Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Þótt Boris Spasskí, sem lést sl. miðvikudag, 88 ára að aldri, hafi beðið sinn mesta ósigur við skákborðið hér á landi í Laugardalshöll árið 1972, þegar hann tapaði heimsmeistaraeinvíginu fyrir Bobby Fischer, hélt hann góðum tengslum við Ísland og þá sem hann kynntist hér á þessum tíma.
„Spasskí var hlynntur Íslandi og vinur Íslands. Það eru margir sem segja að Fischer hafi sett Ísland á landakortið en ég held því fram að það hafi í raun verið Spasskí sem það gerði með því að krefjast þess að einvígið færi fram hér á landi. Fischer vildi tefla í Júgóslavíu, aðallega vegna þess að verðlaunaféð sem þar var í boði var hærra. En Rússarnir vildu síður tefla þar vegna þess að Fischer var í miklu uppáhaldi í Júgóslavíu,“ segir Guðmundur G. Þórarinsson fv. alþingismaður, en hann var forseti Skáksambands Íslands þegar heimsmeistaraeinvígið var haldið.
Guðmundur segir að Spasskí hafi verið einstakur sjentilmaður, viðræðugóður, kurteis og blátt áfram. „Hann var einnig einn af bestu skákmönnum veraldarinnar og tefldi frægar skákir við Tigran Petrosjan, skákmeistarann ósigrandi, þegar hann í jafnteflisstöðum tefldi einhvern djúpan leik sem enginn hafði séð fyrir,” segir Guðmundur.
Skjálfandi af taugaóstyrk
Hann segir að forsvarsmenn skákeinvígisins hafi haft áhyggjur af því að allt það umstang sem varð í einvíginu og deilur í kringum Fischer myndu hafa áhrif á Spasskí. „Og Friðrik Ólafsson hefur sagt að þegar skákirnar í einvíginu eru skoðaðar hafi Spasskí teflt sterkar í síðari hluta einvígisins; fyrri hlutinn hafi sett hann meira úr jafnvægi. Spasskí sagði síðar við mig: Ég tapaði einvíginu eftir þriðju skákina,“ segir Guðmundur. Þá skák vann Fischer eftir að hafa tapað fyrstu skákinni og síðan ekki mætt til leiks í annarri skákinni.
Spasskí sagði í viðtali, sem birtist við hann árið 2015, að eftir að Fischer mætti ekki til leiks í annarri skákinni hefði forseti sovésku íþróttaakademíunnar hringt í sig og krafist þess að hann setti Fischer úrslitakosti, að mæta til leiks án skilyrða eða tapa einvíginu ella. En Spasskí sagðist hafa viljað tefla, hvað sem það kostaði. „Eftir þetta samtal lá ég skjálfandi af taugaóstyrk uppi í rúmi í þrjár klukkustundir. Og ég bjargaði Fischer í raun þegar ég samþykkti að tefla þriðju skákina. Einvíginu var í raun lokið eftir þá skák. Í síðari hluta einvígisins hafði ég einfaldlega ekki nægilegan kraft,“ sagði Spasskí í viðtalinu.
Feginn að losna
Spasskí sagði oft í viðtölum að hann hefði í raun verið feginn þegar einvíginu lauk með sigri Fischers því hann hefði aldrei fundið sig sem heimsmeistari og titillinn hefði sett honum ýmsar óþægilegar skyldur á herðar. „Ég var gjörsamlega tómur innan í mér,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið árið 2002 þegar hann kom hingað til lands í tilefni af því að 30 ár voru liðin frá heimsmeistaraeinvíginu.
Hann bætti því við að auðvitað hefðu úrslitin haft sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar og lýsti því m.a. að seinna hefði hann orðið þunglyndur. „Eftir einvígið bönnuðu yfirvöld í Moskvu mér að taka þátt í alþjóðlegri keppni í níu mánuði,“ sagði hann. „Þessir níu mánuðir voru erfiður tími.“
Þrátt fyrir átökin í Reykjavík urðu þeir Spasskí og Fischer vinir og ræddust oft við í síma og skrifuðust á meðan Fischer lifði. Spasskí vitjaði meðal annars grafar Fischers í Laugardælakirkjugarði í mars árið 2008 þegar hann kom hingað til lands til að vera viðstaddur setningu alþjóðlegrar skákhátíðar í Reykjavík. Í tengslum við hana var haldið sérstakt minningarmót um Fischer þar sem Spasskí skýrði skákir en Fischer lést í janúar það ár. „Hann var virkilega góður vinur,“ sagði Spasskí þá við Morgunblaðið.
Fylgdist áfram með
Spasskí bjó lengi í Frakklandi með þriðju eiginkonu sinni og fékk franskan ríkisborgararétt en eftir að hafa fengið tvívegis heilablóðfall, 2006 og 2010, flutti hann til Moskvu. Hann náði sæmilegri heilsu á ný þótt hann notaði hjólastól eftir veikindin og var m.a. viðstaddur heimsmeistaraeinvígið í Sochi í Rússlandi árið 2014 þegar Magnus Carlsen varð heimsmeistari í fyrsta skipti. Þá var Spasskí einnig viðstaddur heimsmeistaramótið í hraðskák og atskák í Berlín árið 2015 og Helgi Ólafsson stórmeistari sagði frá því að íslenskir keppendur hefðu hitt hann þar.
Guðmundur G. Þórarinsson segist hafa farið til Moskvu fyrir nokkrum árum ásamt Gunnari Björnssyni, forseta Skáksambands Íslands, og þá ætluðu þeir að hitta Spasskí en var sagt að hann treysti sér ekki til að taka á móti þeim. » 37