Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
Ég veit hvað þarf til að byggja upp, styrkja og sameina. Nú er kominn tími til að nýta þá reynslu til að styrkja Sjálfstæðisflokkinn.

Guðrún Hafsteinsdóttir

Allt frá stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur hann verið leiðandi afl í stórkostlegum breytingum íslensks samfélags. Flokknum hefur vegnað vel því hann byggir á góðum grunngildum sem standast tímans tönn.

Full af auðmýkt vil ég þakka öllum þeim sem hafa hvatt mig til þess að bjóða mig fram til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins. Sú hvatning og velvilji hefur leitt mig að þeirri ákvörðun að ég býð mig fram til formanns flokksins okkar. Ég er hinn dæmigerði Sjálfstæðismaður sem telur að flokkinn þurfi að efla og stækka. Ég hef þá sýn, reynslu og kraft sem þarf í það verkefni. Mitt hlutverk verður að brúa bilið á milli kynslóða, milli landsbyggðar og höfuðborgar, og á milli mismunandi hópa innan flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðislegur flokkur allra þeirra sem trúa á frelsi, framfarir, velferð og sjálfstæði þjóðarinnar. Við viljum að landsmenn allir geti fundið hugsjónum sínum farveg í okkar flokki. Hann er í raun breiðfylking þar sem allir geta verið með.

Ég legg áherslu á að endurnýja tengslin á milli flokksins og fólksins í landinu. Við skulum horfast í augu við þá staðreynd að sigur fæst fyrst og fremst með því að loka engum dyrum, heldur opna þær og eiga heiðarlegt samtal við landsmenn alla og að Sjálfstæðisflokkurinn endurspegli breidd samfélagsins. Í því liggur mikilvægi öflugs grasrótarstarfs.

Ég veit að árangur næst ekki með orðum einum, heldur með skýrum aðgerðum, samstöðu og kjarki til að taka erfiðar ákvarðanir. Ég veit hvað þarf til að byggja upp, styrkja og sameina. Nú er kominn tími til að nýta þá reynslu til að styrkja Sjálfstæðisflokkinn.

Við megum aldrei gefast upp, sagði Winston Churchill. Við Sjálfstæðismenn munum alltaf verja frelsið og í Sjálfstæðisflokknum á frelsið sinn sterkasta málsvara. Við gefumst aldrei upp í þeirri baráttu. Velgengni flokksins er fyrst og fremst í höndum flokksmanna um land allt. Ég lít á það sem frumskyldu formanns að sjá til þess að þeirra góða starf fái þann vettvang og farveg sem til þarf. Þannig verður Sjálfstæðisflokkurinn sterkari málsvari frelsis, atvinnulífs og framfara.

Í ljósi þessa býð ég mig fram til formanns. Ég hef skýra sýn; það þarf að stækka flokkinn, endurheimta traust, fara aftur í grunngildin og tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði aftur stærsti stjórnmálaflokkur Íslands, þjóðinni til heilla. Í því liggur mitt erindi. Blásum til sóknar, sameinum krafta. Tryggjum að Sjálfstæðisflokkurinn leiði Ísland til farsældar og velgengni um alla framtíð.

Höfundur er alþingismaður og frambjóðandi til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Guðrún Hafsteinsdóttir