Sviðsljós
Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
„Það var kannski einhvern tímann í janúar 1980, hugsa ég,“ segir Jim Erdmann hugsi. Hann rifjar upp augnablikið fyrir blaðamann Morgunblaðsins þegar hann rakst á flöskuskeyti í fjörunni við Ægisíðuna í Vesturbæ Reykjavíkur. „Ég man að það var dimmt. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvenær þetta gerðist en það hefur verið um þetta leyti,“ segir Jim.
Varðveitti miðann í 45 ár
En hvers vegna hefur blaðamaður fyrir því að leita uppi Bandaríkjamann sem fann flöskuskeyti fyrir rúmum 45 árum?
Þannig er mál með vexti að á miðanum í flöskunni reyndust skilaboð með undirritun. Sendandinn ber nokkuð einkennandi nafn en undir skilaboðin ritar Guttormur Guttormsson.
Jim henti flöskunni en skeytið var í forláta glerflösku með einhvers konar korktappa. Hann varðveitti miðann en gerði aldrei neitt í því að reyna að hafa uppi á sendandanum.
Segist Jim oft hafa hugsað um skeytið en það hafi ekki verið fyrr en hann las sögu um daginn í bókaklúbbi sem fjallaði m.a. um flöskuskeyti að hann hugsaði um að setja skeytið á samfélagsmiðla og leita sendandans.
Það er gaman að segja frá því að í bókaklúbbi Jims lesa meðlimir smásögur á íslensku en Jim hefur mikinn áhuga á Íslandi, Íslendingum og íslensku síðan hann varði tíma sínum hér um tveggja ára skeið á árunum 1978-1980.
Gamlar ljósmyndir
Facebook-hópurinn Gamlar ljósmyndir varð fyrir valinu en þangað setti Jim færslu um skeytið og birti mynd með.
Margir tjáðu sig undir færslu Bandaríkjamannsins og fljótlega var hugsanlegur sendandi „merktur“. Einhver sagði að aðeins einn núlifandi Íslendingur bæri nafnið og því væri ljóst að um réttan Guttorm væri að ræða.
„Halló, Bingó“
Skemmst er frá því að segja að um sólarhring síðar barst svarið sem allir biðu eftir og þá ekki síst Jim Erdmann:
„Halló, Bingó sendandinn fundinn. Virkilega gaman að þessu, nánast óraunverulegt. Sendi þér línu á PM,“ skrifaði Guttormur Guttormsson.
Blaðamaður sló á þráðinn til sendanda flöskuskeytisins. Guttormur var 13 ára gamall þegar hann sendi skeytið. Segist hann á myndinni frá Jim þekkja bæði miðann sem hann notaði og letrið úr gamalli ritvél sem til var á heimili ömmu hans og afa á Lynghaganum.
„Þetta er svona A5-miði. Amma var mikið í því á árum áður að vélrita fyrir Orðabók Háskólans á svona miða. Þá voru orðskýringar teknar úr orðabókinni og skrifað var eitthvað um hvert einasta orð og vélritað á svona miða. Orðabók Háskóla Íslands borgaði fyrir þetta og margir höfðu þetta sem aukabúgrein,“ segir Guttormur.
Hann segist alveg viss um að kveikjan að flöskuskeytinu hafi verið eitthvað sem hann las í Tímanum eða Mogganum um eitthvert flöskuskeyti og þá ákveðið að prófa.
Varla gerist allt sama daginn
Guttormur telur jafnvel að aðgerðin hafi tekið lengri tíma en þennan eina dag sem gefinn er til kynna á miðanum, dagsetningin er 19. desember 1979. „Þetta hefur varla allt gerst sama daginn held ég.“
Efni flöskuskeytisins var vinsamleg kveðja og svo brandari, sem Guttormur segir að sé í raun frekar gáta:
„Einu sinni voru tveir hanar. Einn hét Fram og einn Aftur. Svo einn dag dó Fram, hver var eftir? Svar: Aftur.“
Hugmyndin á bak við gátuna er svo að hinn spurði svari gátunni rétt og segi aftur, og þá hefji spyrillinn lesturinn aftur og svo framvegis. Gátuna segist Guttormur sennilega hafa lært af ömmu sinni.
Á sama tíma og sama stað
Hann sendi Jim einkaskilaboð og þeir náðu saman og fóru aðeins yfir málin. Guttormur segist hafa spurt Jim hvar hann hefði fundið skeytið og svo virðist sem það hafi verið á sama stað og Guttormur kastaði því út í sjó. „Ég held að hann hafi bara fundið skeytið þarna í sömu vikunni. Þetta gæti hafa skolast í einhverja daga í sjónum og svo skolast að lokum upp í fjöru.“
Trúboði frá Utah
En hver er saga Jims Erdmanns? Hann er fæddur árið 1959 í Utah og er mormóni í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Hann kom til Íslands sumarið 1978, þá 19 ára, en tilgangurinn var að stunda trúboð hér á landi. Hann hélt svo aftur til Bandaríkjanna í mars 1980, á 21. aldursári.
Jim segir það ekki hafa gengið vel þó að alltaf hafi verið gaman að hitta og tala við fólk. „Ég eignaðist fullt af vinum bara með því að hitta fólk og spjalla við það,“ segir Jim að lokum.