Ragnar Þór Ingólfsson er í vandræðum fyrir að þiggja biðlaun. Hann hafði áður gagnrýnt slíkar greiðslur harðlega, enda ekki vel við gróða annarra.
Ragnar Þór Ingólfsson er í vandræðum fyrir að þiggja biðlaun. Hann hafði áður gagnrýnt slíkar greiðslur harðlega, enda ekki vel við gróða annarra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það sem gerir málið svo erfitt og neikvætt fyrir Ragnar Þór er hörð fordæming hans fyrir einhverjum árum á því sama og hann hefur nú gert.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það er ekki sanngjarnt að ætlast til að manneskja sé á lífsgöngu sinni ætíð samkvæm sjálfri sér. Allir einstaklingar eru, í mismiklum mæli, nokkuð þversagnakenndir. Það endurspeglast vel þegar manneskja fordæmir aðra fyrir framferði sem hún gerist síðan sjálf sek um.

Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR og núverandi þingmaður Flokks fólksins, fór úr formannsstarfi yfir í þingmannshlutverkið og þáði um leið 10 milljóna króna biðlaun fyrir starf sitt í þágu VR.

Í sjálfu sér er alls ekkert athugavert við biðlaun. Það blasir hins vegar við að þegar einstaklingur fer beint úr einu starfi í annað og hrifsar um leið til sín biðlaunin þá býður það upp á gagnrýni. Íslendingum gremst mjög ef þeim finnst einhver vera að fá eitthvað nánast gefins. Þá líður þeim eins og verið sé að svindla á þeim. Gagnrýnin verður því í ætt við hneykslunaróp og þau kann þjóðin að reka upp af krafti.

Í þessu máli urðu ópin óneitanlega háværari en ella hefði orðið þegar opinberað var að Ragnar Þór hafði áður gagnrýnt slíkar greiðslur harðlega. Þá hafði fyrrverandi formaður VR fengið einhverjar milljónir í biðlaun og Ragnar Þór átti varla nógu sterk orð yfir hneykslun sína á því að hann hefði þegið þau. Nú er Ragnar Þór orðinn sekur um hið sama og sér alls ekkert athugavert við það.

Ragnar Þór hefur á liðnum árum verið óþreytandi í reiðitali sínu um auðstétt, ofurlaun og bónusgreiðslur sem sumir fá en aðrir ekki. Reiðilestur hans hefur stundum hljómað eins og honum væri meinilla við vel heppnuð viðskipti, sem skila vænlegum gróða. Hörðustu orð hans mátti jafnvel túlka eins og hann kynni einnig sérlega illa við að einstaklingar fengju vel greitt fyrir vinnu sem skilar árangri. Brjáluð peningahyggja er ekki af hinu góða og hún gerir manneskjur alveg sérlega óaðlaðandi. Það er hins vegar óþarfi að láta eins og allir sem hagnast og hafa efni á að njóta lystisemda séu að ganga rangan veg, stöðugt svínandi á öðrum. Þannig talaði Ragnar Þór of oft. Hann virtist hafa hálfgerðan ímugust á gróða – allt þar til kom að honum sjálfum.

Það má vel spyrja sig hvort margir sem sæju fram á að geta á auðveldan hátt fengið 10 milljónir inn á bankabók með löglegum hætti myndu hafna boðinu. Sú sem þetta skrifar reiknar með að fæstir myndu segja „nei takk!“ Það sem gerir málið svo erfitt og neikvætt fyrir Ragnar Þór er hörð fordæming hans fyrir einhverjum árum á því sama og hann hefur nú gert.

Þingmaðurinn Ragnar Þór Ingólfsson segir að milljónirnar 10 sem hann fékk fari í neyðarsjóð fjölskyldunnar. Það bendir til að hann hafi ekki mikla trú á framtíð sinni á Alþingi þar sem hann situr nú í vel launuðu starfi. Deila má um hvort þörf hans til að styrkja eigin neyðarsjóð lýsi vissri uppgjöf eða sé einfaldlega afar raunsætt mat á stöðu Flokks fólksins innan ríkisstjórnarinnar. Langtímaseta Flokks fólksins í núverandi stjórnarsamstarfi er engan veginn tryggð. Í samstarfinu er flokkurinn veiki hlekkurinn, eins og stjórnarandstaðan gerir sér mætavel grein fyrir. Það sést langar leiðir að Sjálfstæðismenn geta ekki beðið eftir að sprengja ríkisstjórnina og sjá til þess ýmis ráð. Nokkrir þingmenn Flokks fólksins hafa, með alls kyns klaufalegum mistökum síðustu vikur, lagt Sjálfstæðismönnum til púðrið í fallbyssurnar og sýnt með því óþarfa örlæti.

Við lifum á tímum þar sem fjarska auðvelt er að rifja upp gömul orð, loforð og yfirlýsingar sem reynast alls ekki þola endurbirtingu. Í ljós kemur æpandi mótsögn milli þess sem sagt og gert var þá og þess sem er sagt og gert í dag. Um leið verður lítið eftir af trúverðugleika viðkomandi. Ragnar Þór er sannarlega ekki fyrstur manna til að verða fyrir þessu. Hann getur huggað sig við að þjóðin er oft afar fljót að gleyma og verður upptekin af nýju máli til að hneykslast á.