Pistill
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Ég var settur harkalega á minn stað í þessari tilveru á dögunum – af þriggja ára gömlum sonarsyni mínum. Við hjónin vorum að passa kappann og bróður hans, sem er tíu ára, og ég fann allt í einu hjá mér knýjandi þörf fyrir að sýna þeim, svart á hvítu, hversu nýmóðins og svalur dúddi ég væri. Og hvað gerir maður þá? Nú, hleður að sjálfsögðu í ofursmellinn Skína með Prettyboitjokko, þar sem hann nýtur fulltingis landsliðshetjunnar Luigis. Þið þekkið þessa menn.
Við tökum þetta kannski bara öll saman? „Já, þessi gella hún er alltof sjúk í mig. Ég er prettyboi svo ekki tala við mig,“ og svo framvegis.
Alla vega. Ég var varla búinn að sleppa fyrstu hendingunni í laginu þarna í stofunni að snáðinn, sá sem er þriggja ára, lagði í ofboði frá sér fígúrurnar sem hann var að leika sér með og starði á mig gáttaður á svip. Langt er síðan horft hefur verið svona á mig, það er eins og að ég sé alveg úti á túni. Vont var að lesa úr augum snáðans hvor systirin hafði yfirhöndina, undrun eða vorkunn. Svo mælti hann, af afgerandi þunga: „Þú átt ekki að syngja þetta lag! Þú ert afi!“
Fleiri urðu þau orð ekki, enda óþarfi. Hann greip bara aftur í fígúrurnar og hélt áfram að leika sér.
Það er nefnilega það. Bara beint rautt spjald á gamla. Eldrautt. Gula spjaldið var greinilega aldrei valkostur.
Að baki þeim stutta leit eldri bróðir hans, sem er mikill Pretty-maður, upp úr spjaldtölvunni. Glottandi. Hann sagði ekki neitt en ég heyrði hann alveg hugsa: „Afi, þú ert í ruglinu!“
Ég varð eiginlega alveg bims, eins og vinur minn hér á blaðinu myndi orða það. Eru kannski tvö emm í bimms? Staulaðist á fætur og gaf mig að litlu frænku þeirra bræðra, sem einnig var á svæðinu. Hún færi nú varla að aldurssmána mig svona hressilega. Alla vega ekki strax. Hún er ekki orðin eins árs og þar af leiðandi ekki farin að segja neitt af viti.
En þegar roðinn var farinn úr kinnunum, að mestu, fór ég að hugsa. Hvernig getur þriggja ára barn borið svona sterkt skynbragð á þessa hluti? Ætti því ekki að vera slétt sama hvað afi gamli er að raula? Segið þið mér! Ætli Árni Matt og Arnar Eggert hafi strax verið með 'etta á hreinu þriggja ára?
Þetta er nefnilega alveg hárrétt hjá snáðanum, algjör negla, skeytin inn. Miðaldra, klunnalegir karlar eiga ekki að vera að reyna sig við nýtískulega poppsmelli eins og Skína. Þeir eiga vitaskuld bara að halda sig við gamla málmsöngva, Master of Puppets, nú eða þá Raining Blood.