Spursmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Ekkert gagnsæi ríkir um það hverjir fái að afplána óskilorðsbundna refsidóma í formi samfélagsþjónustu. Í dag geta einstaklingar sem dæmdir eru í allt að tveggja ára fangelsi sótt um að sæta því úrræði, sem telst vægara en að enda í fangaklefa.
Þetta bendir Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari á í viðtali á vettvangi Spursmála. Efnt er til þess í tilefni greinar sem hann birti í riti sem gefið var út í lok síðasta árs í tilefni af 70 ára afmæli Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar.
Segir Helgi að sú leið sem farin var við innleiðingu samfélagsþjónustu hér á landi sé í algjöru ósamræmi við það sem gerist í öðrum löndum. Hér hafi Fangelsismálastofnun, sem er hluti af framkvæmdavaldinu, verið falið að breyta dómsorði á þann veg að óskilorðsbundnum dómum upp að ákveðinni tímalengd mætti breyta í samfélagsþjónustu. Þar með sé tekið fram fyrir hendurnar á dómstólum sem hvorki geti dæmt menn til samfélagsþjónustu né haft nokkuð um það að segja hverjir séu bærir til þess að sæta því úrræði í stað fangavistar.
Skýrt í berhögg
„Í mínum huga gengur þetta alveg skýrt í berhögg við stjórnarskrána vegna aðskilnaðar dómsvalds og framkvæmdavalds. Áður en þetta úræði var tekið upp sem fullnustuúrræði var það hlutverk Fangelsismálastofnunar að fullnusta dóma dómsvaldsins en ekki að breyta þeim og ákveða önnur viðurlög en þau sem dómstólar höfðu gert. Þá er ákvörðun dómstóls um refsingu gerð að vararefsingu,“ segir Helgi.
Í greininni bendir Helgi á að úrræðið hafi fyrst verið tekið upp á Englandi á áttunda áratug síðustu aldar í því skyni að stytta biðlista sem hrannast höfðu upp vegna yfirfullra fangelsa. Það hafi breiðst út og reynst afar vel. Af sömu ástæðu hafi það verið tekið upp hér en í fyrstu aðeins gagnvart dómum sem spönnuðu þriggja mánaða fangelsisvist eða skemmri. Þrýstingurinn í kerfinu hafi hins vegar valdið því að nú er margbúið að víkka kerfið út og sé dæmd refsivist sem falli undir úrræðið nú átta sinnum lengri en upphaflega eða 24 mánuðir. Segir Helgi að það sé of langt gengið enda hæpið að menn sem fremji alvarleg afbrot sem varði árs fangelsi eða meira eigi að geta tekið það út með samfélagsþjónustu í frítíma sínum og alfarið utan fangelsa.
Ofurlaun í þjónustunni
„Þetta á líka við um fésektir þar sem getur verið um himinháar fésektir að ræða, þar sem menn greiða ekki sekt innan ákveðins tíma þá eiga þeir að fara í fangelsi allt að einu ári. En í þess stað geta menn tekið það út með einhverjum dagafjölda í samfélagsþjónustu á, myndi ég segja, gríðarlega góðu kaupi,“ segir Helgi í viðtalinu.
Sem dæmi má taka nýlegan dóm þar sem tveir menn voru dæmdir til greiðslu sektar að fjárhæð 1,1 milljarður króna. Ef þeir greiða hana ekki varðar það árs fangavist. Ekkert segir að þessa sektarfjárhæð verði ekki mögulegt að „sitja af sér“ í formi samfélagsþjónustu. Lögum samkvæmt getur hún varað allt að 960 klst. Í þessu tiltekna máli myndi „kaupið“ í þjónustunni þá nema 1.145 þúsund krónum á tímann.
Líkt og meðfylgjandi graf sýnir, og tekið er upp úr nýjustu ársskýrslum Fangelsismálastofnunar sem aðgengilegar eru, hefur úrræðið sprungið út. Það eru hins vegar starfsmenn Fangelsismálastofnunar sem í öllum þessum tilvikum hafa ákveðið að breyta óskilorðsbundnu fangelsi í samfélagsþjónustu. Almenningur er í algjöru myrkri um hverjir það séu, ólíkt því sem gerist er refsibrot eru ákvörðuð af dómstólum.
Kallar án tafar á endurskoðun
Núgildandi fyrirkomulag, sem gerir ráð fyrir ramma allt að 24 mánuðum, er í gildi lögum samkvæmt til ársins 2027. Segir Helgi hins vegar nauðsynlegt að ráðast í endurskoðun á þessu kerfi nú þegar. Er hann með því ósammála því sem fram kom við samþykkt nýjustu löggjafar um málið.
„Þar er sérstaklega tekið fram í athugasemdum [við frumvarpið] að þetta fyrirkomulag, allt að tveggja ára skilorðsbundið fangelsi, gefi ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá. Þetta vakti sérstaka athygli mína því ég tel þetta brjóta í bága við aðra grein stjórnarskrárinnar um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds,“ útskýrir Helgi.
Önnur leið væri að láta dómstóla úrskurða um réttmæti þessa fyrirkomulags og hvort það stangist á við stjórnarskrá. En til þess þarf einhver sem hagsmuna hefur að gæta að skjóta því til dómstóla. Enn hefur það ekki gerst að einstaklingur sem sækir um að fá að taka refsingu sína út í formi samfélagsþjónustu hafi skotið niðurstöðu Fangelsismálastofnunar til dómstóla.