Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Sjálfstæðismenn halda 45. landsfund sinn um þessa helgi, mestu lýðræðishátíð þjóðarinnar fyrir utan kosningar til þings eða sveitarstjórna.
Í fréttum segir að fundarmenn séu um 2.200. Áhuginn á fundinum er mikill vegna þess að á honum verður valin ný forysta. Eftir 16 ár á formannsstóli kom ekki á óvart að Bjarni Benediktsson tilkynnti 6. janúar sl. að hann yrði ekki í endurkjöri á fundinum. Aðeins Ólafur Thors hefur setið lengur sem formaður flokksins en við allt aðrar aðstæður.
Þegar Jón Þorláksson lét af formennsku 1934 var Ólafur kjörinn af miðstjórn og þingmönnum flokksins og sat til 1961 þegar Bjarni Benediktsson eldri var kjörinn formaður í leynilegri atkvæðagreiðslu á landsfundi. Hefur sú aðferð síðan verið regla í Sjálfstæðisflokknum við kjör formanns.
Formannskjörið er opið í þeim skilningi að hverjum fulltrúa er frjálst að bjóða sig fram og allir kjörnir fulltrúar á landsfundinum hafa atkvæðisrétt. Þetta fyrirkomulag leiðir til þess að fyrirvaralaust er unnt að bjóða fram gegn sitjandi formanni á fundinum sjálfum. Gerðist það árið 2010.
Frá því að Bjarni var kjörinn formaður 2009 hefur hann verið endurkjörinn á sex landsfundum, þar af þrisvar sinnum með yfirlýstu mótframboði: Péturs Blöndal 2010, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur 2011 og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar 2022. Tvisvar hlaut hann 96% atkvæða, 2015 og 2018, en árið 2013 hlaut hann 79% atkvæða.
Á landsfundi 2010 vakti Bjarni Benediktsson máls á því hvort breyta ætti reglunum um formannskjör svo enn fleiri gætu kosið. Hann talaði fyrir því að allir skráðir sjálfstæðismenn fengju atkvæðisrétt í formannskjöri. Kosið yrði í öllum flokksfélögum landsins tveimur vikum fyrir landsfund milli þeirra sem gæfu kost á sér.
Skipulagsreglum flokksins hefur þó ekki verið breytt í þessa veru. Breytingin myndi vafalítið draga úr áhuga á að sækja landsfundinn og breyta þeim anda sem þar myndast og smitast út í flokksstarfið.
Þegar Bjarni var kjörinn 2009 urðu kynslóðaskipti í Sjálfstæðisflokknum. Aldurshópurinn sem náði undirtökum innan flokksins árið 1983 með formannskjöri Þorsteins Pálssonar afhenti formanni nýrrar kynslóðar keflið.
Aðeins einu sinni á tæpum 100 árum hefur sitjandi formaður verið felldur á landsfundi. Það gerðist 1991 þegar Davíð Oddsson borgarstjóri bauð sig fram gegn Þorsteini Pálssyni sem starfar nú með Viðreisn.
Kosningin var spennandi. Davíð fékk 52,8% atkvæða en Þorsteinn 46,9%. Sannaðist þar enn hve fyrirkomulagið við formannskjörið er raunverulega opið og lýðræðislegt. Sitjandi formaður verður að fá endurnýjað umboð hverju sinni á landsfundi.
Davíð var óskoraður formaður til 2005 þegar hann dró sig í hlé og Geir H. Haarde var kjörinn í hans stað. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs 2009.
Nú verða ekki aðeins kynslóðaskipti á formannsstóli heldur verður kona í fyrsta skipti kjörin til formennsku í Sjálfstæðisflokknum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (f. 1990) og Guðrún Hafsteinsdóttir (f. 1970) eru yfirlýstir frambjóðendur sem hafa verið á ferð og flugi um landið allt undanfarið til að endurnýja kynni við flokksmenn, virkja félagsstarfið, fræða og fræðast.
Þær eru báðar verðugir frambjóðendur og þess vegna er valið ekki auðvelt á milli þeirra. Við sem höfum kosningarétt verðum þó að gera upp hug okkar og opinberlega hef ég þegar lýst stuðningi við Áslaugu Örnu.
Reglurnar sem hér hefur verið lýst gilda einnig um kjör á varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Þar hafa nú einnig tveir þingmenn gefið kost á sér, Jens Garðar Helgason, oddviti flokksins í NA-kjördæmi, og Diljá Mist Einarsdóttir í Reykjavík norður. Hlusta ég á framboðsræður þeirra á landsfundinum áður en ákvörðun um stuðning við annað hvort er tekin.
Öll eru þessi nöfn nefnd með fyrirvara um að á fundinum sjálfum kunni að skapast hreyfing eða stuðningur við einhvern sem ekki hefur enn verið nefndur til þessa leiks. Óvissan fram á síðustu stundu skapar sérstakt andrúmsloft á landsfundinum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ákvað að hverfa úr formannsteymi Sjálfstæðisflokksins með því að gefa hvorki kost á sér til formennsku né endurkjörs sem varaformaður. Hún verður nú oddviti flokksins í fjölmennasta kjördæmi landsins, SV-kjördæmi, eftir að Bjarni Benediktsson hverfur af þingi. Þá er hún sjálfkjörinn málsvari flokksins í utanríkismálum.
Í aðdraganda landsfundarins hafa frambjóðendur mest verið spurðir um innlend úrlausnarefni. Raunar er stórundarlegt að áhugi fréttamanna og hlaðvarpsstjóra sé ekki meiri á utanríkis- og öryggismálum. Þau verða örugglega ofarlega á baugi næstu misserin.
Óvissa hefur skapast á mörgum sviðum vegna þess hve Donald Trump Bandaríkjaforseti kastar mörgu fram án þess að vitað sé hvað fyrir honum vakir. Hver bjóst við því að fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna (SÞ) flytti tillögu markvisst í þeim tilgangi að árétta að Rússar væru ekki árásarþjóðin í Úkraínu?
Í það stefnir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur valdi sundrungu meðal þjóðarinnar með atkvæðagreiðslu um ESB-aðildarumsókn árið 2027. Enginn veit þó enn hver þessi umsókn er eða hvernig hún verður undirbúin og kynnt. Sé um það spurt fer stjórnin undan í flæmingi.
Sjálfstæðisflokkurinn er öflugasta stjórnmálaaflið að baki farsælli utanríkis- og varnarstefnu þjóðarinnar. Láti hann af þeirri forystu skapast aukin óvissa og vandræði. Í utanríkismálum verður flokkurinn að tala skýrri röddu.