Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Frelsisþráin var sterk hjá Sveini Hannessyni frá Elivogum:
Mín er þrá að fljúga frjáls
fremur á mér sér það.
Enga fá vil hespu um háls
hver sem láir mér það.
Frelsið er vandmeðfarið. Ekki fór vel fyrir Þormóði Pálssyni:
Áður var ég ungur frjáls
Eigin brautir ruddi.
Nú er ég með hlekki um háls.
Heimabundinn tuddi.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni:
Hann í brjósti okkar er,
annatími í sveitum hér,
háttum klukkum heyrist sá,
helst er drukknum manni á.
Harpa á Hjarðarfelli ratar á lausnina:
Í hverju brjósti hjartans sláttur.
Heyskapur er sláttur.
Hávær kirkjuklukknasláttur.
Á kófdrukknum var sláttur.
Lausnarorðið er sláttur og ólík merking í hverri línu. Það þvælist ekki fyrir Erlu Sigríði Sigurðardóttur:
Hjartsláttur í brjósti býr,
brjálæði á slætti.
Klukkusláttur slær sem gnýr
um slátt á drukknum manni.
Helgi Jensson leggur orð í belg:
Sláttur hjartans slær sinn takt,
sláttur önn í bóndans ranni,
sláttur klukku slær inn vakt
sláttur er á drukknum manni.
Þá Úlfar Guðmundsson:
Hjartsláttur í brjósti berst.
Bændur um slátt keppast við.
Klukkusláttur kallar gest.
Karlasláttur drykkju við.
Helgi Einarsson er á sínum stað:
Hjartsláttur í okkur er.
Annatími sláttur hér.
Klukknasláttur kólfum frá
og kófdrukknum oft sláttur á.
Loks Guðrún Bjarnadóttir:
Hjartsláttur brýnn í brjósti.
Bændur í slátt, með þjósti.
Með slættinum klukkan kallar.
Full kerla með slátt, nær allar.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Sérhvert eldhús hefur hann,
hafður títt í peysum er,
gleður lúinn göngumann,
gegnum skólann saman fer.