Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson
Stórar áskoranir blasa við í húsnæðismálum. Nýr stjórnarmeirihluti ætlar að takast á við þær af stefnufestu, metnaði og stórhug. Lykilverkefnin eru að hleypa krafti i íbúðauppbyggingu. Í öðru lagi þarf huga að hagsmunum ungs fólks og fyrstu kaupenda

Stórar áskoranir blasa við í húsnæðismálum. Nýr stjórnarmeirihluti ætlar að takast á við þær af stefnufestu, metnaði og stórhug. Lykilverkefnin eru að hleypa krafti i íbúðauppbyggingu. Í öðru lagi þarf huga að hagsmunum ungs fólks og fyrstu kaupenda. Í þriðja lagi þarf að fjölga hjúkrunarrýmum og byggja upp fjölbreytta lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk. Í fjórða lagi þarf að taka á skammtímaleigu. Og í fimmta lagi – og síðast en ekki síst – þarf að styðja kröftuglega við uppbyggingu óhagnaðardrifinnar húsnæðisuppbyggingar.

Af hverju er of lítið byggt? Staða uppbyggingar tengist háum vöxtum. Húsbyggingar eru iðulega fjármagnaðar með framkvæmdalánum og sligast nú af háum vöxtum. Því hefur hægt á nýjum verkefnum og húsbyggingum. Aldrei hafa jafnmargar eignir verið á sölu, þrátt fyrir undirliggjandi eftirspurn eftir húsnæði. Það er einnig vegna hárra vaxta. Fjöldi áhugasamra kaupenda bíður átekta eða getur ekki fest sér húsnæði vegna hás vaxtastigs. Þess vegna hefur hægst mjög á fasteignamarkaðnum. Ungt fólk á sérstaklega erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn og kaupa fyrstu íbúð. Það er bæði vegna vaxta en einnig vegna þess að Seðlabankinn hefur hert á reglum um lánveitingar. Vonir standa til að slaka megi á þeim með lækkun verðbólgu.

Lækkun verðbólgu og vaxta er því eitt af stórum forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Fátt er mikilvægara fyrir heimili og atvinnulíf við núverandi aðstæður. Og fátt er mikilvægara fyrir húsnæðismarkaðinn en uppbygging húsnæðis. Til viðbótar þarf þó að huga sérstaklega að hagsmunum ungs fólks og fyrstu kaupenda, þeirra sem vilja komast inn á húsnæðismarkaðinn.

Fleira þarf þó að gera. Leigumarkaðurinn þarf að vera heilbrigðari. Taka þarf á skammtímaleigu, Airbnb, sem sett hefur þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Það á við víða um land en sérstaklega miðsvæðis í Reykjavík. Um þessa starfsemi þarf skýrari línur og markvissara eftirlit. Tilkoma óhagnaðardrifinna leigufélaga í eigu verkalýðshreyfingarinnar og annarra hafa gjörbylt leigumarkaðnum til hins betra og aukið húsnæðisöryggi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir leigu um 150.000 á mánuði að meðaltali hjá þessum félögum en um og yfir 250.000 kr. á almennum markaði. Það munar um minna.

Reykjavík hefur leitt uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis í samvinnu við verkalýðsfélög, stúdenta og aðra síðustu ár. Ákjósanlegast fyrir húsnæðismarkaðinn í heild væri ef fleiri sveitarfélög kæmu sterkar inn og skilgreina þarf hvata til að þessu sé sinnt af nauðsynlegum krafti, jafnt og þétt og til lengri tíma. Það myndi skila húsnæðisöryggi til stórra hópa. Það er ljóst að húsnæðishóps ríkisstjórnarinnar, þar sem ég á meðal annars sæti, bíða ærin verkefni.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. dagur@althingi.is

Höf.: Dagur B. Eggertsson