Úr ólíkum áttum
Úr ólíkum áttum
Ögmundur Jónasson
ogmundur@ogmundur.is
Fljótlega eftir að Tsjernobyl-bænin eftir Svetlönu Aleksivitsj kom út í íslenskri þýðingu hjá Angústúru-útgáfunni árið 2021 hóf ég lestur bókarinnar, en lauk honum ekki fyrr en nú fjórum árum síðar. Þetta var ekki vegna þess að bókin væri ekki áhugaverð eða illa þýdd. Þvert á móti var hún bæði grípandi og afbragðsvel þýdd og til marks um það fékk þýðandinn, Gunnar Þorri Pétursson, mjög verðskuldað, íslensku þýðingarverðlaunin fyrir vel unnið verk.
Tsjernobyl-bænin er byggð á viðtölum við fjöldann allan af fólki víðsvegar að úr þjóðfélaginu. Viðfangsefnið er kjarnorkuslysið í Tsjernobyl árið 1986 og afleiðingar þess. Tsjernobyl er í Úkraínu nálægt landamærum Belarús og þar er sögusviðið.
En Tsjernobyl-bænin tók á og var öll orðin útkrössuð í undirstrikunum og upphrópunarmerkjum áður en yfir lauk. Mér fannst nefnilega ég geta lært af þessari bók. Hún segir svo margt um okkur öll, manneskjurnar, sumt slæmt en líka margt gott. Í fyrstu vildi heimsbyggðin öll vita allt um Tsjernobyl en aðeins örskamma stund – á meðan hún var að sannfærast um að sér stafaði engin umtalsverð hætta af þessu alvarlega slysi, sem leiddi til dauða og örkumlunar, sjúkdóma og skaðlegra erfðabreytinga sem enn eru að koma í ljós. En þetta var ekki talið snerta utanaðkomandi hagsmuni og þess vegna hvarf áhuginn fljótt.
En svo var það hið huglæga. Tsjernobyl gerði okkur öll að heimspekingum, sagði einn viðmælandinn í bókinni, það var ekki bara kjarnakljúfur sem sprakk heldur allt okkar gamla gildismat sagði annar, allt kom nú til endurskoðunar. Og þar er eflaust komin skýringin á undirtitli bókarinnar: Framtíðarannállinn.
Og í framhaldinu spyr ég: getur verið að við stöndum nú á tímamótum, að einhverju leyti sambærilegum; að öll þurfum við að taka heiminn til endurskoðunar – eða öllu heldur þá mynd sem við höfum af honum, heimsmynd okkar.
Þá gæti verið ágætt áður en við tökum til við að huga að eigin garði að skyggnast yfir í þann næsta. Ég hitti Rússa á dögunum. Hann sagði mér af konu sinni sem ásamt konum víðs vegar um Rússland kæmu saman flest kvöld í viku til að vefa ábreiður sem settar væru yfir skriðdreka svo að þeir greindust síður úr lofti. Mæðurnar, systurnar, eiginkonurnar vildu gera sitt til að vernda drengina sína sem hervaldið sendi í opinn dauðann. Eins er þessu farið handan víglínunnar. Viðbrögð mæðranna í Úkraínu fáum við aldrei að heyra fremur en hinna rússnesku. Aðeins tal þeirra sem úr fjarlægð hvetja til frekari átaka. Þetta er gömul saga og ný.
En heimsmyndin er að taka breytingum, öll að skýrast. Talað er nú opinskátt um það sem barist er um af hálfu þeirra sem raunverulega stýra atburðarásinni: Hverjum skuli hlotnast auðlindir Úkraínu að stríðinu loknu. Þetta er ekkert nýtt en hefur engu að síður verið flestum hulið þar til nú að Trump gerir allt sýnilegt. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu eflaust geta sagt okkur hvað hafi verið að gerast síðustu árin með auðlindir Úkraínu. Það þurfti ekki annað en tímabundið efnahagshrun á Íslandi til þess að hrægammar væru farnir að sveima yfir landinu. Þeir komu alls staðar að. Sama hefur gerst í Úkraínu nema þeir hafa verið fleiri og enn ágengari.
Þegar Evrópumenn voru búnir að drepa nokkra tugi milljóna manna og rústa álfunni í tvígang á fyrri hluta síðustu aldar var stofnað til Stál- og kolabandalags Evrópu, hugmyndin þá sú að með auknum viðskiptum og samskiptum ríkja yrði hægt að treysta friðinn.
Þegar járntjaldið féll var haldið áfram á þessari braut, viðskiptin efld milli austurs og vesturs, og nú töluðu sífellt fleiri máli friðar.
Svo sagði hergagnaiðnaðurinn stopp. Horfið skyldi af þessari friðarbraut. Hugveitur hans sögðu að nú ætti að koma í veg fyrir alla olíuverslun vestanverðrar Evrópu við Rússland og klippa síðan á öll samskipti, hvetja til hervæðingar, fjölga herstöðvum og efla viðbúnað í norðurhöfum; þröngva Rússum til að svara í sömu mynt – það myndi að lokum teygja þá og knýja til að ráðast í aðgerðir sem þeir réðu ekki við, „Extending Russia“ hét stefnumótunarplagg Pentagon árið 2019, löngu fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
Öll Vestur-Evrópa hlýddi. Og grætur nú í örvinglan, veit ekki í hvorn fótinn á að stíga þegar Washington setur í afturábakgír. Rússar eru nefnilega farnir að selja olíu til Kína, hins nýja höfuðóvinar, kannski rétt að vingast ögn á ný við Rússland ef hægt væri að slá tvær flugur í einu höggi, tryggja sér auðlindir Úkraínu og spilla jafnframt öllum vinskap austur til Kína.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín utanríkisráðherra eru enn ekki búnar að endurstilla áttavitann, hafa báðar verið í Kænugarði og lýst yfir stuðningi við áframhaldandi stríð. Það hafa þær gert með því að leggja fram viðbótarfé til vopnakaupa og segja Íslendinga standa þar einhuga að baki. Það er náttúrlega ósatt. Ég þekki í það minnsta einn sem er á öðru máli.
Ráðandi öfl í Evrópu virðast forðast friðinn. Það getur enginn leyft sér að gera. Hættan er hins vegar sú að við friðinn verði látið staðar numið og að við lærum ekki af því sem öllum ætti þó að vera orðið ljóst; að stöðva ber stríðin og kveða niður þau drottnunaröfl sem standa að baki þeim, hervaldið og auðvaldið.
Þetta er framtíðarannállinn.