Ingibjörg Unnur Sigmundsdóttir fæddist 20. maí 1933 í Hælavík á Hornströndum. Hún lést 7. febrúar 2025 á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði í faðmi fjölskyldu sinnar.

Foreldrar Ingibjargar voru Sigmundur Ragúel Guðnason, f. 13. desember 1893, d. 6. október 1973, og Bjargey Halldóra Pétursdóttir, f. 5. júní 1902, d. 30. september 1987. Ingibjörg var sjöunda barn þeirra hjóna.

Systkini Ingibjargar voru Pétur, f. 1. september 1921, d. 23. september 1992, Petólína, f. 16. september 1922, d. 10. október 2006, Guðný Hjálmfríður, f. 16. september 1922, d. 23. september 2004, Jón Þorkell, f. 11. janúar 1925, d. 28. desember 2009, Kjartan Hólm, f. 22. desember 1927, d. 11. júní 2009, Guðfinna Ásta, f. 20. febrúar 1931, d. 9. nóvember 1979, Trausti, f. 24. nóvember 1937, d. 9. ágúst 1989.

Sambýlismaður Ingibjargar var Arnór Valgarður Jónsson, f. 6. ágúst 1911, d. 18. febrúar 1999. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Sigurður Jónas, f. 13. maí 1950, d. 26. apríl 2023, eiginkona Unna Guðmundsdóttir. Börn Jónasar eru Agnar Örn, Guðjón Vilhelm, Arnór Freyr, Hrafnhildur og Ásgeir. Bjargey Ásdís, f. 1. apríl 1952, eiginmaður Guðmundur Gunnarsson, börn þeirra eru Ólafur Davíð, Þóra Soffía og Trausti Týr. Ágúst Þórður, f. 7. september 1953, d. 25. október 2014, dætur hans og Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur eru Vera og Lára. Laufey Ósk, f. 3. júlí 1960, dætur hennar eru Carmen Jósefa og Emilía Tosca. Sigmundur Arnar, f. 27. nóvember 1961, eiginkona Sigríður Lára Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Guðmundur Arnar, Vésteinn, Ingibjörg Unnur og Vigdís Erla. Ólafur Davíð, f. 22. nóvember 1963, d. 27. ágúst 1964. Sóley Guðfinna, f. 6. febrúar 1978, eiginmaður Þorlákur Ragnarsson, börn þeirra eru Tekla, Sigríður Þorlaug og Huldar Ágúst.

Ingibjörg fluttist ung frá Hornströndum til Ísafjarðar þar sem hún gekk í skóla. Hún eignaðist börn ung og bjó um tíma á Hornbjargsvita og á Akureyri. Seinna lá leið hennar aftur til Ísafjarðar þar sem hún bjó til æviloka. Hún starfaði lengst af við fiskvinnslu. Hún tók þátt í félagsstarfi kvenfélagsins Hlífar. Hún var hagmælt og kom að félagsstarfi tengdu því auk þess sem hún stundaði hestamennsku fram á síðustu æviár.

Útför Ingibjargar fer fram í dag, 1. mars 2025, kl. 13 frá Ísafjarðarkirkju.

Elsku Inga amma mín, frá því að ég var lítil stelpa hef ég kviðið fyrir þeim degi að þurfa að kveðja þig og nú hefur sá dagur runnið upp.

Minningarnar streyma um hugann og er mér minnisstæðast allir reiðtúrarnir og stússið í hestunum, en það var ekkert skemmtilegra heldur en að fá að fara upp í hesthús í Engidalnum og fá að skottast í kringum þig, liggja í heyinu og raula fyrir þig allskonar lög á reiðtúrunum.

Hesthúsaferðarnar voru óteljandi og enduðu þær oftast á að fara heim til þín í Stórholtið þar sem við fengum okkur eitthvað með kaffinu (best var það nú ef það voru pönnukökurnar eða kleinurnar enda voru þær þær bestu í heiminum) og hlusta á þig og Kjartan bróður þinn lesa og fara með ljóð þegar það hitti þannig á að ég væri hjá þér á sunnudögum en litla stelpan með úfna hárið skildi ekkert í þessu ljóðastandi.

Eftir að ég varð eldri fórum við að fara meira saman í reiðtúr en þá riðum við stundum heim í Stórholtið og bundum hestana við stóra steininn í garðinum og svo sátum við saman, horfðum á þá út um gluggann og ég ýmist söng fyrir þig eða japlaði á gömlum kandís.

