Síðasti miðvikudagur var eins og hver annar dagur á skrifstofunni fyrir Mohamed Salah. Hann skoraði að vísu ekki í 2:0-sigri á Newcastle United á Anfield en lagði upp seinna markið fyrir Alexis Mac Allister. Maðurinn stígur varla inn á fótboltavöll orðið án þess að skora eða leggja upp, helst hvort tvegga.
Að öðrum ólöstuðum á Salah drýgstan þátt í því að Liverpool er nú þegar komið með átta og hálfan fingur á Englandsbikarinn – og mars var rétt að byrja. Það hefur hreinlega ekki verið hægt að verjast honum. Enginn nennir lengur að ræða hver verði leikmaður ársins í Englandi, við erum í staðinn farin að hugsa um leikmann áranna. Það er áranna frá því að ensku úrvalsdeildinni var hrint af stokkunum, 1992. Liverpool á auðvitað 10 leiki eftir en haldist Salah heill á hann góða möguleika á því að verða sá maður sem í sögunni hefur komið að flestum mörkum á einni og stakri leiktíð í úrvalsdeildinni. Tölfræði er vitaskuld ekki upphaf og endir alls í knattspyrnu en hún segir okkur glettilega margt og heldur betur en flest í rökræðum milli manna.
25 mörk hefur Salah skorað í leikjunum 28 og lagt upp 17 til viðbótar; hann hefur sum sé haft beina aðkomu að 42 mörkum. Það er nánast galið. En hver á metið? hrópið þið nú og búist ugglaust við að heyra nafnið Cristiano Ronaldo eða Thierry Henry. Nei, það er rangt. Henry er að vísu í þriðja sæti á listanum; skoraði 24 mörk og lagði upp 20 veturinn 2002-03, samtals 44 stykki. Ronaldo er hins vegar hvergi að sjá á listanum yfir efstu menn enda bauð hann lögmálum tölfræðinnar einkum birginn eftir að hann hafði fært sig frá Manchester United yfir til Spánar.
Tveir menn deila metinu, báðir eins enskir og lifrarbaka og Jórvíkurskírisbúðingur. Og haldið ykkur nú! Við erum að tala um Alan Shearer og Andrew Cole. Báðir skoruðu þeir 34 mörk og lögðu upp 13 að auki á sínu besta tímabili í deildinni, Cole með Newcastle United 1993-94 og Shearer með Blackburn Rovers veturinn eftir. Við erum sum sé að tala um 30 ára gamalt met. Shearer og Cole eru á sextugsaldri í dag.
Þetta gera 47 aðkomur að marki alls, aðeins fimm fleiri en Salah er kominn með nú þegar. Hann hefur sum sé 10 leiki til að koma að sex mörkum í viðbót, eða meira, og slá þetta lífseiga met. Þorir einhver að veðja á að hann geri það ekki? Er Lengjan að vinna með einhvern stuðul?
Við skulum líka hafa í huga að leikirnir í úrvalsdeildinni voru fleiri í níunni, 42 en ekki 38 eins og núna. Cole lék 40 leiki og Shearer alla 42.
Aðrir sem farið hafa yfir 40 aðkomur að marki á einu tímabili eru Erling Haaland fyrir Manchester City (2022-23), 44 (36 mörk, 8 stoðsendingar); Luis Suárez fyrir Liverpool (2013-14), 43 (31 mark, 12 stoð) og okkar maður, Mohamed Salah, (2017-18), 42 (32 mörk og 10 stoð). Hann var með öðrum orðum að jafna sinn persónulega besta árangur í vikunni.
Falla bæði metin?
Ef við skiptum þessu upp í tvennt þá á Salah talsvert í land með að slá markametið í deildinni en það setti Haaland fyrir tveimur árum, 36 stykki. Bætti gamla metið sem Cole og Shearer áttu um tvö mörk. Salah þyrfti þá að setj'ann 12 sinnum í lokaleikjunum 10 til að skáka Norðmanninum. Svolítið bratt en alls ekki ómögulegt.
Stoðsendingametið er í mun meiri hættu en því deila téður Thierry Henry og Kevin De Bruyne (Manchester City), 20. Við vitum þegar hvenær Henry vann það afrek en KDB, eins og kunningjar hans kalla hann, gerði þetta 2019-20. Næstu nöfn á listanum eru einnig kunnugleg, KDB aftur, Mesut Özil (Arsenal), Cesc Fábregas og Frank Lampard (báðir Chelsea), allir 18. Salah er þegar búinn að slá við köppum á borð við Eric Cantona, Eden Hazard, Robert Pires og David Beckham, sem einnig hafa hreiðrað um sig á topplistanum.
Salah er markahæstur í deildinni á þessum vetri, með 25, fimm mörkum fyrir ofan Haaland og sex á undan Alexander Isak hjá Newcastle. Chris gamli Wood, miðherji Nottingham Forest, er svo fjórði, með 18. Móðir hans sendir mér ábyggilega blóm fyrir að nefna hann í þessu samhengi. Líklegt verður að teljast að Salah hafi þetta en enginn skyldi þó útiloka undrið Haaland, þótt hann sé að eiga vont tímabil á sinn mælikvarða.
Salah er á hinn bóginn nokkuð öruggur með stoðsendingatitilinn; næstu menn eru með 10 stykki, Bukayo Saka (Arsenal), Antonee Robinson (Fulham) og Mikkel Damsgaard (Brentford). Saka hefur ábyggilega sjálfur haft metið í sigtinu en hann var kominn með sín 10 stoð strax í desember, þegar hann meiddist illa og hefur ekki leikið síðan. Á þeim tímapunkti var hann fyrir ofan Salah.
En jæja, næstu vikur munu skera úr um það hvort Mohamed Salah brýtur blað í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Auðvitað er ekkert fast í hendi en nú falla samt öll vötn til Dýrafjarðar.