Sigurdór Stoltur og vel merktur sínum kór, hann segir mikla ánægja fylgja því að syngja saman og ferðast saman.
Sigurdór Stoltur og vel merktur sínum kór, hann segir mikla ánægja fylgja því að syngja saman og ferðast saman. — Ljósmynd/Guðmundur Karl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er einn eftir í kórnum af okkur stofnfélögunum,“ segir Sigurdór Karlsson, meðlimur í Karlakór Selfoss en í dag fagnar kórinn 60 ára afmæli með hátíðartónleikum og veislu. „Kórinn á upphaf sitt í því að veturinn 1964 til 1965 komu…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er einn eftir í kórnum af okkur stofnfélögunum,“ segir Sigurdór Karlsson, meðlimur í Karlakór Selfoss en í dag fagnar kórinn 60 ára afmæli með hátíðartónleikum og veislu.

„Kórinn á upphaf sitt í því að veturinn 1964 til 1965 komu nokkrir karlar saman sem voru að vinna hjá Mjólkurbúi Flóamanna og æfðu söng sér til gamans. Þeir komu fram á þorrablóti Mjólkurbúsins við góðan orðstír og í framhaldinu var auglýst að til stæði að stofna Karlakór Selfoss. Menn gátu skráð sig í bókabúðinni í Kaupfélagi Árnesinga og kórinn var formlega stofnaður 2. mars 1965. Ég var tuttugu og þriggja ára strákur þegar ég gekk í kórinn sem samanstóð af tuttugu og fimm körlum. Núna erum við söngfélagarnir orðnir sjötíu,“ segir Sigurdór sem syngur annan tenór. „Ég er enginn alvöru tenór,“ segir hann og hlær og bætir við að hann hafi allta tíð haft áhuga á söng.

„Pabbi minn, Karl Eiríksson, var í kirkjukórnum hér á Selfossi alla sína ævi og hann sá um Selfossbíó í aukavinnu, þangað sem ég fékk gjarnan að fara með honum. Þegar ég var lítill peyi þá kom eitt sinn karlakór til að syngja í Selfossbíói, ég held það hafi verið Karlakórinn á Akureyri, og ég var að sniglast þarna með pabba og mér fannst söngur þeirra svo flottur að ég tók það alveg inn á mig. Ég var dolfallinn og hugsaði með mér: „Svona ætla ég að gera einhvern tíma, syngja í karlakór,“ og það hef ég núna gert í sextíu ár. Ætli ég hafi ekki fengið kórabakteríuna þarna í bíóinu, ég held það svei mér þá,“ segir Sigurdór sem söng í hljómsveitinni Carol á sínum yngri árum.

„Í hljómsveitinni voru meðal annars Gissur Geirs, Dísa Geirs og systir hennar Úlla. Við spiluðum á dansleikjum og vorum í samkeppni við Hljómsveit Óskars Guðmundssonar, við spiluðum út um allar trissur, á Hvoli, Flúðum, Hellu og mörgum öðrum stöðu. Þetta var skemmtilegur tími.“

Keyrir austur til okkar

Fyrsti stjórnandi Karlakórs Selfoss var Guðmundur Gilsson orgelleikari við Selfosskirkju, en hann varð tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins þegar hann flutti frá Selfossi.

„Ég hef sungið undir stjón margra kórstjóra, til dæmis stjórnaði Jónas Ingimundarson okkur í tvö ár, Pálmar Þ. Eyjólfsson um tíma og Einar Sigurðsson, en árum saman stjórnaði Ásgeir Sigurðsson okkur, tónlistarkennari og rakari, yfirleitt kallaður Geiri rakari. Loftur Erlingsson stjórnaði okkur líka lengi, en nú stjórnar kórnum Skarphéðinn Þór Hjartarson, kallaður Skarpi. Hann er orgelleikari í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og tónlistarkennari, en hann lætur sig ekki muna um að keyra hingað austur til okkar á Selfoss til að stýra öllum okkar kóræfingum. Jón Bjarnason organisti í Skálholti hefur spilað undir hjá okkur undanfarinn áratug, hann er nú betri en enginn og sá um að spila undir hjá okkur í Skálholtsdómkirkju þegar við tókum nú í febrúar upp fimmtu hljómplötu kórsins sem kemur inn á helstu streymisveitur. Þar kveður við hátíðlegan tón en þemað er jarðarfarar- og kirkjutónlist.“

Sungu í Salzburg í fyrra

Að vera meðlimur í karlakór snýst ekki aðeins um að syngja, enda segir Sigurdór að kórinn og starfið í honum hafi verið stór hluti af lífi hans í þau sextíu ár sem hann hefur sungið með kórnum, allt frá byrjun.

„Hjá mér hefur allt fengið að sitja á hakanum fyrir kórinn, hann hefur nánast gengið fyrir öllu í mínu lífi. Ég hef alla tíð haft svo mikinn áhuga á þessu og kórastarfið snýst líka um dýrmætan félagsskap og vináttu. Mikil ánægja fylgir því að syngja saman, ég hef farið í mörg ferðalög með kórnum, í fyrra fórum við til Austurríkis og sungum í Salzburg og við höfum líka farið til Ítalíu, Wales og nokkurra annarra landa. Auðvitað myndast góður vinskapur á löngum tíma, margir eru búnir að vera í kórnum í um fimmtíu ár og sumir eru aðeins farnir að verða rámir, eins og gengur með gamla karla,“ segir Sigurdór og hlær. Hann hlakkar til að hitta góðu gestina á afmælistónleikunum, félagana í Karlakór Reykjavíkur sem ætla að syngja bæði með kórnum og einir sér. „Einn þeirra söng lengi með okkur í Selfosskórnum, Kalli Jónasar frá Kjóastöðum, og síðan gekk einn þeirra sem áður var í Karlakór Reykjavíkur til liðs við okkur þegar hann flutti hingað á Selfoss.“

Konurnar styðja þétt við bak

Sigurdór segir aðstæður kórsins hafa gjörbreyst þegar kórinn eignaðist sitt eigið húsnæði.

„Við erum með alla okkar starfsemi þar, kóræfingar og annað. Þar er hundrað manna samkomusalur og konurnar okkar í kvennaklúbbi karlakórsins sem styðja þétt við bakið á okkur, þær eiga allt innvolsið þar til veisluhalda. Þarna höldum við til dæmis okkar herrakvöld, eða það sem sumir kalla kjammakvöld, en þar eru bornir á borð sviðakjammar. Við komum saman þarna af ýmsum öðrum tilefnum, það er alltaf eitthvað um að vera og virkilega gefandi og skemmtilegt að vera hluti af kór,“ segir Sigurdór og bætir við að hluti af afmælisdeginum sé hátíðarkvöldverður fyrir kórfélaga, konur þeirra og gesti.

Afmælistónleikar Karlakórs Selfoss verða í dag, laugardag, kl. 16 í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi. Sérstakir gestir eru Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Á dagskrá eru helstu perlur karlakóra.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir