Lilja Gísladóttir fæddist á Ölkeldu í Staðarsveit 6. nóvember 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Grund 9. febrúar 2025. Fyrra heimili hennar var á Lindargötu 61 í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru Gísli Þórðarson, f. 12. júlí 1886, d. 20. september 1962, og Vilborg Kristjánsdóttir, f. 13. maí 1893, d. 26. desember 1993. Systkini Lilju voru Þórður, f. 1916, d. 1994, Elín Guðrún, f. 1917, d. 2006, Alexander, f. 1918, d. 1991, Kristján Hjörtur, f. 1923, d. 2015, Ólöf Fríða, f. 1927 og Guðbjartur, f. 1930, d. 1984.

Lilja giftist Marteini (Folmer) Níelssyni járnsmið, f. 10. júlí 1930, d. 28. desember 2003, þann 30. júní 1956. Börn þeirra eru:

1) Vilborg, f. 8. mars 1956, d. 23. apríl 2015, maki hennar var Egill Harðarson. Dóttir Vilborgar er Marta.

2) Marteinn, f. 9. júní 1960, maki hans er Michelle Marteinsson. Börn þeirra eru Lilja Ósk, Matthildur Ýr og Ásgeir.

3) Gísli, f. 22. janúar 1966, d. 27. ágúst 2008, sonur hans er Arnar.

Lilja átti einnig þrettán barnabarnabörn og þrjú barnabarnabarnabörn.

Lilja ólst upp á Ölkeldu í Staðarsveit en flutti síðar til Reykjavíkur, þar sem hún gekk í hjónaband og stofnaði fjölskyldu. Hún lauk sjúkraliðanámi og starfaði lengst af við hjúkrun á Borgarspítalanum. Lilja var virkur þátttakandi í kórastarfi og söng meðal annars með Snæfellingakórnum, Kór Óháða safnaðarins og Kór eldri borgara í Garðabæ.

Útför Lilju fór fram í kyrrþey að ósk hennar og fjölskyldu.

Með ást og söknuði kveðjum við elskulega móðursystur okkar, Lilju Gísladóttur, sem lést 9. febrúar 2015. Hún fæddist 6. nóvember 1934 á Ölkeldu í Staðarsveit. Hún var yngst af sjö börnum hjónanna Vilborgar Kristjánsdóttur og Gísla Þórðarsonar.

Lilja ólst upp í kærleiksríku umhverfi foreldra sinna, sem lögðu grunn að gildum hennar um ást, samheldni og umhyggju. Lilja var strax í barnæsku mikill orku- og gleðibolti. Hún deildi gleði sinni og lífsreynslu með öllum sem hún átti samskipti við og var alltaf til staðar, til að styðja og hvetja fólkið sitt í gegnum lífsins áskoranir og gleði.

Rúmlega tvítug kemur hún til Reykjavíkur og býr þá hjá systur sinni, foreldrum okkar Elínu og Þórði Kárasyni á Sundlaugavegi 28. Á efstu hæðinni voru fimm herbergi sem foreldrar okkar leigðu út. Einn leigjandinn var ungur járnsmiður, Folmer Martin Nielsen. Hann átti danskan föður og hafði alist upp meira eða minna í Randers á Jótlandi. Hann var tiltölulega nýfluttur til Íslands. Lilja vann á saumastofu þennan vetur og um jólin voru þau Lilja og Folmer trúlofuð. Þau hófu búskap í leiguíbúð í Háagerði en 1968 kaupa þau sér íbúð í neðra Breiðholti, sem þá var nýbyggt. Þar bjuggu þau alla sína hjúskapartíð. Þar ólust börnin þeirra þrjú upp. Folmer fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1965 og tók þá upp nafnið Marteinn Nílson.

Lilja menntaði sig til sjúkraliða eftir að hún gifti sig og vann lengst af á Borgarspítalanum.

Þó að Lilja hafi ekki verið lengi á Sundlaugaveginum varð hún strax ein af fjölskyldunni, góð fóstra og/eða systir. Við systkinin vorum mikið í sveit á Ölkeldu á sumrin og eftir að Lilja var sest að í Reykjavík. Þá kom hún flest sumur vestur að Ölkeldu til að taka þátt í bústörfunum. Vinnugleði hennar og dugnaður við heyskapinn var mikill, sem smitaði alla sem með henni voru.

Lilja og Folmer voru besta vinafólk foreldra okkar. Þau fjögur ferðuðust mikið saman, bæði innanlands og til útlanda. Árið 1973 byggja þær systur, Lilja og mamma, með hjálp maka sinna, hvor sitt sumarhúsið á bökkum Staðarár í landi Ölkeldu. Vinskapur systra og ekki minnst vinátta Folmers og pabba okkar var náin og einstök. Eftir fráfall foreldra okkar tókum við systkin við rekstri sumarhússins og áttum yndislega tíma með Lilju og Folmeri síðustu ár þeirra, sem eigendur Staðarbakka.

Á fyrsta tug þessarar aldar missir Lilja eiginmann sinn Folmer, dóttur sína Vilborgu og son sinn Gísla með stuttu millibili. Þetta var erfiður tími fyrir Lilju. Nú hafði hún stuðning af Marteini syni sínum, tengdadóttur Michèle og barnabörnum, sem sum hver voru orðin fullorðin.

Við systkin sendum Marteini, Michèle, Mörtu, Lilju Ósk, Matthildi, Ásgeiri og öðrum afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Vilborg, Kári og Gísli Þór Þórðarbörn.

Nú er Lilja frænka farin, rúmlega 90 ára að aldri.

Ég minnist hennar með kærleik og þakklæti.

Þegar ég hugsa um Lilju koma upp hugsanir um: glaðværð, jákvæðni, söngelsku, raunsæi, bjartsýni, kjark, þrautseigju og seiglu. Hún var og er fyrirmynd mín að svo mörgu leyti.

Lilja var föðursystir mín, yngst sjö systkina sem ólust upp á Ölkeldu í Staðarsveit. Átthagatengsl hennar voru sterk, hún heimsótti móður sína og heimahagana á Ölkeldu oft ásamt fjölskyldu sinni. Börnin hennar og við systkinin tengdumst vel með samveru í sveitinni.

Lilja og maður hennar Folmer byggðu sumarbústað við Staðará í landi Ölkeldu og nefndu hann Staðarbakka. Margar minningar frá bernsku-, unglings- og fullorðinsárum tengjast heimsóknum hennar og fjölskyldu á Ölkeldu og í bústaðinn. Ég er mjög þakklát fyrir að mér gafst tækifæri til að eignast þennan bústað fyrir nokkrum árum þar sem ég dvel nú oft allan ársins hring og nýt vel í faðmi fjalla við gnæfandi Snæfellsjökul.

Þegar ég varð orðin stór tengdumst við Lilja í Snæfellingakórnum þar sem hún var mentor minn í altröddinni. Lilja hafði unun af söng og var einstaklega fær í að radda lög. Eitt sinn hittumst við frænkurnar, ég, Lilja og Villa Hjartar, heima hjá mér í kvöldboði. Þegar leið á kvöldið brustum við í söng og færðum okkur í eldhúsið, lokuðum að okkur til að trufla ekki nágranna þar sem komið var yfir miðnætti. Við sungum í alsælu fram eftir nóttu. Nágranni á neðri hæðinni nefndi við mig síðdegis daginn eftir hvort það gæti verið að það hefði verið söngæfing uppi hjá mér í gærkveldi en sagðist jafnframt hafa haft unun af að heyra söng okkar.

Lilja frænka mín léttlynda var ekki alltaf hlémegin í lífinu. Hún missti manninn sinn og tvö fullorðin börn sín á ótímabæran hátt. Þrátt fyrir það hélt hún lífi sínu áfram með ofannefndum kostum, en hún átti líka sínar döpru stundir, tilfinningar og minningar um missi, sem hún flíkaði ekki.

Ég er þakklát fyrir gefandi samferð og samveru mína og Lilju frænku.

Votta aðstandendum samúð. Minningin um Lilju mun lengi lifa.

Signý Þórðardóttir.