[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með beinu flugi frá Íslandi til Asíu opnast margir af stærstu neytendamörkuðum heims fyrir Íslandi. Það gæti haft veruleg efnahagsleg og menningarleg áhrif næstu áratugi. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að fulltrúar Isavia munu í næsta mánuði fara…

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Með beinu flugi frá Íslandi til Asíu opnast margir af stærstu neytendamörkuðum heims fyrir Íslandi. Það gæti haft veruleg efnahagsleg og menningarleg áhrif næstu áratugi.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að fulltrúar Isavia munu í næsta mánuði fara til viðræðna við fulltrúa átta flugfélaga í Kína, Suður-Kóreu, Japan og Indlandi. Með því fylgja þeir eftir tveimur ferðum sínum til sömu ríkja í fyrra. Viðtökurnar þóttu lofa góðu og þótti því fullt tilefni til frekari viðræðna.

Indland í fyrsta sætið

Indland varð nýverið fjölmennasta ríki heims, að því er áætlað, og búa þar nú um 1.450 milljónir manna. Kína var lengi í toppsætinu en þar búa nú um 1.420 milljónir manna. Samanlagt búa nú um 2,9 milljarðar manna í þessum tveimur ríkjum eða ríflega þriðji hver jarðarbúi.

Íbúafjöldinn segir þó aðeins hluta sögunnar. Dýrt er fyrir Asíubúa að ferðast til Evrópu og í þessum tveimur ríkjum er það aðeins á færi velmegandi millistéttar- og efnafólks. Nú teljast nokkur hundruð milljónir manna til millistéttar í þessum tveimur ríkjum, meirihlutinn í Kína, en aðeins efri millistéttin hefur efni á því að ferðast til Evrópu.

Með öfluga miðstétt

Japan er mun fámennara land, þar búa nú um 123 milljónir manna og horfir landið fram á fólksfækkun vegna lækkandi fæðingartíðni. Japanska miðstéttin er hins vegar hlutfallslega fjölmenn miðað við Asíu enda Japan lengi verið eitt helsta iðnríki heims. Suður-Kórea er fámennasta ríkið af þessum fjórum. Þar búa ríflega 50 milljónir manna, sem telst ekki mikið í þessum heimshluta en jafnast á við Pólland og Svíþjóð samanlagt. Miðstéttin í Suður-Kóreu hefur glímt við lífskjarakreppu síðustu misseri.

Fjórum dögum eftir innrás

Innrás Rússa í Úkraínu hafði mikil áhrif á Asíuflug. Skýringin er að 26. febrúar 2022, fjórum dögum eftir innrásina, lokuðu Rússar lofthelgi sinni fyrir 36 ríkjum og voru öll 27 aðildarríki ESB þar með talin. Fyrir vikið þurftu flugfélög frá þessum ríkjum að taka krók fram hjá rússnesku lofthelginni á leið sinni til Asíu. Tölur þýskra flugmálayfirvalda (BDLI) vitna um breytingar á markaðnum. Árið 2019 hafi hlutur kínverskra flugfélaga í flugi milli Kína og Evrópu verið 42% en hlutur evrópskra flugfélaga 47%. Árið 2023 hafi hlutur kínversku flugfélaganna verið kominn í 56% en hlutur þeirra evrópsku lækkað niður í 30%. Bilið hafi aukist í fyrra og hlutur kínversku flugfélaganna í Kínafluginu farið í 61% en hlutdeild þeirra evrópsku lækkað niður í 28%. Hér á grafinu má sjá sambærilegar tölur OAG.

Hafa samkeppnisforskot

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir þetta hafa haft mikil áhrif á markaðinn. Flugbannið nái ekki til kínverskra flugfélaga sem hafi nú samkeppnisforskot með því að geta flogið yfir Rússland.

„Við höfum heyrt frá kollegum okkar á öðrum flugvöllum, sem eru í nánu samstarfi við sín heimaflugfélög, að þessir aukaklukkutímar sem fara í að fljúga í kringum Rússland skekki einfaldlega samningstöðuna það mikið að það sé ekki fjárhagslegur grundvöllur fyrir evrópsku flugfélögin að vera í samkeppni við kínversk flugfélög sem fljúga yfir rússneska lofthelgi á leiðinni til Evrópu.

Á sumum flugleiðum getur munað allt að fjórum klukkutímum og það vegur þungt fyrir ferðamanninn, sem horfir á flugtímann, og flugfélögin, sem horfa á eldsneytisnotkunina og sætanýtinguna,“ segir Guðmundur Daði en hér fyrir ofan eru sýnd dæmi um hvernig bannið lengir flugleiðina.

Hlutdeildin endurheimt?

Evrópsku flugfélögin hafi því misst markaðshlutdeild sína í Asíuflugi en eins og gengur sé erfitt að segja til um hversu auðvelt verði að vinna hana til baka, ef aðstæður breytast.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu voru skráðar 96 þúsund brottfarir kínverskra ferðamanna frá Íslandi í fyrra. Það voru hér um bil jafn margar og árið 2017 en árin 2018 og 2019 komu 105 og 114 þúsund kínverskir ferðamenn til landsins.

Farsóttarárin 2020 og 2021 varð algjört eftirspurnarfall en síðan hefur kínverskum ferðamönnum fjölgað á ný. Hins vegar birtir Ferðamálastofa ekki sundurliðun á fjölda ferðamanna frá Indlandi, Suður-Kóreu og Japan.

Skipta orðið þúsundum

Guðmundur Daði segir hins vegar liggja fyrir að þessir markaðir séu í vexti.

„Við sjáum í öðrum gögnum hversu margir eru að ferðast frá þessum löndum til Íslands. Þau sýna að þessir markaðir eru í stöðugum vexti. Jafnvel markaðir eins og Singapúr og Malasía skila orðið þúsundum ferðamanna á ári. Aukningin er því ekki bundin við Kína en ferðamönnum er að fjölga frá Austurlöndum fjær og Suðaustur-Asíu. Bókunartölur vitna um það,“ segir Guðmundur Daði.

Nýjar gerðir flugvéla

Mikil aukning í farþegaflugi hefur skapað mikla eftirspurn eftir farþegaflugvélum. Við því hafa Kínverjar brugðist með því að leggja mikla áherslu á smíði eigin farþegaflugvélar sem geti keppt við Airbus og Boeing. Útkoman er mjóþotan Comac C919. Sérfræðingur í flugvélasmíði sem Morgunblaðið ræddi við taldi sennilegt að Kínverjar yrðu farnir að smíða jafn fullkomnar farþegaþotur og Airbus og Boeing árið 2040. Slíkar þotur gætu orðið tíðir gestir hér.

Höf.: Baldur Arnarson