Sigurbjörg Gunnólfsdóttir fæddist í Ólafsfirði 26. nóvember 1967. Hún lést eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði 14. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru hjónin Gunnólfur Árnason, f. 26. mars 1941, d. 4. des. 2021, og Lilja Minný Þorláksdóttir, f. 8. jan. 1941, d. 19. nóv. 2013. Systkini Sigurbjargar eru: Kristín Anna, f. 5. febrúar 1965, gift Kristjáni Hilmari Jóhannssyni; Árni, f. 15. maí 1966, giftur Dídí Ásgeirsdóttur; Heiðar, f. 28. nóv. 1974, d. 30. sept. 1976; Heiðbjört, f. 17. maí 1977, gift Lúðvíki Ásgeirssyni; Heiðar, f. 25. mars 1979, giftur Júlíu Gunnlaugsdóttur Poulsen.
Sigurbjörg var gift Sigurbirni Ragnari Antonssyni frá Siglufirði, f. 28. júní 1958. Foreldrar hans voru Anton Sigurbjörnsson, f. 14. des. 1933, d. 4. jan. 2023, og Pálína Frímannsdóttir, f. 10. jan. 1935, d. 16. júlí 2022.
Börn Sigurbjargar og Sigurbjörns Ragnars eru: 1) Lilja Minný, f. 10. maí 1987, gift Jóni Þór Ólafssyni. Þau eiga tvo syni, Ólaf Gísla, f. 2017, og Ragnar Þey, f. 2021. 2) Jóhanna Ragnheiður, f. 2002, maki Sigurður Rafnsson.
Sigurbjörg ólst upp á Ólafsfirði og gekk þar í barnaskóla og gagnfræðaskóla. Sem ung kona vann hún í fiski, meðal annars á Ólafsfirði og á Hofsósi, og vann einnig á dvalarheimilinu Hornbrekku. Hún flytur til Siglufjarðar í mars 1988 og byrjar að vinna í bókhaldi. Árið 1997 stofnar Sigurbjörg sitt eigið fyrirtæki, Minný ehf., og kaupir tískuvöruverslun við Túngötu 5 á Siglufirði. Hún var einnig umboðsmaður Morgunblaðsins á Siglufirði í mörg ár. Árið 1999 hefur hún störf hjá Primex ehf. við bókhald og ýmis skrifstofustörf. Árið 2018 tók Sigurbjörg og hennar fyrirtæki Minný ehf. við ræstingum á ýmsum stofnunum í Fjallabyggð og vann hún bæði þessi störf, hjá Primex og við ræstingar, þar til ógæfan dundi yfir.
Á hverju ári naut hún þess að fara í laxveiðiferðir með stórfjölskyldu Sigurbjörns. Önnur ferðalög, útivist, samverustundir með sínum nánustu og að blómstra í ömmuhlutverkinu voru hennar helstu áhugamál.
Útför Sigurbjargar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 1. mars 2025, og hefst athöfnin kl. 13.
Við minnumst einstakrar konu, eiginkonu, móður, ömmu, tengdamóður og yndislegrar vinkonu. Öll syrgjum við Sibbu okkar, sem var falleg að utan sem innan.
Undir það síðasta dró verulega af Sibbu, sem hafði barist eins og ljón við krabbamein, illvígan sjúkdóm, en nú er ljósið hennar slokknað.
Við dáðumst að styrk hennar og baráttu. Hún hafði mikið keppnisskap og fjölskyldan stóð þétt saman og var við hlið hennar allan tímann. Við trúðum því að hún myndi vinna baráttuna við þennan vágest sem bankaði hafði upp á. Fjölskyldan veitti henni styrk og stoð á alla vegu – einlæg ást og samkennd batt þau saman.
Nú hefur Sibba þurft að lúta í lægra haldi fyrir þessum miskunnarlausa sjúkdómi og hún hefur kvatt okkur. Við geymum dýrmætar minningar í hjörtum okkar að eilífu.
Elsku Ragnar, Lilja Minný, Jóhanna og öll fjölskyldan. Við sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur.
Dimmt er hvert rökkur er
dagsbjarminn þrýtur,
dapur sá mökkur er lífinu slítur.
Þá nóttin er gengin og árdagur ómar,
þá ymur hver strengur og
morgunninn ljómar.
Ó, gætu þeir séð sem að syrgja og
missa
þá sannleikans gleði sem óhult er
vissa,
að bönd þau sem tengja' okkur eilífð
ná yfir,
að allt sem við fengum og misstum
það lifir.
En alltaf það vekur hið innsta og hlýja,
er alfaðir tekur og gefur hið nýja.
Faðir í hendur þér felum við andann,
fullvís er lending á strönd fyrir
handan.
(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)
Baldvin, Ingibjörg
og fjölskylda.
Elsku Sibba okkar, finnst eins og það hafi verið í gær sem þú hoppaðir út í hádeginu að skjótast í eina myndatöku sem sneri öllu á hvolf. Þú komst aðeins nokkrum sinnum í kaffi til okkar eftir það. Það sem lífið getur verið ósanngjarnt. Þú barðist eins og ljón til síðasta dags, við óskuðum okkur öll þess heitast að tíminn yrði lengri. Þú varst hrein og bein og sagðir nákvæmlega það sem þér fannst, þú reyndir samt alltaf að hafa jákvæðnina að leiðarljósi. Þú komst stormandi inn í vinnuna á peysunni, alveg sama hvernig veðrið var. Þú varst einnig mesti dugnaðarforkur sem fyrirfinnst. Alveg sama hver verkefnin voru það var ekkert mál í þínum huga. Við yljum okkur við minningarnar sem við eigum um þig og erum þakklátar fyrir Pragferðina með ykkur Ragga í haust.
Fjölskyldan átti hug þinn allan og varstu svo stolt af dætrum þínum og ömmusnúðunum. Við þökkum þér fyrir samfylgdina og vináttuna í gegnum árin.
Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)
Elsku Raggi, Lilja Minný og Jóhanna, við vottum ykkur og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum. Góðar minningar lifa um elsku Sibbu okkar sem við öll söknum svo sárt.
Guðrún Sif, Hulda Ósk
og Margrét.
Í dag minnumst við Sibbu sem var bæði ómetanlegur starfsfélagi og góður vinur. Það er erfitt að finna réttu orðin þegar maður kveður samstarfskonu sína til áratuga en Sibba átti lengstan starfsaldur allra hjá líftæknifyrirtækinu Primex á Siglufirði en þar starfaði hún í alls 25 ár. Hún hóf störf sem bókari og launafulltrúi þegar fyrirtækið var aðeins lítill sproti. Það var í nægu að snúast hjá litlu nýsköpunarfyrirtæki sem var að stíga sín fyrstu skref og allir gengu í þau störf sem þurfti á hverjum tíma með öllum þeim áskorunum sem slíku fylgir. Sibba var þar enginn eftirbátur annarra enda hörkudugleg og drífandi á allan hátt, ósérhlífin og ósjaldan var hún komin langt fram úr sér, þá var mikið hlegið. Sibba var mikill húmoristi, sumir mundu segja með gráan húmor, hún gerði óspart grín að sjálfri sér og öðrum með hnyttnum tilsvörum sem fengu okkur samstarfsfólkið á kaffistofunni til að hlæja óspart.
Sibba var ekki bara dugnaðarforkur, hún var líka mikill nagli. Ég held bara að hún hafi aldrei klæðst vetrarfatnaði þrátt fyrir óblíða veðráttuna hér á Tröllaskaganum. Við munum alltaf minnast þess þegar hún hentist inn um dyrnar á morgnana, klædd í bol eða þunna peysu og strigaskó á meðan við hin vorum svo dúðuð að varla sást framan í okkur. Þegar Sibba greindist með illvígt krabbamein um mitt sl. ár var sigur það eina sem kom til greina og aðdáunarvert sjá hvernig hún tókst á við baráttuna með bjartsýni og húmorinn að vopni. Fyrir okkur var það engin spurning að Naglinn mundi hafa betur en því miður fór það á annan veg, þrátt fyrir hetjulega baráttu.
Minningarnar um Sibbu og hennar framlag til vinnustaðarins munu lifa áfram. Hún mun alltaf verða hluti af sögu Primex, og við munum halda áfram að minnast hennar með virðingu og þakklæti.
Við sem eftir sitjum verðum að trúa því að ótímabært fráfall Sibbu hafi einhvern tilgang og trúum því að almættið hafi ætlað henni góðan stað.
Elsku Raggi, Lilja, Jóhanna, Jón Þór, Siggi og ömmulingar, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Hvíl þú í friði, elsku Sibba
Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna
og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.
Þú vaktir yfir velferð barna þinna,
þú vildir rækta þeirra ættarjörð.
Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,
sem gefur þjóðum ást til sinna landa,
og eykur þeirra afl og trú,
en það er eðli mjúkra móðurhanda
að miðla gjöfum eins og þú.
(Davíð Stefánsson)
F.h. Primex ehf.,
Sigríður Vigdís
Vigfúsdóttir.