Margt umhugsunarvert er að finna í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins um íslenska vinnumarkaðinn. Þar má til dæmis sjá að hér á landi starfar mjög hátt hlutfall fólks hjá hinu opinbera, eða 25%. Hlutfallið hjá OECD er að meðaltali 18% og aðeins hinar Norðurlandaþjóðirnar eru með svipað eða hærra hlutfall en við.
Þetta skiptir máli því að verðmætin til að standa undir velferð og velmegun verða fyrst og fremst til í atvinnulífinu. Og ekki verður verðmætasköpunin auðveldari við að hið opinbera semur ítrekað á öðrum og kostnaðarsamari nótum við starfsmenn sína en fyrirtæki á almennum markaði geta leyft sér.
Þannig eru í skýrslunni borin saman ýmis réttindi á almenna og opinbera markaðnum og eru þau jafnan á þann veg að opinberir starfsmenn njóta rýmri réttinda en hinir og munar oft miklu. Og fyrir þessi réttindi þurfa þeir að auki að leggja fram færri klukkustundir á viku en starfsmenn á almenna markaðnum.
Brýnt er að á þessu verði tekið og svigrúm almenna markaðarins aukið en dregið saman hjá hinu opinbera. Þetta má ekki tefjast, meðal annars vegna þess að fjöldi þeirra sem eru á vinnumarkaði á móti þeim sem standa utan hans vegna aldurs fer minnkandi. Það mun gerast hratt eftir 2050 og árið 2070 verða aðeins 2,1 á vinnumarkaði á móti hverjum sem hættur er að vinna, en hlutfallið er 4,0 um þessar mundir.