk fyrir allt og hlýjustu samúðarkveðjur til aðstandenda.

Pálína Þorsteinsdóttir.