Hæfileikarík Söng- og leikkonan Elín Hall.
Hæfileikarík Söng- og leikkonan Elín Hall. — Ljósmynd/Ari Magg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ástríða mín er í einhvers konar sögusögn, ég elska að segja sögur sem hreyfa við fólki, hvort sem ég nýti tónlistina til þess eða leiklistina.“

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Söng- og leikkonan Elín Hall hefur verið áberandi í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum hin síðustu misseri og vakið verðskuldaða athygli sem tónlistarkona. Árið 2024 var Elínu gjöfult og lauk með eftirminnilegri túlkun hennar á Vigdísi Finnbogadóttur í sjónvarpsþáttunum Vigdís og þeirri vegsemd að vera valin í hóp rísandi stjarna á kvikmyndahátíðinni í Berlín, Shooting Stars, fyrir árið 2025.

Og áfram berast fréttir af velgengni Elínar því þann 20. febrúar síðastliðinn var greint frá því, á vef RÚV, að Rás 2 tæki þátt í Europe's Biggest Gig, útvarpsþætti sem er framleiddur af BBC Radio 1 í samstarfi við EBU, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, og að Elín myndi koma fram í honum. Þátturinn var sendur út 25. febrúar á fimm ríkisútvarpsstöðvum í Evrópu og var Rás 2 þeirra á meðal. Betri kynningu getur íslenskur tónlistarmaður varla fengið á evrópskum vettvangi en Elín lætur velgengnina ekki stíga sér til höfuðs frekar en fyrri daginn.

Mikill heiður

Fyrsta spurningin sem Elín fær, þar sem hún situr á kaffihúsi með blaðamanni, er blátt áfram: Hver er Elín Hall?

„Já, þegar stórt er spurt … ég veit það bara eiginlega ekki,“ svarar Elín en bætir svo við að hún sé tónlistar- og leikkona og viti ekki hvað hún væri að gera ef svo væri ekki. „Börn eru flest mjög skapandi en svo vöxum við úr grasi og förum að læra að hegða okkur eðlilega í samfélaginu. Ég held að ég hafi bara ekki vaxið úr grasi, ég er bara að gera nákvæmlega það sama og þegar ég var fimm ára, að halda tónleika inni í stofu fyrir fjölskylduna,“ segir Elín brosandi.

Þú varst valin í hóp rísandi stjarna, Shooting Stars, á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrir árið 2025. Hvernig er að bera þann titil?

„Þetta er náttúrlega mikill heiður. Ég held að ég sé fimmtándi Íslendingurinn sem fer í þetta prógramm, þetta var haldið núna í 28. skiptið sem þýðir að Íslendingar eiga oftar en ekki fulltrúa sem er frábært,“ segir Elín. Þegar litið sé yfir hóp rísandi stjarna fyrri ára sé hann einkar glæsilegur. „Þetta er allt fólk sem er að vinna í þessu í dag og allt leikarar sem maður lítur upp til. Brot af okkar besta fólki,“ segir hún en af fyrri íslenskum stjörnum í þessum hópi má nefna Álfrúnu Örnólfsdóttur, Ingvar E. Sigurðsson, Þorvald Davíð Kristjánsson og Kristínu Þóru Haraldsdóttur.

Elín segir að með henni úti í Berlín hafi verið fjöldi frábærra leikara með mikla reynslu, þrátt fyrir ungan aldur. „Ég var líka að reyna að læra af þeim, hvernig þau hugsa og skipuleggja sig og sitt líf, hvernig þau hugsa um að vera ung og upprennandi,“ segir hún.

Þakklát fyrir Vigdísi

Við snúum okkur að Vigdísi Finnbogadóttur. Hvernig þótti Elínu að leika hana?

„Ég var mjög meyr yfir þessu handriti því ég þekkti ekki mikið hennar baksögu,“ segir Elín. Það hafi verið mikill heiður að fá að leika Vigdísi. „Ég fylltist miklu þakklæti fyrir þessa konu sem braust í gegnum veggi sem gerir það að verkum að ég fæ að gera það sem ég geri í dag,“ segir Elín. Vigdís hafi rutt brautina og ekki aðeins fyrir konur heldur líka minnihlutahópa. „Hún varð fyrir miklu mótlæti líka og ég sá ömmu mína í henni, mig og vinkonur mínar. Fólk spyr oft hvort erfitt sé að setja sig inn í þennan tíma, að þurfa að velja á milli hjónabands og barneigna og einhvers ferils, og ég held að þótt það sé ekki eins strangt í dag og það var þá sé þetta enn til staðar, raunveruleikinn er að mörgu leyti alveg eins.“

Elín segist í hlutverki Vigdísar hafa verið að segja sögu kynslóðar og þá út frá sjálfri sér að einhverju leyti. Nína Dögg Filippusdóttir, sem leikur hina eldri Vigdísi í þáttunum, hafi verið bundnari en hún af því að líkjast fyrirmyndinni, þeirri Vigdísi sem fólk man eftir sem forseta.

„Þetta snerist ekki um að sýna nákvæmlega hvernig Vigdís Finnbogadóttir var heldur segja kynslóðasögu sem hefur þýðingu og er mikilvæg,“ segir Elín sem hefur líka leikið á sviði, ungan Bubba Morthens í sýningu Borgarleikhússins um kappann, Níu líf. Elín lék „unglings-Bubba“ eða „reiða Bubba“. Hún segir að Bubbi hafi m.a. kennt sér box og að reykja eins og hann reykti sem ungur maður. „Hann kenndi mér box með því að kýla mig í nefið,“ segir Elín og bætir við allt hafi þó verið í góðu milli þeirra Bubba og mikill vinskapur.

Örlagavaldurinn Baldvin

Elín tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins þegar hún var 16 ára og þannig kom leikstjórinn Baldvin Z auga á hana.

„Hann fékk mig í prufu fyrir sjónvarpsseríuna Réttur og í kjölfarið gerði hann Lof mér að falla. Það breytti stefnunni hjá mér og ég fór í Leiklistarskólann hér heima af því að mig langaði að læra leiklist, fannst mig skorta tæki og tól,“ segir Elín. Hún hafi lært heilmikið í þeim skóla sem hafi líka nýst henni vel í tónlistinni. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé listsköpun, hvers kyns sem hún kann að vera, vinna og þjálfun. „Þetta er fag af ástæðu, það getur ekki hver sem er verið leikari og það þarf ákveðna tækni,“ útskýrir Elín. Fólk geti verið mjög hæfileikaríkt en hæfileikarnir komi því bara að ákveðnu marki.

En í hvaða listgrein líður henni best? „Ég er mjög oft spurð að því hvort ég vilji meira; að vera tónlistarkona eða leikkona, en fyrir mér er þetta allt sami hluturinn. Ástríða mín er í einhvers konar sögusögn, ég elska að segja sögur sem hreyfa við fólki, hvort sem ég nýti tónlistina til þess eða leiklistina,“ svarar Elín. „Auðvitað eru þetta mismunandi farvegir að sömu niðurstöðu en þetta fer líka svo mikið eftir verkefnum, ég get ekki sagt að öll leiklistarverkefni séu betri en músík eða allt sem þú gerir sem tónlistarmaður sé betra en að vera leikari. Bæði fögin hafa kosti og galla, skemmtilega hluti og leiðinlega.“

Elín bendir á að aðeins lítið brot af vinnunni sjáist af afrakstrinum, hvort heldur það sé kvikmynd, tónleikar, sjónvarpsþættir eða annars konar listaverk.

Vinnan í öndvegi

Allt er í heiminum hverfult og segir Elín töluverðar líkur á því að hún muni einhvern tíma verða verkefnalaus. „Ég er bara að vega salt,“ bendir hún á og að sem betur fer njóti hún vinnunnar, listsköpunarinnar. „Það kemst ekkert mikið annað fyrir í mínu lífi en vinnan.“

Foreldrar Elínar vinna báðir við Háskóla Íslands og segist hún upphaflega hafa ætlað að verða fræðimaður. Leikstjórinn Baldvin Z og foreldrar hennar hafi talið henni hughvarf og hvatt hana til að leggja listsköpun fyrir sig. „Þau bara vissu frá byrjun að ég myndi gera þetta,“ segir hún.

Við snúum okkur að tónlistinni og segir Elín það dýra iðju að vera tónlistarmaður á Íslandi. „Þau eru fá skiptin sem þú færð eitthvað til baka. Ég hélt tónleika í Iðnó sem voru rúmlega uppseldir en gat ekki borgað öllum eins og mig langaði. Ég græddi ekki krónu, borgaði með þeim og tapaði á að halda uppselda tónleika,“ segir Elín. Íslenski markaðurinn skili litlum tekjum en þeir erlendu geti, geti þvert á móti, skilað miklum.

Geðhreinsun

Plötuna Fyllt í eyðurnar tók Elín upp með fyrrverandi unnusta sínum, Reyni Snæ, og fjalla lögin á henni um þeirra samband. Hún er spurð hvernig samstarf þeirra hafi gengið. „Reynir hefur unnið með mér alla tónlist sem ég hef gefið út og við vorum miklir vinir og samstarfsmenn í mörg ár áður en við byrjuðum saman, fyrir mörgum, mörgum árum. Svo vorum við saman í fimm ár og þegar við hættum saman gerðum við plötuna Heyrist í mér sem var að ákveðnu leyti uppgjör á sambandi okkar,“ segir Elín. Ákveðin lög hafi ekki komist á þá plötu og því ratað á Fyllt í eyðurnar. „Þetta eru ekki persónuleg lög,“ segir Elín, ýmislegt sé fært í stílinn og ákveðin geðhreinsun fólgin í því að fara í stúdíó og taka lögin upp.

Elín hefur hlotið mikið lof fyrir verk sín hingað til og Fyllt í eyðurnar er engin undantekning þar á en hún segist líka hafa fengið neikvæðar umsagnir og þá sérstaklega þegar hún var að stíga sín fyrstu skref. Þá reynslu hafi hún nýtt til góðs og um leið haft hugfast að gagnrýnendur séu ekki alvitrir. „Ég tek aldrei neitt sérstaklega mikið inn á mig, hvorki gagnrýni né hrós,“ segir hún og að líklega séu það varnarviðbrögð.

Elín er að lokum spurð að því hver væri draumastaðan hjá henni eftir fimm eða tíu ár. „Að geta ennþá verið að gera allt sem ég er að gera. Ég er ótrúlega svartsýn, finnst eins og þetta sé alltaf alveg að klárast, minn ljómi að deyja út. Ef ég gæti verið að gera það sama eftir fimm, tíu ár væri ég mjög hamingjusöm,“ svarar Elín. Hún sé fyrst og fremst þakklát og þá sérstaklega öllu fólkinu sem hafi haft trú á henni á þessu ferðalagi.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson