Nanna Kristín Tryggvadóttir
Nanna Kristín Tryggvadóttir
Nú skiptir öllu máli að við grípum þau tækifæri báðum höndum og kjósum með framtíðinni.

Nanna Kristín Tryggvadóttir

Nú um helgina komum við Sjálfstæðismenn saman og veljum okkur nýja forystu. Bæði formaður og varaformaður flokksins hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér að nýju og því liggur fyrir að breyting verður á forystu flokksins. Tvær öflugar konur hafa boðið fram krafta sína í formannsembættið en aldrei áður hefur flokkurinn staðið frammi fyrir því að geta valið milli tveggja kvenna í hlutverk formanns. Það er því einstaklega ánægjulegt að gegna formennsku í Landssambandi sjálfstæðiskvenna á þeim tímamótum að kona verði formaður Sjálfstæðisflokksins.

Við stöndum nefnilega á tímamótum og í tímamótum felast líka tækifæri. Nú skiptir öllu máli að við grípum þau tækifæri báðum höndum og kjósum með framtíðinni. Sjálfstæðisflokkurinn þarf á því að halda að breikka og stækka, sækja fram og laða að sér nýja kjósendur. Næstu alþingiskosningar, að því gefnu að þær fari fram að fjórum árum liðnum, verða á 100 ára afmælisári Sjálfstæðisflokksins. Þá má áætla að rúmlega 17 þúsund nýir og ungir kjósendur verði komnir með kosningarétt. Til að stækka flokkinn þurfum við að höfða til þeirra, á sama tíma og við sækjum aftur til liðs við okkur kjósendur sem hafa ákveðið að greiða atkvæði sitt öðrum flokkum í umliðnum kosningum.

Á aldarafmæli Sjálfstæðisflokksins er mikilvægt að líta til þess hvernig við tryggjum það að flokkurinn nái að verða 200 ára. Það gerist með því að halda áfram að sækja fram, hugsa hlutina upp á nýtt og þroskast og þróast í takt við tíðarandann hvert sinn. Við Sjálfstæðismenn höfum aldrei verið hræddir við breytingar, við förum ekki að byrja á því núna. Þess vegna ætla ég að kjósa Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur formann Sjálfstæðisflokksins.

Ég hvet alla landsfundarfulltrúa til þess að mæta til leiks um helgina, taka þátt í fundinum og taka þátt í því að móta Sjálfstæðisflokk framtíðarinnar, Sjálfstæðisflokk næstu kynslóða, Sjálfstæðisflokk sem nær 200 ára afmæli.

Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Höf.: Nanna Kristín Tryggvadóttir