Úrslit Steinunn Björnsdóttir, línumaður Fram og íslenska landsliðsins, fagnar sigrinum á Val í undanúrslitum.
Úrslit Steinunn Björnsdóttir, línumaður Fram og íslenska landsliðsins, fagnar sigrinum á Val í undanúrslitum. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sannkölluð bikarveisla í handknattleik er fram undan á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag þegar bikarúrslitaleikir bæði kvenna og karla fara fram. Fram og Haukar etja kappi í úrslitum kvenna klukkan 13.30 og Stjarnan mætir svo Fram í úrslitum karla klukkan 16

Bikarúrslit

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Sannkölluð bikarveisla í handknattleik er fram undan á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag þegar bikarúrslitaleikir bæði kvenna og karla fara fram. Fram og Haukar etja kappi í úrslitum kvenna klukkan 13.30 og Stjarnan mætir svo Fram í úrslitum karla klukkan 16.

Á fimmtudagskvöld sló kvennalið Fram ríkjandi bikarmeistara Vals úr keppni með afar sterkum 22:20-sigri og síðar um kvöldið unnu Haukar öruggan 31:21-sigur á Gróttu, botnliði úrvalsdeildarinnar. Leikirnir fóru fram á Ásvöllum.

Fram og Haukar hafa átt afar keimlíku gengi að fagna í úrvalsdeildinni í tímabilinu og eru raunar hnífjöfn að stigum, bæði með 26 stig. Fram er í öðru sæti og Haukar í því þriðja þar sem Framarar standa betur að vígi í innbyrðis viðureignum eftir að hafa unnið báða leiki liðanna í deildinni á tímabilinu.

„Fyrst og fremst held ég að þetta verði rosa jafnt og á alveg eins von á því að þetta ráðist á síðustu mínútunum. Ég held að við fáum hörkuskemmtilegan leik,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested, þjálfari kvennaliðs ÍR, í samtali við Morgunblaðið, beðin um að rýna í bikarúrslitaleik kvenna.

Er annað liðið sigurstranglegra að þínu mati?

„Nei, ég myndi ekki segja það. Þetta er eiginlega bara það hvaða lið hittir á sinn besta dag. Framararnir gerðu það svo sannarlega í gær [fimmtudagskvöld] og unnu mjög sterkan sigur, sem sýnir hvað í þeim býr.

Haukarnir hafa verið á siglingu og bætt sig mjög mikið á þessu tímabili þannig að það er eiginlega ómögulegt að spá um þetta,“ sagði Sólveig.

Markvarslan lykilatriðið

Vænta má þess að leikmenn Fram séu hærra uppi eftir sigur á ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeisturum Vals á meðan verkefni Hauka var ekki jafn erfitt.

„Þær þurfa náttúrlega klárlega að vinna í því að koma sér niður á jörðina en þær eru bara það reyndar, með reyndan þjálfara, að ég held að það verði ekkert vandamál fyrir þær. Ég held að lykilatriðið fyrir þær sé markvarslan, sem var lykilatriðið í gær.

Markvarslan hefur verið svona upp og ofan hjá Fram. Darija [Zecevic] var frábær í gær og átti rosa stóran þátt í þessum sigri en þær þurfa að fá það aftur. Þær þurfa að fá aftur þennan varnarleik og hana sterka fyrir aftan,“ sagði hún.

Erfitt að dæma Haukana

Spurð hvort liðin þurfi að bæta eitthvað frá undanúrslitaleikjum sínum sagði Sólveig:

„Það er kannski erfitt að dæma Haukana eftir leikinn í gær. Þær áttu bara stöðugan leik og því erfitt að tína eitthvað til þar. Framararnir þurfa aðeins að skoða sóknarleikinn. Þær spiluðu sterka vörn með góðri markvörslu en voru hikandi sóknarlega.

Alfa [Brá Hagalín] var frábær í fyrri hálfleik og datt svo aðeins niður í seinni. Þær þurfa kannski meira framlag frá leikmönnum eins og Lenu [Margréti Valdimarsdóttur]. Ég myndi segja að það væri það helsta sem þær þyrftu aðeins að skoða, sóknarleikurinn.“

Þrátt fyrir að Sólveig hafi sagt ómögulegt að segja fyrir um úrslit í leiknum biðlaði blaðamaður samt til hennar að spá um úrslit.

„Ef þú myndir neyða mig til þess þá myndi ég tippa á Haukana en þetta getur alveg klárlega farið á hvorn veginn sem er,“ sagði Sólveig að lokum.

Vonandi óvæntar stjörnur

Á miðvikudagskvöld fóru undanúrslitaleikir karlanna einnig fram á Ásvöllum. Stjarnan vann þá afar sterkan sigur á ÍBV, 34:29, en Eyjamenn höfðu síðast tapað undanúrslitaleik í bikarnum 19 árum fyrr, einmitt gegn Stjörnunni í febrúar árið 2006.

Fram lagði svo Aftureldingu, 36:33, eftir æsispennandi framlengdan leik. Gengi Fram hefur verið töluvert betra en Stjörnunnar á tímabilinu í úrvalsdeildinni þar sem Fram er í öðru sæti með 27 stig og Stjarnan í sjöunda sæti með 18.

Fram vann fyrri leik liðanna í Úlfarsárdal í deildinni með níu mörkum og liðin mætast svo aftur í lokaumferðinni í lok mánaðarins.

„Bikar er alltaf bikar. Þeir geta alltaf farið á alla vegu vil ég meina. En ég vona handboltans vegna að leikurinn verði mjög skemmtilegur og spennandi og að einhverjar óvæntar stjörnur komi fram í sviðsljósið.

Það er mín von sem handboltaþjálfari,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari fráfarandi bikarmeistara Vals, við Morgunblaðið er hann var beðinn að rýna í bikarúrslitaleik karla.

Framarar sigurstranglegri

Fyrir fram telur Óskar Bjarni að Fram sé sigurstranglegri aðilinn.

„Ég held að flestir myndu telja Framara sigurstranglegri í þessari viðureign. Þeir eru líklega með mestu sóknarbreiddina í deildinni. Þeir eru með mikið af ungum og sprækum leikmönnum og mikla breidd ef eitthvað kemur upp.

Þeir eiga svolítið mikið af sóknarvopnum og spila einnig góða vörn. Stjarnan er reyndar í sjálfu sér líka með lúmska breidd ef Egill [Magnússon] er kominn til baka og er heill. Hann spilaði nú ekkert í síðasta leik.

Ísak Logi [Einarsson] hefur verið að koma sterkur inn og þeir eiga Svein Andra [Sveinsson]. Ef það á að setja þetta upp, sem er erfitt í bikar, þá myndi fólk segja að Framararnir væru sigurstranglegri miðað við deildina og hvernig veturinn hefur verið.“

Komið vel inn í bikarvikuna

Að hans mati líta bæði lið afskaplega vel út fyrir úrslitaleikinn.

„Maður var svolítið spenntur fyrir leik Fram og Aftureldingar. Þessi tvö lið hafa spilað skemmtilegan og góðan bolta og verið svolítið stöðug í því í allan vetur. Stjarnan hefur verið dálítið upp og niður en mér fannst liðið koma mjög vel inn í leikinn gegn ÍBV.

Þeir voru vel undirbúnir, spiluðu fantavörn og skynsaman og góðan sóknarleik. Ég held að það sé þeirra lykill á móti Fram-liðinu að þeir komi mjög vel inn í bikarvikuna. Bæði lið hafa komið mjög vel inn í hana. Að því leyti á ég von á góðum leik.

Stjarnan er með mjög sterka vörn og getur einnig spilað 5-1-vörn. Þeir eru vel skipulagðir og gerðu þetta mjög agað og vel sóknarlega. Miðað við hvernig liðin koma inn í vikuna er ég mjög ánægður með þeirra undirbúning og held að þetta verði spennandi leikur,“ sagði Óskar Bjarni.

Ekki góður spámaður

Treystirðu þér til að spá fyrir um úrslit í leiknum?

„Ég er nú ekki mikið fyrir að spá og er ekki góður spámaður! Þetta er oft svona í bikar, sem er það skemmtilega við hann, að það þarf að hitta á rétta spennustigið. Það þurfa að fylgjast að vörn og markvarsla.

Oft á svona bikarhelgum er einhver óvæntur markvörður sem er hetjan. Þetta eru tveir ungir markverðir hjá Fram sem hafa verið góðir í vetur. Svo ertu líka með tvo unga markverði í Stjörnunni. Markvarsla og einfaldir boltar skipta máli.

Annars vil ég ekkert vera að spá um hvort liðið tekur þetta. Ég óska þeim til hamingju með að vera þarna og vona að þau njóti þess að spila,“ sagði hann að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson