Ísland komst rækilega í sviðsljós heimsins þegar heimsmeistaraeinvígið í skák var haldið í Reykjavík árið 1972. Þar áttust við Boris Spasskí og Bobby Fischer. Í Laugardalshöllinni sátu ekki aðeins tveir menn að tafli. Einvígið var hluti af refskák og stórveldaríg Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í kalda stríðinu miðju.
Fischer var undrabarn í skák, sérvitur einfari og snillingur, sem setti fram óbilgjarnar kröfur og fór sínu fram. Í huga flestra var hann þó einn að bjóða sovésku mulningsvélinni í skák birginn. Bandaríkjamaður hafði aldrei áður unnið sér rétt til að skora á heimsmeistarann í skák og frá 1946 höfðu heimsmeistaraeinvígi ávallt verið milli sovéskra skákmanna.
En þótt Spasskí væri afsprengi hinnar sovésku skákvélar var hann engan veginn dæmigerður fulltrúi hennar og passaði einhvern veginn aldrei inn í hina sovésku áróðursmynd.
Í grein sinni á næstu opnu kallar Helgi Ólafsson hann prúðmenni og heiðursmann. Það voru orð að sönnu og kannski kom prúðmennskan honum í koll í einvíginu.
Spasskí fæddist í Leníngrad árið 1937. Í umsátri Þjóðverja um borgina í seinni heimsstyrjöld var hann sendur á heimili fyrir börn í Síberíu. Þar lærði hann að tefla og hæfileikar hans komu fljótt í ljós. Skákstíll hans var sagður óttalaus og elegant.
Árið 1966 tapaði Spasskí heimsmeistaraeinvígi gegn Tígran Petrosjan, en hafði betur gegn honum þremur árum síðar og varð heimsmeistari.
Heimsmeistaraeinvígið setti mikinn svip á Reykjavík. Spasskí bjó á Hótel Sögu og fylgdust krakkar í Vesturbænum með honum spila tennis á leikvellinum við Melaskólann.
Sjötta skákin var vendipunktur í einvíginu. Þá var staðan jöfn, Fischer og Spasskí með tvo og hálfan vinning hvor. Fischer tefldi af mikilli list og þegar Spasskí gaf skákina stóð ekki bara salurinn upp og klappaði heldur einnig ríkjandi heimsmeistari, sem þarna sá vonina um að halda í krúnuna byrja að fjara út.
„Ég er stoltur af þessari skák, hún var ein af mínum bestu,“ sagði Fischer eftir skákina. „Þegar Spasskí fór að klappa með áhorfendum fyrir sigri mínum hugsaði ég með mér: Hvílíkur heiðursmaður.“
Einvígi aldarinnar lauk eftir 21 skák og sigraði Fischer með 12,5 vinningum gegn 8,5.
Sovésk stjórnvöld refsuðu Spasskí fyrir ósigurinn með því að banna honum að tefla á alþjóðlegum vettvangi í níu mánuði. Spasskí sagði síðar að það hefði verið mjög erfiður tími og hann hefði verið þunglyndur. Hann hélt áfram að tefla, iðulega með góðum árangri, en náði aldrei aftur að tefla til úrslita um heimsmeistaratitilinn.
1976 yfirgaf hann Sovétríkin, fór til Frakklands og varð franskur ríkisborgari. Mátti oft sjá hann tefla undir berum himni í Lúxemborgargarðinum í París.
Fischer og Spasskí urðu vinir og áttu leiðir þeirra eftir að liggja aftur saman við skákborðið í Júgóslavíu árið 1992. Sú viðureign var sjónarspil til minningar um einvígi aldarinnar og átti eftir að draga dilk á eftir sér fyrir Fischer. Hann varð eftirlýstur af Bandaríkjamönnum fyrir að hafa brotið viðskiptabann gegn Júgóslavíu.
Þegar Fischer var handtekinn í Tókýó árið 2004 og Bandaríkjamenn vildu fá hann framseldan skrifaði Spasskí George W. Bush Bandaríkjaforseta bréf fyrir hönd vinar síns og bað honum griða. Fischer væri heiðarlegur og góðhjartaður, þótt vissulega væri hann erfiður í umgengni.
Fischer lést árið 2008 og sama ár kom Spasskí hingað til lands og fór að leiði hans. „Haldið þið að leiðið við hliðina á honum sé laust?“ spurði hann blaðamenn, sem voru með í för, að því er segir í andlátsfrétt AFP.
Einvígið varð kveikjan að skákvakningu á Íslandi og kom hér fram sveit vaskra skákmanna sem áttu eftir að láta að sér kveða svo um munaði. Helgi Ólafsson segir frá því í grein sinni um Spasskí hér í blaðinu þegar hann tók að sér að þjálfa landsliðshóp Íslands fyrir Ólympíumótið á Grikklandi árið 1988. Þar var Spasskí farinn að segja þeim til sem sátu límdir við skákir hans og Fischers á sviðinu í Laugardalshöll.
Spasskí flutti aftur til Moskvu árið 2012. Hann hafði verið heilsuveill undanfarin ár og á fimmtudag greindi rússneska skáksambandið frá andláti hans. Nú eru þeir báðir farnir sem háðu einvígi aldarinnar í Reykjavík. Spasskí öðlaðist virðingu og aðdáun með reisn sinni og framkomu í einvíginu og vann sér sess í hjörtum Íslendinga.