Alltaf hlakkaði maður svo til þegar börnin þín sem búa fyrir sunnan gerðu sér ferð vestur í heimsókn en þá rauk maður heim til þín og settist upp á steinsteypta ruslatunnugeymsluna og beið eftir að þau kæmu, þú varst þá ýmist að undirbúa lambalæri eða að baka pönnukökur en þú passaðir það að enginn færi svangur frá þér, enda var oftast eldað eins og það væru að koma 20 manns í mat og hlógum við oft að því að þegar allir voru orðnir afvelta af lambakjöts- og pönnukökuátinu komst þú fram með ísinn. Á jólunum bakaðir þú ýmsar sortir af allskonar kökum, kúrenukökur voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og bað ég því þig um að fá að taka með mér nokkrar á litlu jólin í skólanum, en ég sjálf mun ekki geta gert þær jafngóðar og þú.

Elsku amma, ég er svo þakklát fyrir tímann sem ég fékk með þér, þakklát fyrir öll hestanámskeiðin þar sem þú og Lárus kennari voruð gáttuð á því að ég klifraði á bak, þakklát fyrir samverustundirnar og þakklát fyrir það að hafa farið heim að hitta þig fyrir jólin.

Ég á eftir að sakna þín svo mikið, en ég veit að þú átt eftir að vernda mig og fylgjast með mér. En aftur á móti veit ég einnig að þú hefur fengið hvíldina þína og að foreldrar þínir, systkini, drengirnir þínir og síðast en ekki síst hestarnir taki vel á móti þér.

Í síðasta sinn flyt ég fyrir þig uppáhaldslagið okkar:

Ég vaknaði fyrir viku síðan,

er vetrarnóttin ríkti hljóð,

og sá þá standa Blakk minn brúna

í bleikri þorramánans glóð.

Svo reisti hann allt í einu höfuð

með opinn flipann og gneggjaði hátt

og tók síðan stökk með strok í augum

og stefndi heim í norðurátt.

Sú leið er erfið, gamli garpur,

þú getur ei sigrað þau reginfjöll,

þó stælt sé þín bringa og fætur fimir,

þín frægðarsaga er nú öll.

Á grýttum mel þar sem geisar
stormur

með grimmdarfrost og hríðarkóf,

ég sé hvar þú liggur klárinn karski

með klakaðar nasir og sprunginn hóf.

Þú skildir mig einan eftir, Blakkur,

því enginn vinur nú dvelst mér hjá,

og enginn hlustar á mitt elliraus

um æskustöðvarnar norður frá.

En í mínu brjósti býr eirðarleysi,

eykur og magnar sína glóð.

Mitt úlfgráa höfuð hátt ég reisi

og held í norður í þína slóð.

Þín

Tekla.

Nú er elsku amma okkar búin að kveðja þennan heim. Við systkinin minnumst hennar með mikilli hlýju og ást og erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með henni og allt það góða sem hún færði okkur.

Amma Dreki var einstök kona, hún var hörkutól sem lét fátt stoppa sig. Hún stóð ávallt á sínu og hafði sínar skoðanir. Hún lét ekkert stoppa sig í að fylgja sinni sannfæringu og sinna sínum áhugamálum, síst af öllu aldurinn. Hún stundaði hestamennsku langt fram á níræðisaldur, harðneitaði alltaf að fara til öldrunarlæknis og klæddi sig eins og hún vildi og lét ekki aldurinn standa í vegi fyrir sér. Unglingsstrákar Ísafjarðar öfunduðu hana af sportbílakostinum sem hún brunaði á um allar trissur. Sem dæmi um hversu úrræðagóð hún var þá dó hún ekki ráðalaus þegar gírkassinn bilaði í einum bíltúrnum. Hún lét sér fátt um finnast og bakkaði alla leið úr bænum og heim.

Amma var alltaf hlýleg, yfirveguð og þolinmóð. Það var alltaf friðsælt að koma í heimsókn til hennar. Hún var ástrík og sýndi manni einlægan áhuga. Jafnframt var hún ávallt umburðarlynd í garð prakkarastrika barnabarnanna sinna.

Elsku amma, takk fyrir allt.

Þín barnabörn,

Ólafur Davíð, Þóra Soffía og Trausti Týr.