Kumi Naidoo og Ólafur Elíasson eru bjartsýnir á jákvæð viðbrögð íslenskra stjórnvalda.
Kumi Naidoo og Ólafur Elíasson eru bjartsýnir á jákvæð viðbrögð íslenskra stjórnvalda. — Morgunblaðið/Hákon
Þannig geta smærri ríki tekið frumkvæðið og ýtt við þeim stærri, eins og Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína, og hvatt þau til aðgerða.

Ólafur Elíasson og Kumi Naidoo eru nýkomnir af fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og eru á leið á Bessastaði að hitta Höllu Tómasdóttur forseta Íslands þegar fundum okkar ber saman á vinnustofu Ólafs í Marshallhúsinu í hádeginu í gær, föstudag.

Naidoo tók fyrir hálfu ári við sem forseti Sáttmála gegn útbreiðslu jarðefnaeldsneytis (hér eftir Sáttmálinn) og Ólafur er sérlegur talsmaður verkefnisins sem hefur þann tilgang að draga úr útbreiðslu jarðefnaeldsneytis, olíu, kola og gass, í heiminum og stuðla með sanngjörnum hætti að orkuskiptum yfir í endurnýjanlega orku. Naidoo, sem er frá Suður-Afríku, hefur lengi látið sig loftslagsmál varða sem og mannréttindamál en hann var áður æðsti stjórnandi hjá bæði Greenpeace og Amnesty International.

„Tilgangur heimsóknar okkar hingað er að fá íslensk stjórnvöld til að leggjast á árarnar með okkur og að Ísland verði fyrsta Evrópuríkið til að ganga verkefninu á hönd en 16 ríki, öll utan Evrópu, eru þegar komin um borð,“ segir Naidoo en þeirra á meðal eru Kólumbía og Pakistan. „Við kynntum hugmyndina fyrir utanríkisráðherra og hún tók okkur vel. Þótti mikið til þess koma að við hefðum þegar stofnað til samstarfs við svo mörg ríki.“

– Eruð þið bjartsýnir á að Ísland sláist í hópinn?

„Já, hér eru engar meiri háttar fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti, þannig að fyrirstaðan er ekki fyrir hendi. Þegar við lögðum af stað gerðum við úttekt á því hvaða ríki væru í bestri aðstöðu til að leggja sitt af mörkum og Ísland var mjög ofarlega á því blaði,“ svarar Naidoo og Ólafur bætir við að Íslendingar hafi engu að tapa. „Íslendingar þurfa að spyrja sig hvar þeir geti haft vigt á alþjóðavettvangi. Auðvitað er það lítið land og lítið hagkerfi en það þýðir um leið að skilvirknin er mikil. Þar liggja tækifærin. Ísland hefur áður látið til sín taka, ég nefni fund Reagans og Gorbatsjovs í því sambandi, auk þess sem landið býr að elsta þingi í heiminum. Hvers vegna ætti Ísland ekki að geta látið ljós sitt skína yfir Evrópu þegar kemur að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis?“

Leiðandi á heimsvísu

Ólafur segir Ísland þegar hafa gengið fram með góðu fordæmi enda sé þjóðin leiðandi á heimsvísu þegar kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku. Eftir því hafi verið tekið og fyrir vikið hlusti margir þegar Ísland kveður sér hljóðs á þessum vettvangi.

Naidoo tekur undir þetta, Ísland sé í kjörstöðu. „Það er fyrst og fremst tvennt sem þarf að gera. Í fyrsta lagi að takast ekki á hendur frekari skuldbindingar þegar kemur að jarðefnaeldsneyti. Það er auðvelt hér enda eru engin áform um slíkt. Í öðru lagi þarf að gera áætlun um að ýta jarðefnaeldsneyti alfarið út; sem er margfalt einfaldara fyrir ykkur en til dæmis ríki eins og Kólumbíu sem er svo margfalt háðara jarðefnaeldsneyti.“

Í huga Naidoos er málið ósköp einfalt. „Við erum komin á þann stað að við megum ekki lengur neinn tíma missa. Við verðum að skipta jarðefnaeldsneyti út til að koma í veg fyrir meiri loftslagsskaða. Þannig að ég biðla til íslenskra stjórnvalda og annarra sem hafa hagsmuna að gæta: Komið endilega í þessa vegferð með okkur og gerið það strax! Við þurfum að hafa a.m.k. 25 ríki á bak við okkur til að hægt verði að ganga að samningaborðinu og vonandi verður því takmarki náð fyrir lok þessa árs.“

Af öðrum Evrópuríkjum sem Sáttmálinn vonast til að fá í lið með sér má nefna Írland, Bretland, Spán og Grikkland. „Við lítum einnig svo á að Norðurlöndin sem heild hafi veigamiklu hlutverki að gegna, jafnvel Noregur, sem er háðari olíu en hin ríkin, en almenningsálitið þar um slóðir er samt afgerandi, fólk er fylgjandi aðgerðum vegna loftslagsbreytinga. Sama gildir um þegna margra suðlægari ríkja sem einnig eru mjög háð jarðefnaeldsneyti. Það finna allir fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Ekki þarf að segja ykkur Íslendingum neitt um það en þið hafið verið að horfa upp á jöklana ykkar bráðna,“ segir Naidoo.

Hann segir skondna sögu í því sambandi. „Ólafur hringdi í mig 2019 og sagði að ég yrði að koma til Íslands til að vera viðstaddur útför. Nú, hver dó? spurði ég. Jökullinn Ok, var svarið.“

Spurður hvort það breyti einhverju í þessum efnum að ný ríkisstjórn sé tekin við á Íslandi svarar Ólafur: „Það er fínt að þeim hafi tekist að ná saman áður en við komum. Þeim ætti að gefast góður tími til að setja sig inn í málið enda að óbreyttu langt í næstu kosningar. Það er kannski útúrdúr en mér finnst líka frábært að formenn allra flokkanna í samsteypustjórninni séu konur. Það þættu stórtíðindi víða – en ekki hér. Eins og ég nefndi áðan þá eru boðleiðirnar styttri hér en víðast annars staðar og í því liggja mikil tækifæri. Sjálfur hef ég fylgst vel með loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna gegnum árin, en sú fyrsta var haldin 1992, og vil ekki tala þær niður en sláandi er að það var fyrst fyrir tveimur árum að orðið „jarðefnaeldsneyti“ var tekið inn í sáttmálana þar. Það er eins og að AA-samtökin hefðu þurft 30 ár til að innleiða orðið „áfengi“ í sínar samþykktir.“

Ólafur segir það einmitt hlutverk Sáttmálans, að komast fram fyrir röðina og draga vagninn þegar kemur að loftslagsmálum – og um leið ýta við vettvangi eins og loftslagsráðstefnum SÞ. „Þannig geta smærri ríki tekið frumkvæðið og ýtt við þeim stærri, eins og Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína, og hvatt þau til aðgerða. Sjálfur hafði ég lengi beðið eftir vettvangi eins og Sáttmálanum, fólki eins og Kumi sem tekur af skarið. Ísland væri kjörið til að leiða þessa umræðu, byggja brýr og fá hin stærri ríki að borðinu með sér.“

Naidoo tekur heils hugar undir þetta, téðar ráðstefnur hafi ekki skilað nægilega miklu. Sjálfur var hann fulltrúi Greenpeace á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 2009 og segir hana hafa valdið miklum vonbrigðum. Parísarráðstefnan 2015 hafi alls ekki staðið undir væntingum en þar hafi þó verið lagðar ákveðnar línur sem hægt hafi verið að vinna út frá. „En betur má ef duga skal. Aðgerðir þola enga bið.“

Lamandi áhrif

Það eru víðar nýjar ríkisstjórnir en á Íslandi, til dæmis í Bandaríkjunum, og fyrir liggur að loftslagsmál eru ekki í forgangi hjá hinum nýja forseta, Donald Trump. Hvernig ætli þeir félagar meti þá stöðu?

„Mín viðbrögð eru einföld. Þessi nýja ríkisstjórn í Bandaríkjunum hefur haft lamandi áhrif á mig,“ segir Ólafur. „Þetta er allt með svo miklum ólíkindum að mér líður eins og að ég hafi verið skotinn með rafbyssu. Maður er satt best að segja að ganga í gegnum ákveðið sorgarferli. Hvernig gat þessi þjóð frelsis og framfara snúist svona gegn okkur? Ég er eiginlega bara firrtur og finnst ég ekki lengur velkominn í Bandaríkjunum. Hvernig gátu Bandaríkin sem ég þekkti horfið með þessum hætti? Og hvar er stjórnarandstaðan? Það er eins og hann [Trump] sé einn við völd. Algjört ráðaleysi hefur gripið um sig.“

Ólafur segir öfgarnar í framkomu forsetans hljóta að kalla á mótvægi, þótt enn bóli ekki á því. „Þessi hatursorðræða er sláandi og það er eins og að menn viti ekki alveg hvernig þeir eigi að bregðast við henni. Við sem höfum látið okkur mannréttindi í heiminum varða, jafnrétti kynjanna og annað slíkt, eigum erfitt með að ná utan um þá staðreynd að allt hafi nú breyst. Og það eru ekki bara Bandaríkin; við sjáum þessa þróun í Þýskalandi og víðar. Auðvitað getur tilhneigingin verið að bregðast við hatri með hatri en mín ráð eru þau að láta þetta ekki draga okkur niður á sama plan. Sjálfur hef ég tröllatrú á ofbeldislausri orðræðu þegar kemur að því að verja lýðræðið og vona að við berum gæfu til að feta þá braut áfram. Í Bandaríkjunum er umburðarlyndi fyrir bí og skilaboðin eru skýr: Ef þú ert ekki á sömu blaðsíðu og ég þá ertu ekki velkomin/n! Hvorki í mín hús né til landsins yfir höfuð. Eins og þetta blasir við mér þá eru Bandaríkin að bregðast sem lýðræðisríki.“

Naidoo tekur undir þetta. „Hefði einhver dregið upp þessa mynd af Bandaríkjunum fyrir 15 árum hefðum við aldrei tekið mark á því. Mikilvægt er samt að hafa í huga að eins mikilvæg og Bandaríkin eru þá búa þar ekki nema rétt ríflega 4% mannkyns. Gleymum því heldur ekki að yfir 80% Bandaríkjamanna trúa því að loftslagsbreytingar séu raunverulegar og vilja að gripið sé til aðgerða. Þess utan hefur Trump ekki meirihluta þjóðarinnar á bak við sig en þriðjungur Bandaríkjamanna kýs ekki, að hluta til vegna þess að menn hafa misst trú á stóru flokkunum. Margir sem kjósa velja líka skásta kostinn en ekki þann besta.“

Naidoo segir Sáttmálann alls ekki hafa gefið Bandaríkin upp á bátinn, þvert á móti hafi aldrei verið mikilvægara að hamra járnið en einmitt nú. „Og vitið til. Vera má að Trump sendi ekki nokkurn mann á loftslagsráðstefnuna í Brasilíu í haust en þar verða samt fjölmargir fulltrúar frá hinum ýmsu ríkjum og borgum Bandaríkjanna. Það er mikil samstaða víða í Bandaríkjunum þegar kemur að fyrirhuguðum orkuskiptum, enda skilja flestir að annað er ekki í boði. Þannig hefur vindorku jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg í Texas, sem er rautt ríki, það er repúblikanaríki, og augljóst að ekki verður aftur snúið.“

Þess utan segir Naidoo vel mega taka loftslagsbreytingar út fyrir sviga. „Gefum okkur, eins og sumir halda fram, að olía, kol og gas beri enga ábyrgð á loftslagsbreytingum. Ætti mannkynið samt til lengri tíma eingöngu að fjárfesta í þessum þremur orkugjöfum sem munu fyrr en síðar ganga sér til húðar? Það gengur einfaldlega ekki upp. Við hljótum þegar allt kemur til alls að setja hagsmuni komandi kynslóða á oddinn, barnanna okkar og barnabarnanna. Óháð loftslagsbreytingum.“

Máttur listarinnar

Ólafur segir baráttuna standa upp á okkur, hvert og eitt, en báðir hafa þeir lengi litið á það sem þegnskyldu sína að láta sig loftslagsmál varða. „Við getum ekki bara beðið og vonað að aðrir taki af skarið. Þess vegna er brýnt að halda baráttunni áfram þangað til Trump kveður Hvíta húsið, geri hann það þá. Hver veit nema hann komi til með að breyta stjórnarskránni og krýna sjálfan sig kóng. Það er mýta að litli maðurinn hafi engin áhrif. Þegar við sameinum krafta okkar eru okkur margir vegir færir. Sáttmálinn er gott dæmi um það,“ segir Ólafur.

Það var einmitt þessi hugsun sem sameinaði þá félaga árið 2018 en þeir kynntust gegnum sameiginlega vini, svo sem Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands. „Það er sárt að missa, það skilja allir sem reynt hafa. Það á við um fólk en líka um fleira, eins og jökla og annað sem á undir högg að sækja vegna loftslagsbreytinga í heiminum. Það er sárt að horfa upp á hluti hverfa, hluti sem hafa verið hluti af tilveru okkar. Mér stendur alla vega ekki á sama og Ólafi stendur heldur ekki á sama. Þess vegna snúum við bökum saman.“

– Hefur listin hlutverki að gegna í þessu sambandi?

„Klárlega,“ svarar Naidoo. „Samtalið er svo mikilvægt, við vísindamenn, listamenn og almenning yfir höfuð. Það hjálpar okkur að skilja hluti betur og setja þá í samhengi. Listamenn geta haft svo mikil áhrif og náð til svo margra. Þannig er engin ræða sem ég flyt þess umkomin að ná til eins margra og hreyfa við eins mörgum og listaverk eða lag sem kemur við kvikuna. Máttur listarinnar er mikill og hjálpar okkur aktífistunum að koma boðskap okkar á framfæri við sem flesta. Ekki veitir víst af þegar berjast þarf við lygarnar og upplýsingavilluna sem kemur frá mönnum sem stjórna Facebook, X og öðrum samfélagsmiðlum.“

Ólafur segir Íslendinga vera með listir og menningu í genunum, skáld og tónlistarmenn séu á hverju strái. Þess vegna sé þjóðin svo opin og tilbúin að eiga í samtali um alla mögulega hluti.

– Eruð þið svartsýnni eða bjartsýnni en þið voruð fyrir tíu árum þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum?

„Staðan er sú að við höfum einfaldlega ekki efni á því að leyfa okkur neikvæðni,“ svarar Naidoo. „Við megum enga tíma missa, aðgerðir þola enga bið. Að því sögðu þá hefði ég ekki trúað því fyrir tíu árum að við værum ekki lengra komin í dag en raun ber vitni. Tækifærin eru vissulega enn fyrir hendi en glugginn er að lokast – á miklum hraða. Þess vegna þurfum við á samstilltu átaki að halda. Hver og einn þarf að gera upp við sig hvort hann eða hún er partur af vandanum eða lausninni.“

Ólafur finnur fyrir ákveðnu bjargarleysi, sem hann viðurkennir að sé ekki sérlega íslenskt. „En á móti kemur að ég er ekki hinn dæmigerði Íslendingur,“ segir hann brosandi. „Og hvað gerir maður þegar maður finnur til bjargarleysis? Maður leitar hjálpar hjá leiðtogum, eins og Kumi.“

– Horfirðu eins á ríkisstjórn Íslands?

„Ég man vel eftir Vigdísi [Finnbogadóttur] þegar ég var yngri og þeim jákvæðu áhrifum sem hún hafði á þjóðina. Síðan hafa margar konur komist til valda, nú síðast þessar þrjár sem fara fyrir nýju ríkisstjórninni. Ísland er í grunninn framsækið land og ég er viss um að þessi stjórn eigi eftir að standa sig.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson