Í frumkvöðlasetrinu The Innovation House á Eiðistorgi er hin keníska Grace Achieng með litla skrifstofu þar sem tískufyrirtæki hennar Gracelandic er með aðsetur. Grace tekur á móti blaðamanni sem virðir fyrir sér fullar slár af kjólum, skyrtum og samfestingum sem þar hanga, allt úr fínasta hrásilki eða hör. Fötin eru öll hönnuð af Grace, framleidd í Tyrklandi og Rúmeníu. Grace segir að stuttu eftir að hún hafi sett fyrirtækið á laggirnar hafi hún fengið tölvupóst frá Vogue en var efins um að hann væri ekta.
„Einhver rak augun í þetta og spurði mig hvers vegna ég væri ekki búin að svara þessum pósti. Ég trúði ekki að þetta væri raunverulega frá Vogue en það var skorað á mig að svara sem ég gerði. Þetta var ekki svindl og það endaði á að ég fékk umfjöllun í Vogue og það þrisvar! Eftir það var mjög mikil traffík á síðunni minni og einn af mínum fyrstu viðskiptavinum var forsetafrúin Eliza Reid. Eftir það fékk ég mjög margar pantanir,“ segir Grace og segist aðspurð endilega vilja fá forsetann okkar, Höllu Tómasdóttur, sem kúnna.
Bjuggum til eigin leikföng
Grace er alin upp í borginni Kisumu sem stendur við Viktoríuvatnið í Kenía. Æskan var góð, þrátt fyrir fátækt.
„Ég er alin upp í stórri fjölskyldu en við vorum sjö systkini og oft bjuggu frændur og frænkur hjá okkur. Pabbi var útivinnandi en hann var að glíma við alkóhólisma þannig að mamma sá alveg um okkur,“ segir Grace.
„Skemmtilegast var að vera úti að leika. Ég var mikið úti í náttúrunni með vinkonum en ég man að við þurftum að búa til okkar eigin leikföng. Ef við vildum spila fótbolta þurftum við fyrst að búa til boltann. Þegar ég var flutt hingað fannst mér skrítið þegar dóttir mín var að biðja mig að kaupa leikföng,“ segir hún og hlær.
Eftir grunnskólann flutti Grace til Mombasa þar sem hún fór í háskólanám.
„Á háskólaárunum deildi ég litlu herbergi með þremur öðrum; það var ekki gaman!“ segir hún og hlær.
„Ég fór í háskóla í markaðsfræði en foreldrar mínir völdu það nám fyrir mig. Á þessum tíma þótti það praktískt nám en var ekki endilega það sem ég hafði áhuga á. En það nýttist mér rosalega seinna þegar ég stofnaði fyrirtækið,“ segir Grace, en Gracelandic sérhæfir sig í vönduðum kvenfatnaði og er rekið með sjálfbærni að leiðarljósi.
Hjónaband eftir þrjá daga
Á stefnumótasíðu kynntist Grace íslenskum manni sem lagði síðan leið sína til Kenía að hitta hana. Ekki liðu nema þrír dagar þar til þau giftu sig.
„Við giftum okkur eiginlega án þess að ég hafi planað það,“ segir Grace og segir söguna af þessari snöggu giftingu.
„Þegar hann kom til Kenía fór hann að spyrja mig um lögin varðandi giftingar en ég hafði enga hugmynd um þau. Ég spurði vin minn hvort hann vissi eitthvað en hann vissi ekkert heldur. Hann hringdi svo í mig og sagði mér frá vini sínum sem vann hjá sýslumanni og benti okkur á að við gætum farið til hans til að fá frekari upplýsingar. Við mættum og vorum allt í einu komin í röð fólks sem var að gifta sig. Við vissum það ekki, en þegar við áttuðum okkur á því horfðum við hvort á annað og spurðum: „Eigum við kannski bara að gifta okkur?““ segir hún, en Grace var þá 25 ára en eiginmaðurinn 36 ára.
„Ég sagði engum frá þessu í byrjun, ekki vinkonum eða mömmu og pabba. En svo fórum við í ferðalag og keyrðum heim til mömmu og pabba viku eftir giftinguna. Mamma varð svo brjáluð,“ segir hún kímin á svip.
„Ég var skotin í honum en þekkti hann ekki neitt, en við vorum bæði mjög hvatvís og þetta var skyndiákvörðun. Þetta var árið 2010 og Eyjafjallajökull nýbúinn að gjósa og mamma spurði mig hvort ég vildi fara til Íslands og deyja,“ segir hún og hlær dátt.
Innilokunarkennd á Sauðárkróki
Þremur mánuðum síðar flaug Grace til Íslands með nýja eiginmanninum og flutti beint á Sauðárkrók, hans heimabæ.
„Það var mjög skrítið að búa svona úti í sveit. Ég fékk strax innilokunarkennd og ég fann mig ekki þarna. Ég vaknaði á morgnana umlukin fjöllum og datt niður í djúpan dal. Sambandið var mjög erfitt, fyrir okkur bæði, en ég var ekki að aðlagast þessu sveitaþorpi, komandi úr stórborginni Mombasa,“ segir hún.
