Körfuboltinn
Jökull Þorkelsson
jokull@mbl.is
Haukar eru fallnir niður í 1. deild karla í körfubolta eftir tap gegn heitu liði Njarðvíkur, 103:81, í 19. og þriðju síðustu umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í Njarðvík í gærkvöldi.
Eftir leikinn eiga Haukar ei lengur möguleika á að komast upp úr fallsæti og munu því vera í næstefstu deild í haust. Njarðvík er hins vegar á mikilli siglingu í þriðja sætinu, og nú aðeins tveimur stigum frá toppliðunum.
Leikur liðanna var aldrei jafn en snemma var ljóst hvert hann stefndi. Dwayne Lautier-Ogunleye fór enn einu sinni á kostum í liði Njarðvíkur en hann skoraði 33 stig, tók tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hjá Haukum skoraði De'sean Parsons mest eða 23 stig.
Toppliðin töpuðu bæði
Topplið Tindastóls og Stjörnunnar töpuðu bæði sínum leikjum á útivöllum. Tindastóll tapaði fyrir Álftanesi, 102:89, og Stjarnan fyrir Þór Þorlákshöfn, 94:91, eftir framlengdan leik.
Bæði lið eru enn með 28 stig í efstu tveimur sætunum en Tindastóll er ofar vegna innbyrðisviðureigna. Álftanes er í fimmta sæti með 20 stig og Þór í sjöunda með 18.
Álftanes gekk frá Tindastóli í fjórða leikhluta eftir nokkuð jafnan leik fram að því. David Okeke fór á kostum í liði Álftnesinga en hann skoraði 31 stig, tók ellefu fráköst og gaf eina stoðsendingu. Hjá Tindastóli skoraði Adomas Drungilas mest eða 19 stig en hann tók einnig sjö fráköst.
Leikur Þórs og Stjörnunnar var æsispennandi en Stjörnumenn voru með sjö stiga forystu fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þórsurum tókst hins vegar að jafna metin og var leikurinn framlengdur. Þar voru heimamenn í Þór sterkari og unnu að lokum þriggja stiga sigur. Jordan Semple skoraði þrefalda tvennu fyrir Þór með 15 stig, 19 fráköst og tíu stoðsendingar en hjá Stjörnunni skoraði Shaquille Rombley 20 stig og tók 18 fráköst.
Hörð barátta um sæti
Baráttan um sæti í úrslitakeppninni varð bara harðari eftir að Keflavík tapaði fyrir Grindavík, 101:91, í Smáranum. Eftir leikinn er Grindavík í sjötta sæti með 20 stig en Keflavík er í áttunda með 16. Grindvíkingar voru skrefinu á undan í þremur af fjórum leikhlutum leiksins sem skilaði þeim sigrinum.
DeAndre Kane fór á kostum í liði Grindavíkur en hann skoraði 27 stig, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hjá Keflavík skoraði Ty-Shon Alexander 19 stig, tók 11 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.
Keflavík er í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Keflavík er með jafnmörg stig og ÍR og KR sem eru í níunda og tíunda sæti og eiga leiki í dag, KR heima gegn Hetti, og ÍR úti gegn Val. Þá eru Þórsarar aðeins tveimur stigum á undan og Grindvíkingar, Valsarar og Álftnesingar eru ekki öruggir enda aðeins fjórum stigum á undan þegar þrjár umferðir eru eftir. Spennan er því gríðarleg fyrir síðustu þrjár umferðir úrvalsdeildarinnar.