Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fulltrúar utanríkisráðuneytis og Fjarskiptastofu undirrituðu í gær samkomulag um flutning á starfsemi netöryggissveitarinnar CERT-IS í skrifstofu ráðuneytisins við Austurhöfn í Reykjavík. Með flutningnum er netöryggissveitinni tryggð fyrsta flokks starfsaðstaða sem og aðstaða til góðs samstarfs við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Breytingar þessa koma til með að styrkja getu netöryggissveitarinnar til að sinna lögbundnum verkefnum sínum innanlands. Þær styrkja einnig þátttöku sveitarinnar í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði netvarna og -öryggis, meðal annars á vettvangi NATO. Þá skapast samlegð og grunnur samstarfs utanríkisráðuneytisins og netöryggissveitarinnar á sviði öryggis- og varnarmála, en þessir aðilar hafa síðastliðin ár átt með sér margvíslegt samstarf.
Við myndun núverandi ríkisstjórnar í desember sl. var ákveðið að efla utanríkisráðuneytið á sviði varnar- og netöryggismála. Flutningur starfsemi netöryggissveitarinnar á nýjan stað er hluti af því, segir í tilkynningu.
„Þetta er áfangi í þeirri vegferð að styrkja netöryggi á viðsjárverðum tímum en netöryggisveitin hefur styrkst á síðustu árum og samstarfið við varnarmálaskrifstofu vaxið. Nú þegar við þurfum að efla öryggis- og varnarmál er mikilvægt að við leitum leiða til að efla stofnanir okkar og tengja saman svo þær geti mætt ógnum og áskorunum sem nú eru aðsteðjandi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.