„Fólk talaði í kringum mig en ég skildi ekki íslensku og fannst þetta frekar skrítið og lífið var allt mjög erfitt. Ég fékk vinnu í fiskvinnslu og var þar í nokkra mánuði. Ég vildi bara snúa við og fara heim, en fljótlega skildi ég við hann og fór til Reykjavíkur. Það var auðvelt fyrir mig að ganga út úr þessu sambandi því ég hafði upplifað óstöðugleika sem barn og vissi hvað ég vildi. Ég fór til Reykjavíkur og fékk hjálp við að finna vinnu því mig langaði að vera lengur hér. Ég vann alls konar láglaunastörf en mig langaði mest að vinna í tískuiðnaði því þegar ég var unglingur í Kenía var ég strax byrjuð í viðskiptum og fannst það gaman. Sextán ára gömul hafði ég safnað vasapeningi sem ég átti að nota í strætó og fór á útimarkaði og keypti föt og seldi síðan skólasystrum mínum. Mér fannst svo gaman að sjá hvernig fólki leið þegar það fékk falleg föt,“ segir hún.
„Í háskólanum var ég stundum að vinna sem stílisti til að vinna mér inn smá pening. Þannig að þó ég hafi lært markaðsfræði langaði mig að vinna í einhverju sem tengdist tísku en fékk ekki vinnu í þeim geira. Ég fór svo að vinna á leikskóla og vann þar mjög lengi en fannst alltaf eitthvað vanta. Mig langaði í áskorun og ég var föst; þetta var ekki það sem mig langaði að gera.“
Vildi vera hluti af lausninni
„Ég keypti mér saumavél og efni og byrjaði að skoða YouTube og Pinterest og alls konar síður sem kenndu mér að sníða, skera og sauma. Ég fór líka á námskeið til að læra að koma mínum hugmyndum á framfæri. Mér fannst mig vera að dreyma; að þetta væru bara draumórar, en á þessum tíma átti ég lítið barn,“ segir Grace en hún var í sambúð með íslenskum manni í þrjú ár og eignaðist með honum dótturina Tönju sem í dag er þrettán ára.
„Ég vissi að ég þurfti að sjá fyrir mér og dóttur minni og átti í raun að vinna bara níu til fimm en leið ekki vel. Árið 2020 ákvað ég að stökkva út í djúpu laugina og stofnaði fyrirtæki því ég vissi að ef ég myndi ekki stofna það, myndi ég ekki taka það alvarlega. Ég stofnaði þá Gracelandic,“ segir Grace, en strax árið 2015 hafði hún hannað míní-línu og komst með fötin á sýningu; föt sem hún hannaði sjálf og saumaði.
„Þá vissi ég að ég vildi gera þetta og skráði fyrirtækið formlega árið 2020 og fór að gera markaðsrannsóknir. Þannig lærði ég meira um tískubransann og um „slow fashion“ og fann að ég vildi hafa mína tísku þannig. Ég er alin upp við „fast fashion“ og þeirra áhrif því ég hafði í Kenía svo oft farið að markaði og þurfti þá að leita og leita til að finna eitthvað gott. Níutíu prósent af þessum fötum enda á ruslahaugum en tíu prósent seljast. Mig langaði að vera hluti af lausninni en ekki að vera hluti af þessari „fast fashion“ því ég veit hvaða áhrif það hefur á þróunarlöndin,“ segir Grace og nefnir að fötin eru framleidd úr lélegum efnum, oft af fólki sem fær illa borgað og er yfirkeyrt af vinnu; af fólki í þrælakistum.
„Ég var í sjokki þegar ég áttaði mig á að ég hefði sjálf tekið þátt í þessu þegar ég vissi ekki betur. Þess vegna ákvað ég að stofna „slow fashion“-merki. Ég bjó til vefsíðuna sjálf þó ég hefði aldrei áður gert það og þá varð til Gracelandic.com. Ég er ekki sú tæknivæddasta en keypti námskeið um vefsíðugerð og lærði líka af YouTube. Þá var að finna framleiðanda og það á miðjum covid-tímum, sem var hræðilegt,“ segir Grace, en hún komst þá í samband við framleiðanda í Tyrklandi.
„Ég gat ekki ferðast og þurfti bara að treysta þessu fólki í Tyrklandi; að það væri ekki að svindla á mér,“ segir hún og brosir.
„Ég hafði alltaf verið að teikna eitthvað meðfram vinnu minni á leikskóla og fór svo að vinna með grafískum hönnuði sem breytti teikningum mínum og setti á tölvutækt form. Á þessum tíma var ég hætt að vinna á leikskóla en ég lenti í bílslysi og gat nýtt smá bætur til að lifa af og vinna að fyrirtækinu. Í júlí 2021 opnaði ég svo formlega Gracelandic á netinu,“ segir Grace, en þess má geta að hún kláraði BA-próf í íslensku sem annað mál. Í dag er hún í starfsnámi hjá Advania og í fullu meistaranámi í umhverfis- og auðlindafræðum. Grace er með gífurlega gott vald á íslensku og talar afar fallegt mál.
„Hjá Advania er ég að skrifa sjálfbærniskýrslur og vinn í öllu sem tengist sjálfbærni og hringrásarkerfum. Ég vinn líka á netinu við Gracelandic og tek hér á móti konum sem vilja koma í mátun. Það er nóg að gera! Svo er ég stjórnarkona í FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu. Mér finnst alltaf gaman að vera í fleira en einu í einu.“
Fjölbreytni er falleg
Hvernig gengur að selja fötin á netinu?
„Núna er ég ekki að framleiða því ég er að leita að fjárfesti. Þetta kostar sitt því fötin eru í miklum gæðum. Ég er núna meira að einbeita mér að náminu því í fyrra var ég yfirkeyrð að vera hundrað prósent í námi og hundrað prósent í vinnu,“ segir Grace og segir mjög skemmtilegt í náminu.
„Í fyrra útskrifaðist ég með BA í íslensku sem annað mál. Til þess að geta talað vel, fannst mér ég verða að fara í námið því þótt það séu til alls konar námskeið og alls konar öpp, þá kenna þau manni aldrei að tala íslensku nógu vel. Þetta var góð leið til að læra ritmál, talmál og sögu Íslands. Ég var þá bæði í námi og vinnu en í meistaranámi er það erfiðara,“ segir hún.
Fjölskylda Grace hefur ekki enn heimsótt hana til Íslands en hún fer annað hvert ár að jafnaði til Kenía, en nú eru fimm ár síðan hún heimsótti heimalandið.
Saknar þú Kenía?
„Mér finnst gaman að heimsækja Kenía en finnst gott að búa hér,“ segir hún, en Grace hefur nú búið hér í fimmtán ár.
En hvað með veðrið á Íslandi?
„Ég á í ástar-haturssambandi við það,“ segir hún og hlær.
„Það er margt gott á Íslandi og hugarfar mitt hefur breyst. Ég hugsa nú öðruvísi en fólk í Kenía, en hvernig við sjáum hlutina er ólíkt,“ segir Grace og segist aldrei leiða hugann að fordómum.
„Í Kenía voru allir eins; allir svartir, þannig að ég hugsaði aldrei út í fordóma. Þegar ég kom hingað var ég stundum spurð að því hvort fólk væri gott við mig. Ég hugsaði þá „af hverju ætti fólk ekki að vera það?““ segir hún og brosir.
„Fólk er ekkert að pæla í fordómum í Kenía en þar eru 43 tungumál og ég er alin upp við að heyra alls konar tungumál og sjá mismunandi menningar. Þannig að það er mín upplifun að fólk er öðruvísi, en það er allt í lagi. Það þarf að vera fjölbreytni og það er svo fallegt,“ segir hún.
„Það er samt erfitt fyrir innflytjendur hér að finna vinnu. Og það er mjög sjaldgæft að sjá konur af erlendum uppruna á vinnustöðum, sérstaklega þær sem eru dökkar á hörund. Ég þekki konur sem eru með meistarapróf sem fá aldrei vinnu. Það er jafnvel erfitt að finna vinnu við þrif.“
Verkefna- og árangursdrifin
Grace fann fljótt að hún vildi kynnast konum í frumkvöðlastörfum og í atvinnulífinu. Einhver benti henni á FKA og sótti hún þá um að gerast meðlimur.
„Ég byrjaði strax að mæta á viðburði og það var svo gaman. Fólk var svo opið og ég fékk strax mentor. Ég lærði mjög margt í viðskiptum og markaðssetningu við að vera í þessu umhverfi og það víkkaði minn sjóndeildarhring,“ segir hún.
„Ég kynntist fullt af íslenskum konum en það var líka nefnd fyrir konur af erlendum uppruna, en hún var ekki virk. Þannig að ég bara ákvað að gera eitthvað, fyrst við áttum þennan vettvang. Ég fann konur og setti saman hóp og var valin formaður nefndarinnar. Síðan þá hafa fleiri konur bæst við og nefndin tók flugið og er nú mjög virk. Ég er núna í aðalstjórn FKA,“ segir hún.
„Þó ég sé nú í umhverfis- og auðlindafræði og langi að fá starf við hæfi að loknu námi, ætla ég líka að halda áfram með Gracelandic. Ég stefni einnig að því að veita fyrirtækjum ráðgjöf um sjálfbærni og lífsferilsgreiningu, hjálpa þeim að innleiða sjálfbærar lausnir og draga úr umhverfisáhrifum sínum. Ég er svo verkefna- og árangursdrifin. Mig langar að vera með alls konar verkefni til að vinna að. Afi minn og frænka mín eru mínar fyrirmyndir en þau voru mjög farsæl og voru alltaf með margt í gangi í einu, þó þau hafi komið úr mjög erfiðu umhverfi og séu alin upp í fátækt. Þau létu það ekki stoppa sig. Ég er eins. Ég er opin fyrir tækifærum.“