Skotbómur í Hafnarfirði.
Skotbómur í Hafnarfirði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
En eitt verður þó ekki af Trump tekið, að fáir eða engir forsetar hafa lagt meira á sig en hann til að standa út í æsar við loforð sín við kjósendur, enda þykir það víðast ekki tiltökumál, þó að stærstu kosningamálin frá síðustu kosningum eða kosningum þar á undan séu eftir kjördag sett upp í efstu hillu í geymslunni eða bílskúrnum og aldrei hugsað um þau meir.

Það er margt áhugavert að gerast í honum heimi um þessar mundir. Nýkjörinn forseti Bandaríkjanna sagði, áður en hann hafði fengið kjör, að Bandaríkin og heimurinn í kring myndu breytast stórlega til batnaðar, þegar hann hefði lagt Kamölu Harris að velli og ýtt Joe sofandi Biden til hliðar. Forsetinn lætur margt áhugavert flakka, stórt og smátt, og það er ekki endilega öruggt að hann hafi hugsað það allt í þaula. Forsetinn virðist gera sér engar eða litlar grillur yfir því að tilteknir fjölmiðlamenn vestra, og jafnvel víðar, ekki síst minnimáttarmenn í Evrópu, gagnvart Bandaríkjunum, sem hafa lengi hatað hann, ráðist á hann af heift, hvenær sem nafn hans er nefnt. En núverandi forseti Bandaríkjanna getur þó að nokkru horft í eigin barm, því að hann fer stundum glannalega fram og gerist æði stóryrtur, þótt engin efni eða ástæður standi til þess. En eitt verður þó ekki af Trump tekið, að fáir eða engir forsetar hafa lagt meira á sig en hann til að standa út í æsar við loforð sín við kjósendur, enda þykir það víðast ekki tiltökumál, þó að stærstu kosningamálin frá síðustu kosningum eða kosningum þar á undan séu eftir kjördag sett upp í efstu hillu í geymslunni eða bílskúrnum og aldrei hugsað um þau meir.

Og vissulega eru loforðin þau stundum höfð reglulega yfir í kosningabaráttunni, eins og komi þau úr lúinni kosningasálmabók, svo að öruggast sé að stuðningsmenn og þeir flokksbundnu í fjörutíu ár eða lengur geti í kór hrópað „hallelúja“ og styrkt með því samstöðuna á síðustu metrum kosningabaráttunnar, enda getur það ekkert skaðað, en er þvert á móti pólitískt hjálpartæki, og er þó raunar að verulegu leyti og að mestu merkingarlaust, en þó um leið algjörlega ómissandi og skaðlaust.

Kosningabaráttan

Þeir sem horfðu á aðdraganda kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum og vikurnar fyrir kjördag, sáu margt og þótti sumt með nokkrum ólíkindum, en það breytti ekki því, að meginflokkarnir tveir þar vestra töldu báðir hafið yfir vafa að stefna og áróður andstæðinganna í „hinum flokknum“ væru ekki einungis varasöm, heldur eins og allir mættu sjá, væri sá flokkur beinlínis hættulegur og erfitt að sjá hvernig Bandaríkin lifðu það af „ef hinn flokkurinn hefði það“ (og þá auðvitað „með svindli“!). Bandaríkin yrðu áratugum saman að jafna sig eftir slíkt ólán.

En erum við hér nokkuð betri en framangreind lýsing dregur mynd af? Hver er sagan af stjórnmálamanninum Donald Trump, sem nú er langfyrirferðarmestur í Bandaríkjunum, eftir óvæntan og vænan sigur á þeim Joe Biden forseta og Kamölu Harris varaforseta? Um það þarf ekki fyrirlestur, því að Trump hefur ekki verið stjórnmálamaður um langa tíð og ekki repúblikani um mjög langa hríð. Hann hefur reyndar ekki verið stjórnmálamaður lengi. Hann var á meðal viðskiptajöfra, þótt hann hafi alllengi verið eftirbátur þeirra flestra í auðsöfnun, eftir að sú vegferð hans hófst fyrir alvöru, og í milliköflum í lífinu var hann einnig með eins konar skemmtiþátt, og gerði það bærilega.

Trump og samstarfsmaður hans núna, Elon Musk, sem upp á síðkastið hefur fengið sem eins konar auka nafn „ríkasti maður Bandaríkjanna“, og þar með sé gefið að hann sé ríkasti maður í heimi, en ekki er vitað hvað krónprinsinn í Sádi-Arabíu segði um þær fullyrðingar, voru dáðir að vonum af repúblikönum. En þar hafa þeir hvorugur verið lengi. Musk studdi og kaus Joe Biden þegar Biden vann Trump naumlega 1990 („og með svindli“, að sögn D.T.). Trump hafði þá fyrir allnokkru verið demókrati, og sást á mörgum fundum þess flokks og var grunaður um að þar myndi hann axla sér nýja braut, en hann var orðinn repúblikani fyrir nokkru þegar hann vann baráttuna um forsetaembættið 2016. Þá vann hann frú Hillary Clinton („með svindli“, að hennar sögn), en naumlega þó, ekki síst ef borið er saman við hinn glæsilega sigur hans í upphafi nóvember sl., og enn hefur því ekki verið haldið mjög fram, að hann hafi unnið „með svindli“, þótt Trump hafi auðvitað slegið því rækilega og reglulega fram, um hina „vafasömu sigra“ Joes Bidens, fjórum árum fyrr í nóvember.

Afgerandi sigur Trumps sló demókrata út af laginu, því að þeir höfðu misnotað dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna rækilega í aðdraganda kosninganna og dregið Trump fyrir vilhalla dómara demókrata, þannig að frambjóðandinn neyddist til þess vikum og mánuðum saman að sitja undir fráleitum réttarhöldum. En þrátt fyrir svo ósvífin brögð, og misnotkun öflugs ráðuneytis, sem hvort tveggja var algjörlega ósamræmanlegt, því að þar voru kosningar helsta lýðræðisríkis heims undir, en ekki ómerkilegra einræðisstjórna í Suður-Ameríku eða sams konar stjórnkerfa einhvers staðar í Afríku, hafði Trump sigur. Og sigur Trumps í nóvember 2024 var mjög afgerandi, því að hann vann flest það sem unnið varð. Hann vann á landsvísu, hann vann öldungadeildina og fulltrúadeildina og kom því tíu vikum síðar sem stoltur sigurvegari í Hvíta húsið á nýjan leik. Aðeins einu sinni áður, og þá fyrir rúmri öld, hefur forseti sem tapaði Hvíta húsinu, eftir sín fjögur ár, endurheimt það fjórum árum síðar á ný, eins og Trump gerði nú. Tímaritið Time telur, og barnabarn forsetans einnig, að sögu Clevelands, afa hans, ætti Trump að draga lærdóm af. Því að síðustu fjögur ár Clevelands, þau sem hann vann á ný eftir að hafa tapað og beðið utan garðs í fjögur ár og nú fengið sigur á ný, reyndust ekki verða ein samfelld sigurhátíð. Honum gekk flest fremur illa og jafnvel svo, að leiðtoginn virtist hafa nær gengið af Demókrataflokknum sínum „dauðum“ eftir þessi fjögur ár, og að það hefur tekið Demókrataflokkinn áraraðir og mikinn barning að ná sér á strik á ný, eftir að hafa búið við mikil töp, fjölmörg kjörtímabil í röð.

Fordæmið

Þess vegna telja Time-tímaritið og barnabarn Clevelands forseta óhætt að vara Donald Trump við því að þessi saga sýni glöggt, að núverandi forseti hafi fulla ástæðu til að hafa vara á sér. Trump er hvarvetna fagnað eftir að hann vann hinn mikla sigur og sjálfsagt er eðlilegt um stund að hann fari mikinn í sigurhátíð sinni og Repúblikanaflokksins. Einhverjir gætu sagt, vegna fyrrnefndra fullyrðinga Time og barnabarns Clevelands (sem raunar sá afa sinn aldrei), að Tump ætti að fara gætilega. Og það er vissulega rétt, að Trump og flokksfólk hans fara mikinn í sigurvímu sinni. Allir helstu leiðtogar ESB banka á hans dyr og keppast jafnvel um að verða fyrstir á fund hins endurnýjaða forseta, en þeir sem hafa sæmilegt sögulegt minni hafa ekki gleymt því að þessir „leiðtogar“ þóttust vera heimtir úr helju, þegar Joe Biden og Kamala Harris urðu sigurvegarar í janúar 2021, sem Trump batt enda á í janúar 2025.

Varðandi fyrrnefndar aðvaranir, sem geta sjálfsagt verið gagnlegar, þá er ekki víst að svo sannfærður maður sem Trump forseti er kaupi það með hraði að aðrir hafi getu, umfram hann sjálfan, til að leggja stóru línurnar eða eftir atvikum smáu línurnar. Og reyndar má geta þess að það sem nefnt er hér að hafi farið hvað verst með traust og vinsældir Clevelands forseta, samkvæmt Time, er að hann hafi velt því fyrir sér lengi hvort hann ætti að lækka gjöld (tariffs) eða ekki og ákveðið loks að lækka þau verulega, og sá gjörningur hafi reynst honum mjög illa og leitt af sér hrun vinsælda hans. Trump er á hinn bóginn að hugsa um að hækka gjöldin (tariffs) verulega, hvað sem verður.

Óvæntar niðurstöður

Nýleg úrslit í Þýskalandi hafa vakið verulega athygli, ekki síst þegar menn hafa rýnt betur í þau. Í rauninni voru þetta ekki afgerandi úrslit. En innan úrslitanna er að koma fram óvæntur boðskapur, og hann kemur þaðan sem menn höfðu síst haldið. Og þau koma frá komandi kanslaraefni Þýskalands og leiðtoga Kristilegra demókrata, Friedrich Merz. Hann mun ekki hafa sterkan meirihluta á bak við sig, en þó þann sem verður sterkastur eins og staðan er. Þýskir kratar fóru mjög illa í þessum kosningum. Víst þykir þó að fulltrúar þeirra muni taka þátt í ríkisstjórn Þýskalands, en þó varla Olaf Scholz, formaður flokksins. En það sem vekur meiri athygli, er að nýi kanslarinn hefur verið talinn gamall vinur Bandaríkjanna, en nú virðast taktar og afstaða og viðhorf til mála, af hálfu Trumps forseta, hafa ýtt kanslaranum út af þeirri braut sem hann hefur hingað til fetað. Macron, forseti Frakklands, bað um viðtal við Trump forseta og fékk án tafar. Varð ekki betur séð en að vel hafi farið þeirra á milli, en eftir að heim var komið var engu líkara en að forseti Frakklands hefði náð kjarki til að móta afstöðuna til Bandaríkjanna með öðrum hætti en hann gerði vestra. Á nýlegri ráðstefnu í Þýskalandi hafði varaforseti Bandaríkjanna sett ofan í við bandamenn sína, þar sem þeir vildu ekki leyfa frjálsa umræðu í Evrópu, sem Bandaríkjamenn litu á sem þýðingarmikið grundvallaratriði, en ekki endilega hitt, um hvað hún snerist. Virtist varaforsetinn vísa til AfD-flokksins, sem hér á landi er iðulega sagður öfgaflokkur.

En leiðtogi Kristilegra í Þýskalandi tók athugasemdum varaforsetans illa, og eins því að forsetinn virtist draga taum Pútíns forseta og ýta til hliðar hver það var sem átti upptök stríðsins, sem Trump segði réttilega að tekið hefði allt of mörg líf æskumanna, án þess að gera ráð fyrir að Rússland myndi óhjákvæmilega vinna þetta stríð, sem tekið hefði slíkan toll. En það sem tók steininn úr, var þegar Trump sagði á fundi að viðstöddum Starmer, forsætisráðherra Bretlands, að Evrópusambandið hefði einungis verið stofnað til þess að skaða Bandaríkin. Enda hefðu Bandaríkin skaðast mjög, eins og ESB hefði reynt. Það er sannleiksbroddur í fullyrðingum forsetans, en þá hefði verið eðlilegt að láta væntanlegan gest og viðmælanda vita fyrir fram hvers mætti vænta. En hvað sem um það er að segja þá má öllum vera ljóst að fyrrnefnd framganga er ekki til þess fallin að treysta samstarf vestrænna þjóða. Leiðtogar á því svæði undrast þegar forysturíki umgengst samstarfsþjóðirnar með þessum hætti. Sama má segja um Nató. Allmargar þjóðir reiða sig á bandalagið og forystu Bandaríkjanna þar. En það er vissulega rétt hjá Trump, að fjölmenn ríki í Nató höfðu áratugum saman ekki greitt þau gjöld sem þau höfðu lofað.