Þórshöfn Unglingadeild Grunnskólans á Þórshöfn framan við sköpunarverk sitt, bragga frá hernámsárunum.
Þórshöfn Unglingadeild Grunnskólans á Þórshöfn framan við sköpunarverk sitt, bragga frá hernámsárunum. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er háttur góðra kennara að „grípa boltann“ þegar nemendur sýna námsefni sérstakan áhuga og gefa þeim færi á dýpri umfjöllun með skapandi starfi og samþættingu við fleiri námsgreinar. Í Grunnskólanum á Þórshöfn var unglingastigið á…

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Það er háttur góðra kennara að „grípa boltann“ þegar nemendur sýna námsefni sérstakan áhuga og gefa þeim færi á dýpri umfjöllun með skapandi starfi og samþættingu við fleiri námsgreinar.

Í Grunnskólanum á Þórshöfn var unglingastigið á dögunum að læra um hernámsárin á Íslandi þar sem fjalla átti um ýmislegt sem tímabilinu fylgdi og skila stuttri skriflegri samantekt í kjölfarið.

Skemmst er frá að segja að áhugi nemenda var vakinn og í kjölfarið var farið að skoða efnið á margvíslegan hátt og leita heimilda. Margt var að finna á netinu og í bókum en athyglin beindist líka að heimaslóðunum því að á Heiðarfjalli á Langanesi var ratsjárstöð þar sem bandarískt setulið, varnarliðið, hafði bækistöð á árunum 1954-1968 og nemendur auglýstu eftir ljósmyndum frá þeim tíma, ef eldri íbúar ættu einhverjar í fórum sínum.

Braggarnir einkennandi

Miklar breytingar urðu í íslensku þjóðfélagi á þessum tíma, bæði varðandi atvinnumál og búsetu. Einnig var spáð í „ástandið“ sem fylgdi hernámsárunum ásamt tónlist og tísku tímabilsins og horft á myndina Djöflaeyjuna. Braggarnir voru einkennandi fyrir þetta tímabil, einkum í Reykjavík, og bar þar allt að sama brunni, þeir þóttu bæði kaldir og saggasamir. Braggahverfin risu hratt og urðu síðar bústaðir Íslendinga, sem ekki áttu í önnur hús að venda og jafnan ekki hátt skrifaðir í þjóðfélaginu. Unglingarnir sökktu sér niður í málefnið og hófust handa við að endurskapa bragga á einn vegg skólans sem nú er fullgerður, ásamt ljósmyndum og fróðleik frá árum setuliðsins á Heiðarfjalli.

Höf.: Líney Sigurðardóttir