Í fjölskylduferð Þórir, Ingólfur, Svana, Ásdís og Örn njóta fegurðarinnar í góðu veðri í St. Anton í Austurríki.
Í fjölskylduferð Þórir, Ingólfur, Svana, Ásdís og Örn njóta fegurðarinnar í góðu veðri í St. Anton í Austurríki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á skíðum skemmti ég mér, söng Helena Eyjólfsdóttir með hljómsveit Ingimars Eydals og útivistarfjölskylda með rætur í Kópavogi tekur undir það. „Í mörg ár höfum við hist á tilteknum stað og farið saman á svigskíði en undanfarin ár hefur…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Á skíðum skemmti ég mér, söng Helena Eyjólfsdóttir með hljómsveit Ingimars Eydals og útivistarfjölskylda með rætur í Kópavogi tekur undir það. „Í mörg ár höfum við hist á tilteknum stað og farið saman á svigskíði en undanfarin ár hefur gönguskíðaáhugi bæst við,“ segir Svanlaug, kölluð Svana, um fjölskyldusportið.

Foreldrarnir Ingólfur Þórisson og Ásdís Guðjónsdóttir búa í Kópavogi. Börn þeirra fóru til útlanda í framhaldsnám í verkfræði og búa erlendis með fjölskyldum sínum, Svanlaug í Edinborg í Skotlandi, Örn í Stavanger í Noregi og Þórir Már í Zürich í Sviss. „Pabbi og mamma lærðu á skíði í Kerlingarfjöllum þegar þau voru um tvítugt en við krakkarnir byrjuðum snemma á skíðaæfingum hjá Ármanni og bræður mínir voru þar mun lengur en ég,“ segir Svana. „Ég á mynd af mér tveggja ára á skíðum með mömmu í Bláfjöllum í hræðilegu veðri.“ Bætir við að pabbi þeirra hafi verið á gönguskíðum á meðan systkinin voru á æfingum. „Þá var hending að hann sæi annan á gönguskíðum á svæðinu en nú er alltaf fullt af fólki þegar opið er.“

Fyrir sex árum vildi eiginmaður Svönu verða annar útlendingurinn til að fá nafnbótina landvættur en til þess þarf að ljúka ákveðnum afreksþrautum á innan við 12 mánuðum. Hún var með honum að hluta og tók þátt í Fossavatnsgöngunni. „Ég hafði aldrei farið á gönguskíði áður en í kjölfarið rúllaði þessi gönguskíðaáhugi yfir á hina í fjölskyldunni.“

Fjölbreytni í sportinu

Fjölskyldan heillast af allri útiveru. Þau fara til dæmis í göngu- og hjólaferðir og siglingar á ám og vötnum. „Allar ferðir okkar eru íþróttatengdar,“ segir Svala.

Í byrjun febrúar voru þau í Seefeld í Austurríki til að æfa sig fyrir 90 km forgöngu Vasagöngunnar í Svíþjóð, sem var sl. sunnudag en aðalgangan er á morgun. „Í Seefeld vorum við með tvo þjálfara sem tóku stílinn í gegn,“ upplýsir Svana. „Það skiptir öllu að vera með tæknina í lagi í svona langri göngu eins og Vasagöngunni.“

Eftir dagana í Austurríki fór hver til síns heima áður en þau hittust aftur í Svíþjóð tveimur vikum síðar. Keppnin þar hafi verið lærdómsrík og þau séu að hugsa um að fara aftur reynslunni ríkari að ári. „Bræður mínir kláruðu og eru stoltir af því en við mamma áttuðum okkur ekki á tímamörkunum. En þetta er allt til gamans gert.“

Undanfarna daga hafa þau verð á svigskíðum í grennd við Lillehammer í Noregi. Svana segir að útiveran heilli þau og gaman sé að renna sér á skíðum. „Að vera á gönguskíðum er eins og hressileg fjallganga nema bara á miklu meiri ferð.“ Sama sé að segja um svigskíðin. „Þetta er svo skemmtileg útivera. Ferskt loft, falleg fjöll og skógur. Skíðaferðirnar eru skemmtilegustu ferðirnar.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson