Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Talsverður áhugi er meðal fjárfesta um kaup á hótelbyggingum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem nú eru á söluskrá. Þetta er á Brjánsstöðum á Skeiðum, þar sem eru hús að stærstum hluta byggð nærri aldamótum. Gistiherbergin eru alls 50. Hótel Hekla var í rekstri fram í heimsfaldur árið 2020. Þá breyttust aðstæður, hótelinu var lokað og engin starfsemi hefur verið þar síðan, eða í bráðum fimm ár.
„Þetta er spennandi tækifæri fyrir þá sem vilja hasla sér völl í ferðaþjónustu. Þegar kaup á fasteignum eru gengin í gegn þarf að standsetja húsnæðið og koma starfseminni aftur af stað eftir hlé síðustu ár. Í því sambandi er vert að hafa í huga að Skeiðin eru fjölfarin af ferðafólki. Þá er mjög blómlegt atvinnulíf á þessum slóðum, til dæmis í landbúnaði og iðnaði, og því mikil þörf á húsnæði fyrir aðflutt vinnuafl,“ segir Sigurður Fannar Guðmundsson, fasteignasali hjá Eignalandi.
Hótelbyggingarnar eru alls 1.840 fermetrar að flatarmáli. Þar eru fjórar gerðir herbergja af ýmsum stærðum auk lúxussvítu. Einnig góð veitingaaðstaða sem og salarkynni sem henta ágætlega þegar halda skal fundi og ráðstefnur, en slíkum mannamótum er gjarnan valinn staður í jaðri höfuðborgarsvæðis. Sigurður Fannar nefnir einnig að til viðbótar við þær byggingar sem þegar eru á Brjánsstöðum séu fyrirliggjandi drög að teikningum að 125 herbergja lúxushóteli á staðnum. Óskað er tilboða í eignirnar.
„Teikningar að stækkun bygginga þarna sýna hvaða trú fólk hefur haft á svæðinu. Einnig felast miklir möguleikar í því að sveitahótelið stendur á 10 hektara eignarlóð og henni fylgir heitavatnshola, sem getur skilað drjúgu. Heitt vatn í dreifbýlinu er jafnan gulli líkast þegar kemur að uppbyggingu. Tækifærin eru því mörg og með góðum vilja mætti hefja þarna rekstur að nýju í sumarbyrjun,“ segir Sigurður.