Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Fyrirtækið Zephyr Iceland, sem er dótturfyrirtæki samnefnds norsks fyrirtækis, hefur hug á að reisa vindorkugarð á Hallkelsstaðaheiði sem er í landi Þorvaldsstaða í Borgarbyggð. Ef af þessum áformum verður yrði heildarafl vindorkugarðsins, sem mögulega yrði reistur í áföngum, 50-70 megavött. Gert er ráð fyrir að vindmyllurnar verði 11-14 talsins og afl hverrar 5-7 megavött. Ef miðað er við um 50 megavatta heildarafl yrði raforkuframleiðsla garðsins á bilinu 180-190 gígavattstundir.
Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum og leitar Skipulagsstofnun nú eftir umsögnum vegna þessara áforma og hefur matsáætlun verið birt í skipulagsgátt.
Hið norska Zephyr býr yfir talsverðri reynslu af byggingu vindorkuvera bæði í Noregi og Svíþjóð og er með verkefni í gangi þar og einnig með fleiri járn í eldinum hér á landi.
Tilvalinn staður
Í umhverfismatsskýrslu sem liggur frammi til kynningar kemur m.a. fram að Hallkelsstaðaheiði sé talin tilvalinn staður fyrir vindorkugarð. Vísbendingar séu um að vindaðstæður þar séu góðar, skv. mati úr veðurstöðvum sem næst liggja. Þá séu ásýndaráhrif frá byggð hófleg og hægt sé að tengjast raforkuflutningskerfi Landsnets þaðan.
Fyrirhugað framkvæmdasvæði sé talið henta vel þar sem góðir innviðir séu til staðar vegna undirbúnings, aðflutninga og byggingar vindmyllugarðs. Endanleg afmörkun framkvæmdasvæðis gæti þó mögulega breyst.
Með vindorkugarðinum á Hallkelsstaðaheiði er ætlunin að bregðast við aukinni raforkuþörf á Íslandi, en samkvæmt skýrslu um afl- og orkujöfnuð fyrir árin 2022-2026 eru líkur taldar á að raforkunotkun muni aukast hraðar á tímabilinu en sem nemur aukningu á nýju uppsettu afli virkjana. Því séu verulegar líkur á raforkuskorti þessi ár að mati Landsnets.
Náttúruleg skilyrði til að virkja vind eru sögð virðast góð á svæðinu, engin mannvirki séu þar og samkvæmt fornleifaskráningu engar friðlýstar fornleifar á svæðinu og hvorki bendi skráðar heimildir né ummerki til þess að snjóflóð eða aurskriður hafi fallið á væntanlegu framkvæmdasvæði.
Nefnt er að framkvæmdasvæðið liggi innan svæðis sem teljist til Arnarvatnsheiðar og skilgreint sé sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.
Almenningur og aðrir umsagnaraðilar hafa tækifæri til að gera athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd, en skv. tímaáætlun matsáætlunar er ráðrúm í þessum mánuði til að skila inn athugasemdum um verkefnið.