Baksvið
Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Frosinn þvottur hangir úti á snúru við lítinn bæ í niðurníðslu. Svo langt sem augað eygir eru snævi þakin tún. Það er mánudagsmorgunn og íbúar í útjaðri Malyn í Úkraínu eru ekki komnir á stjá við dagrenningu. Og þó, þegar lestin fer í gegnum bæinn bíða nokkrir við lestarstöðina. Eflaust á leið til vinnu enda klukkan að verða sjö og ný vinnuvika að hefjast. Það er kalt, um tíu gráðu frost og fólkið er vel klætt. Reykur liðast upp úr strompum á þökum húsanna. Þegar við rennum í gegnum bæinn taka við þéttvaxnir skógar sem umkringja tún.
Þetta er það fyrsta sem ég sé af Úkraínu mánudagsmorguninn 24. febrúar árið 2025, þegar þrjú ár eru liðin frá allsherjarinnrás Rússa í landið. Samt er það fyrsta sem ég sé af Úkraínu nákvæmlega það sem ég hefði getað ímyndað mér að sjá áður en stríðið hófst.
Við ferðumst með næturlest til Kænugarðs. Við komum frá Przemyśl í Póllandi þar sem öryggisleit fór fram á myrku bílastæði á ellefta tímanum á sunnudagskvöldi. Leitarhundur og málmleitartæki. Tölvan sem þetta er skrifað á tekin upp úr töskunni og lögð á malbikið. Nesti í poka sem norska sendinefndin kom með handa okkur Íslendingunum, enda Norðmenn fremstir meðal jafningja þegar kemur að því að nesta sig duglega.
Loftvarnarflautur á áfangastað
Þegar við komum um borð í lestina tekur Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á móti okkur. Velkomin, segir hún brosandi, nýkomin frá Ósló með Norðmönnunum. Þegar við leggjum af stað með lestinni fáum við að vita að um áfangastaðinn ómi loftvarnarflautur. Það er drónaárás yfirvofandi í borginni. Þegar ég vakna eftir sex tíma svefn í lestinni kemst ég að því að ekkert hafi orðið af þeirri árás og síðar um daginn segir heimamaður mér að á hverju kvöldi undanfarna tvo mánuði hafi komið viðvörun á milli tíu og ellefu á kvöldin. Þá hafi Rússar líka gert drónaárásir á nóttunni með tilheyrandi viðvörunum. Það tekur um það bil tíu klukkustundir að ferðast frá Przemyśl til Kænugarðs með næturlest sem aðeins hefur stutta viðkomu á landamærum Póllands og Úkraínu. Þar koma úkraínskir hermenn inn í lestina og fá náðarsamlegast að kíkja á vegabréfin okkar. Það kemur nokkurt fát á blaðamenn þegar hermennirnir taka vegabréfin og fara með þau út úr vagninum. En þeim er skilað skömmu síðar með stimpli og þá getum við dregið andann léttar.
Við erum komin til Kænugarðs til að minnast þeirra sem látist hafa í stríðinu og til þess að standa með Úkraínu. Evrópa stendur með Úkraínu og leitar lausna til að binda enda á stríðið. Það er markmiðið með deginum.
Í Kænugarði er sjö gráðu frost, heiðskírt og logn. Ummerki um átök eða stríð er hvergi að sjá um borgina en hún ber þó óneitanlega þess merki að þar býr mun færra fólk en á friðartímum. Þegar íslenska bílalestin heldur inn til borgarinnar frá lestarstöðinni blasir við falleg borg. Herinn og lögreglan stöðva alla umferð fyrir bílalestirnar svo að upplifunin er ólík því sem ætla mætti undir venjulegum kringumstæðum, enda margir háttsettir gestir komnir í heimsókn.
Helstu þjóðarleiðtogar Evrópu eru hingað komnir, sem og framámenn í Evrópusambandinu. Fundur leiðtoganna fer fram á íburðarmiklu hóteli í miðborg Kænugarðs, Intercontinental. Fyrsti liður dagskrárinnar fer ekki fram á hótelinu heldur við stórt torg í borginni þar sem minnisvarða um hermenn sem látist hafa í stríðinu við Rússa hefur verið komið fyrir.
Fjölskyldumynd við hvert tækifæri
Þegar leiðtogar þjóðanna hafa raðað sér upp kemur forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí, ásamt eiginkonu sinni Olenu. Þarna fáum við að sjá með eigin augum hversu tilkomumikil innkoma Selenskís er. Hann kemur í fylgd hermanna og gengur ákveðið að hópnum. Þau raða sér upp og ganga að minnisvarðanum með kertalugtir. Minnisvarðinn samanstendur af fánum, einn fáni fyrir hvern fallinn hermann. Að því loknu stilla leiðtogarnir sér upp á torginu og fjölmiðlum gefst tækifæri á að taka svokallaða fjölskyldumynd. Skilaboðin eru aftur mjög skýr, Evrópa stendur með Úkraínu. Að því loknu renna svartir bílar upp að torginu. Selenskí fer inn í jeppa. Eiginkona hans inn í fólksbíl sem ekið er á eftir jeppanum.
Við tekur röð bíla, fimm til sex bílar fyrir hvern leiðtoga og sendinefndir þeirra. Eins og fyrr um morguninn og í lestinni koma okkar bílar á eftir bílum Noregs.
Á hótelinu tekur svo Selenskí á móti hverjum leiðtoga fyrir sig og heilsar með handabandi. Beint í kjölfarið er fundurinn þar sem hver leiðtogi heldur nokkurra mínútna ræðu. Þá er ræðum frá þeim sem ekki áttu heimangengt streymt og í heildina eru ræðurnar vel á fimmta tug.
Blaðamenn fylgjast með ræðunum úr fjölmiðlaherbergi og af herbergjum á hótelinu. Flestir leiðtoganna kynna áform um að styðja enn meira við Úkraínu og það gerir Kristrún Frostadóttir líka eins og fjallað er um hér í blaðinu síðasta þriðjudag.
Móðir Úkraínu vakir yfir borginni
Dagurinn fer fyrst og fremst í fundi Selenskís með fjölda ráðamanna annarra ríkja þar sem margvísleg samvinna er rædd fram og til baka. Deginum lýkur svo á heimsókn í stríðsminjasafn þar sem á friðartímum er sýnd saga Úkraínumanna í seinni heimsstyrjöldinni. Við safnið er styttan Móðir Úkraínu sem að kvöldi 24. febrúar 2025 er lýst upp í fánalitum Úkraínu. Á safninu fá leiðtogarnir að sjá alla þá framþróun sem Úkraínumenn hafa unnið að í stríðinu. Blaða- og tökumönnum er hins vegar vinsamlegast vísað niður í kjallara safnsins af öryggisgæslu og boðið upp á vatn og sætabrauð.
Eftir að Selenskí og hermenn hans hafa kynnt leiðtogunum nýjustu og bestu vopn úkraínska hersins er tekin enn ein fjölskyldumyndin fyrir utan safnið með Móður Úkraínu í bakgrunni.
Að því loknu er allur mannskapurinn ferjaður út á lestarstöðina. Á leiðinni þangað glymja loftvarnarflautur, klukkan er orðin tíu að kvöldi og Rússar senda dróna yfir landamærin í átt að höfuðborginni. Þegar við erum að stíga upp í lestina kemur tilkynning á símana, hættan er liðin hjá í bili.
Við tekur tíu klukkustunda lestarferð aftur yfir til Przemyśl fyrir örþreytta leiðtoga, diplómata og fjölmiðlamenn.