Brynja Sveinsdóttir er annar sýningarstjóra samsýningarinnar Stara í Gerðarsafni. Hún segir titilinn eiga vel við.
Brynja Sveinsdóttir er annar sýningarstjóra samsýningarinnar Stara í Gerðarsafni. Hún segir titilinn eiga vel við. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þarna eru verk átta einstaklinga sem fjalla um sjálfið og sjálfsmyndina á mjög hráan og afhjúpandi hátt.

Í Gerðarsafni var nýverið opnuð samsýningin Stara, sem er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands. Á sýningunni eru verk eftir fimm ljósmyndara og þrjá listamenn sem vinna í ýmsa miðla. Sýningarstjórar eru Brynja Sveinsdóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir, sem lýsa verkum sýningarinnar sem áköfu hvísli.

„Þarna eru verk átta einstaklinga sem fjalla um sjálfið og sjálfsmyndina á mjög hráan og afhjúpandi hátt,“ segir Brynja.

Hún segir verkin tengjast í gegnum berskjaldaða nálgun listafólksins auk þess sem þemu séu gegnumgangandi í sýningunni. „Eitt þema snýst um að reyna að útskýra eða finna stöðu sína innan samfélagsins og átta sig á eigin sjálfi í samhengi við þær skorður sem eru settar í samfélaginu.“

J. H. Engström er sænskur ljósmyndari, vel þekktur innan ljósmyndaheimsins. Hann sýnir nýjasta verk sitt, The Frame. „Þar veltir hann fyrir sér karlmennsku, hvernig hann geti skilgreint sjálfan sig sem listamann, karlmann og föður og skoðar einnig karlmennina í kringum sig. Hann er að endurhugsa margt enda lifum við á áhugaverðum tíma þar sem við erum komin með meira leyfi til að endurskilgreina og rýna í félagslega stöðu okkar,“ segir Brynja.

Í sama sal er verk eftir Adele Hyry, sem er finnskt listakvár sem er að leita að mörgum andlitum sínum. „Þetta er ljósmyndasería sem var tekin á löngum tíma þar sem Adele myndar sig og veltir fyrir sér sjálfsmynd sinni og er í rauninni að leika sér með ljósmyndamiðilinn. Sadie Cook, sem er listakvár, sýnir sömuleiðis í þessum sal og vinnur út frá heimilinu. Hugsunin er sú að heimilið sé staður þar sem við búum okkur til samverustað, vettvangur þar sem við ræktum okkar nánustu sambönd en líka staður þar sem við tökumst á við áföll og erfiðleika.“

Annað þema snýst um það hver eigi söguna, hver sé höfundurinn og hver hafi rétt á að segja söguna.

Michael Richardt er dansk-íslenskur listamaður sem vinnur með gjörninga, teikningar og vídeóverk. „Við sýnum heimildarmynd sem danska ríkisútvarpið, DR, gerði og fjallar um Michael og mömmu hans og samband þeirra. Mamma hans er skrautlegur karakter sem hefur lifað mjög mögnuðu og flóknu lífi og hann var upphaflega settur fram sem sonurinn sem var á vissan hátt fórnarlamb flókinna fjölskylduaðstæðna. Hann bregst við þessu með því að taka yfir frásögnina, mætir í tökur blámálaður og í munstruðum fötum sem bera með sér merkingu. Hann snýr frá því að vera umfjöllunarefnið yfir í að vera sá sem segir söguna.“

Að skjóta rótum

Kristinn G. Harðarson á verk á sýningunni. „Kristinn er listamaður sem hefur unnið með ólíka snertifleti við sitt hversdagslega líf og þar er falleg og hljóðleg nálgun. Hann sýnir útsaumsverk sem hann vann eftir skissum konu sinnar, sem er ekki myndlistarkona heldur læknir. Þegar þau bjuggu erlendis skoðaði hún oft fasteignaauglýsingar og rissaði upp hvernig þau myndu koma sér fyrir í viðkomandi íbúð. Kristinn tók þessar hraðvirku skissur og gerði nákvæm útsaumsverk eftir þeim og umbreytir þeim þannig í listaverk. Það má sjá vissa tengingu milli Kristins og Sadie Cook, en verk þeirra eru í sama sýningarsal, og fjalla um heimilið og löngun okkar til að skjóta rótum,“ segir Brynja.

Dýrfinna Benita Basalan sýnir skúlptúra og málverk sem fjalla um unglingsár hennar. „Verkið sprettur upp úr upplifun hennar á því að vera manneskja af filippseyskum uppruna sem elst upp í samfélagi sem skapar ekki pláss fyrir hana og hún upplifir sig því nokkuð á jaðrinum. Verk hennar eru á sama tíma óður til þess umbrotstíma að vera unglingur þar sem við erum á viðkvæmum en þó einnig hrifnæmum stað í lífinu.“

Ekki valdalaus viðföng

Jói Kjartans er með ljósmyndaseríu sem fjallar um tólf ára samband hans og fyrrverandi konu hans, Hildar. „Áhorfandinn fylgist með fyrstu árum þeirra saman, síðan flytja þau til útlanda og eignast börn. Í lokin sér maður fallegt fjölskyldulíf en finnur samt líka að einhver neisti og tenging hafa horfið. Það býr gríðarleg orka í verki Jóa sem hleypir okkur inn fyrir þar sem hrifning, ást og skemmtanalíf þróast í fjölskyldulíf með öllum sínum flækjum og fallegu stundum.

Verk hans kallast mjög sterkt á við verk sænsku listakonunnar Jenny Rova. Hún bað fyrrverandi kærasta sína að gefa sér myndir sem þeir höfðu tekið af henni. Aftur erum við að leika okkur með hver er höfundurinn. Hún tekur ekki eina einustu mynd en þarna eru 80 ljósmyndir af henni. Þá vaknar spurningin: Hver segir söguna og hver er viðfangsefnið?“

Um titil sýningarinnar Stara segir Brynja: „Okkur fannst Stara eiga vel við því þegar við sem áhorfendur skoðum ljósmyndir gefum við okkur leyfi til að horfa mjög náið og líta inn í líf fólks en á þessari sýningu eru þau sem við sjáum á myndunum langt frá því að vera valdalaus viðföng. Þau stara mjög ákveðið til baka og sýna þannig vald sitt.“