Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Við leggjum til sparnaðartillögu upp á 3,3 milljarða á fimm árum sem mun hjálpa okkur að taka á kostnaði vegna kennarasamninganna. Nýi meirihlutinn hefur sagst ekki vita hvernig þeir verði fjármagnaðir og þetta er okkar innlegg til þess að hægt verði að fjármagna þessa mikilvægu samninga,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og fyrrverandi forseti borgarstjórnar.
Í tillögu Viðreisnar, sem lögð verður fram í borgarstjórn næsta þriðjudag, er m.a. gert ráð fyrir að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur verði lögð niður og hætt verði við verkefnið Betri hverfi. Þórdís segir að þetta sé rétt tímasetning þar sem ný Mannréttindastofnun ríkisins verði opnuð í maí og ríkið taki þá yfir þau verkefni sem snúi að mannréttindamálum um allt land, meðal annars þjónustu við sveitarfélög.
„Með nýrri Mannréttindastofnun verður það algjör tvíverknaður að Reykjavíkurborg sé líka að setja fjármuni í slík verkefni sem verða á forræði ríkisins. Það myndi engum detta í hug að Reykjavíkurborg færi að reka heilsugæslu þó að við höfum heilmiklar skoðanir á heilsugæslumálum í Reykjavík.“
Hún segir að þetta muni ekki hafa nein áhrif á mannréttindamál í borginni og hún hefði aldrei lagt þessa tillögu fram ef hún hefði áhyggjur af því.
„Það verður hægt að leggja niður mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð og flytja það yfir í velferðarráð. Það eru nokkur verkefni hjá mannréttindaskrifstofunni sem eru lögbundin hjá sveitarfélögum og það er eðlilegt að þeim sé fundinn staður í Reykjavík.“
Áttu von á að þessi tillaga verði samþykkt?
„Ég vona að þau sýni skynsemi, kjark og þor og samþykki þessa tillögu.“
Sérðu fyrir þér fleiri stjórnsýslubreytingar til að draga úr kostnaði?
„Já, ég tel orðið tímabært að leggja niður verkefnið Betri hverfi og spara með því 250 milljónir. Undanfarin ár hafa íbúar borgarinnar átt kost á því að koma með hugmyndir fyrir hverfið sitt og fengið að kjósa um að setja þær í framkvæmd. Mörg skemmtileg verkefni hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum. Það eru komnir kaldir pottar í margar sundlaugar og innrauðir klefar sem íbúar kusu um, ásamt því að hoppubelgir eru komnir út um alla borg. Verkefnið átti sannarlega sinn blómatíma, sem nú er liðinn.“
Aðhald í rekstri og sala eigna
Nú ert þú búin að vera s jö ár í borgarstjórn og allan tímann í meirihluta. Þegar þú lítur til baka, hefðir þú viljað gera eitthvað öðruvísi?
„Ég er ótrúlega ánægð með langstærstan hluta af því sem við höfum gert. Ég er ánægð með stefnuna en það er fullt af verkefnum sem ég hefði viljað ganga ákveðið í og það eru sérstaklega verkefni sem snúa að fjármálum, aðhaldi, rekstri og sölu eigna.“
Hún nefnir rekstur á eignum borgarinnar, umsýsluna, umgjörðina og að gríðarleg sóknarfæri liggi þar.
„Borgin er 12 þúsund manna fyrirtæki sem veitir gríðarlega mikla grunnþjónustu. Þar eru mýmörg tækifæri til að gera betur og borgin er að gera ótrúlega vel í öllum þeim málaflokkum sem undir hana heyra.“
Þórdís segist skynja ánægju borgarbúa með þjónustuna sem borgin bjóði upp á en það sé biðin eftir þjónustunni sem sé erfið. En eftir að fólk fái þjónustuna þá sýni kannanir og rannsóknir að fólk sé mjög ánægt.
„Viðreisn vill leggja sín lóð á vogarskálarnar til að sýna ráðdeild í rekstri og því leggjum við fram þessar tillögur. Nú er að sjá hvort pólitískur kjarkur og þor fylgi ráðdeildaráformum samstarfsflokkanna. Það hlýtur því að vera skýlaus krafa að öllum steinum sé velt við en ekki litið fram hjá augljósum verkefnum sem eru sannarlega ekki partur af grunnþjónustu borgarinnar,“ segir Þórdís Lóa.
Í aðsendri grein í blaðinu í dag fer hún nánar yfir tillögur Viðreisnar. » 40